Mansal Á annan tug manna kom að aðgerðum gærdagsins á Laugavegi.
Mansal Á annan tug manna kom að aðgerðum gærdagsins á Laugavegi. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Þrír voru handteknir í gær í aðgerðum lögreglu sem tengdust veitingastaðnum Gríska húsinu á Laugavegi 35. Handtökurnar fóru fram í kjölfar skoðunar lögreglu og skattsins á rekstrar- og starfsmannaleyfum matsölustaða

Ellen Geirsdóttir Håkansson

ellen@mbl.is

Þrír voru handteknir í gær í aðgerðum lögreglu sem tengdust veitingastaðnum Gríska húsinu á Laugavegi 35. Handtökurnar fóru fram í kjölfar skoðunar lögreglu og skattsins á rekstrar- og starfsmannaleyfum matsölustaða. Grunur leikur á um að starfsmenn staðarins séu þolendur mansals.
Í tilkynningu lögreglu vegna málsins kom fram að við skoðun hefði komið í ljós að fjórir af þeim tuttugu stöðum sem voru kannaðir voru án starfsleyfis og einn án smásöluleyfis. Þá hefðu tveir starfsmenn matsölustaða reynst án atvinnuréttinda.

Aðgerðir gærdagsins við Gríska húsið voru umfangsmiklar, á annan tug manna kom að þeim, en auk lögreglu og skattsins voru fulltrúar Bjarkarhlíðar, miðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis, á staðnum. Að sögn Jennýjar Kristínar Valberg, teymisstýru hjá Bjarkarhlíð, koma fulltrúar þeirra að málum þar sem möguleiki er á mansali. Þau hafi því tekið þátt í aðgerðunum að beiðni lögreglu.
„Ef það skyldu vera þolendur sem þyrftu að fá upplýsingar og aðstoð og stuðning,“ segir Jenný. Hún gat þó ekkert sagt um hvort þörf hefði verið á aðstoð Bjarkarhlíðar að þessu sinni.

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar, staðfesti við mbl.is að aðgerðin tengdist hvorki handtöku tveggja manna á nuddstofu í Reykjavík vegna ábendingar um mansal nú nýlega né máli Davíðs Viðarssonar, áður Quang Lé. Mál Quangs Lé hefur verið mikið í umræðunni en hann situr í gæsluvarðhaldi grunaður um mansal og peningaþvætti ásamt fleiru.

Í síðustu viku ræddi lögreglan við 26 konur, allar af erlendu bergi brotnar, vegna auglýsinga um sölu á vændi. Grímur sagði að um reglubundið eftirlit hefði verið að ræða.

„Við gerum þetta annað slagið, að fara svona og ræða við fólk sem að auglýsir vændi til sölu. Og það er ekki vegna þess að við séum að fetta fingur út í það endilega að það sé verið að selja vændi heldur snýst þetta meira um að kanna hvort þeir sem eru í þessu séu hugsanlega fórnarlömb mansals. Og síðan eftir atvikum bjóða þeim aðstoð sem myndu svara með þeim hætti að þau væru fórnarlömb mansals,“ segir Grímur.

Höf.: Ellen Geirsdóttir Håkansson