Fossvogur Danijel Dejan Djuric einbeittur á svip í bikarslagnum í gærkvöld en hann skoraði tvö fyrstu mörk Víkings gegn Fylki.
Fossvogur Danijel Dejan Djuric einbeittur á svip í bikarslagnum í gærkvöld en hann skoraði tvö fyrstu mörk Víkings gegn Fylki. — Ljósmynd/Kristinn Steinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Víkingar eru á höttunum eftir sínum fimmta bikarmeistaratitli í röð en þeir komust í gærkvöld í undanúrslitin í bikarkeppni karla í fótbolta með því að vinna öruggan sigur á Fylki í Fossvoginum, 3:1

Bikarinn

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Víkingar eru á höttunum eftir sínum fimmta bikarmeistaratitli í röð en þeir komust í gærkvöld í undanúrslitin í bikarkeppni karla í fótbolta með því að vinna öruggan sigur á Fylki í Fossvoginum, 3:1.

Í undanúrslitum fá Víkingar heimaleik gegn Stjörnunni en dregið var til þeirra strax eftir leikinn og í hinum leiknum mætast KA og Valur á Akureyri. Leikirnir eiga að fram 3. og 4. júlí og sigurliðin mætast í úrslitaleik á Laugardalsvellinum föstudagskvöldið 23. ágúst.

Fylkismenn voru ágengir fyrsta hálftímann í Fossvogi og fengu sex fyrstu hornspyrnur leiksins. Þær gefa hins vegar ekki neitt og Víkingar komust yfir gegn gangi leiksins á 31. mínútu þegar Danijel Dejan Djuric skoraði með viðstöðulausu skoti rétt innan vítateigs eftir hornspyrnu Karls Friðleifs Gunnarssonar.

Aðeins fjórum mínútum síðar skoraði Danijel aftur, nú af markteig eftir fyrirgjöf Helga Guðjónssonar frá vinstri. Staðan var orðin 2:0 og Víkingar búnir að snúa leiknum algjörlega sér í hag á fjögurra mínútna kafla.

Helgi lagði upp annað mark fyrir Valdimar Þór Ingimundarson fyrrverandi Fylkismann á 58. mínútu og staðan var því orðin 3:0.

Fylkismenn komust á blað á 88. mínútu þegar Pálmi Rafn Arinbjarnarson markvörður Víkings missti boltann í netið eftir hornspyrnu Arnórs Breka Ásþórssonar og lokatölur urðu 3:1.

KA enn í undanúrslit

KA er komið í undanúrslitin þriðja árið í röð eftir mjög sannfærandi sigur á Fram, 3:0, á heitasta degi ársins á Akureyri í gærkvöld.

KA-menn töpuðu fyrir Víkingi í úrslitaleiknum í fyrra og féllu gegn FH í undanúrslitum haustið 2022, en félagið er enn á höttunum eftir sínum fyrsta sigri í bikarnum.

Bjarni Aðalsteinsson skoraði strax á 6. mínútu eftir hornspyrnu Harley Willards og var aftur á ferð á 78. mínútu eftir að skot Sveins Margeirs Haukssonar var varið. Hallgrímur Mar Steingrímsson innsiglaði sigurinn eftir langa sendingu Sveins Margeirs fram völlinn á 89. mínútu, 3:0.

Mark Hallgríms var hans hundraðasta í deild, bikar og Evrópukeppni fyrir KA.

Stjarnan komst í undanúrslitin í fyrrakvöld með því að vinna Þór, 1:0, á grasvelli Akureyrarliðsins. Róbert Frosti Þorkelsson skoraði sigurmarkið í uppbótartíma.

Höf.: Víðir Sigurðsson