Nesið Vicente Valor skallar boltann í mark Gróttu og kemur Eyjamönnum í 2:0 undir lok fyrri hálfleiksins á Seltjarnarnesi í gærkvöld.
Nesið Vicente Valor skallar boltann í mark Gróttu og kemur Eyjamönnum í 2:0 undir lok fyrri hálfleiksins á Seltjarnarnesi í gærkvöld. — Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
Njarðvíkingar gefa ekkert eftir í toppbaráttu 1. deildar karla í fótbolta og þeir komust aftur í efsta sæti deildarinnar í gærkvöld með því að vinna öruggan sigur á ÍR á heimavelli, 3:0. Njarðvík er með sextán stig eftir sjö leiki, tveimur meira en…

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Njarðvíkingar gefa ekkert eftir í toppbaráttu 1. deildar karla í fótbolta og þeir komust aftur í efsta sæti deildarinnar í gærkvöld með því að vinna öruggan sigur á ÍR á heimavelli, 3:0.

Njarðvík er með sextán stig eftir sjö leiki, tveimur meira en Fjölnir sem getur endurheimt toppsætið á morgun þegar Grafarvogsliðið tekur á móti Þór.

Staðan var orðin 2:0 eftir 20 mínútur í Njarðvík, Dominik Radic og Arnar Helgi Magnússon skoruðu mörkin. Dominik var aftur á ferðinni með þriðja markið stuttu fyrir leikslok. Gunnar Heiðar Þorvaldsson er greinilega að gera góða hluti með Njarðvíkurliðið sem hélt markinu hreinu í fjórða sinn í fyrstu sjö umferðum deildarinnar.

Nýliðarnir í ÍR unnu óvæntan sigur á Keflavík í fyrstu umferð en eru síðan án sigurs í sex leikjum og stefna í erfiða botnbaráttu með þessu áframhaldi.

ÍBV stöðvaði Gróttu

Eyjamenn höfðu gert fjögur jafntefli í röð og aðeins unnið einn af fyrstu sex leikjum sínum en þeir gerðu sér lítið fyrir og lögðu Gróttu, 3:0, á Seltjarnarnesi í gærkvöld. Grótta hafði ekki tapað leik en líka gert fjögur jafntefli.

Jón Ingason kom ÍBV yfir með glæsilegu langskoti og Vicente Valor skoraði laglegt skallamark undir lok fyrri hálfleiks. Hermann Þór Ragnarsson kom inn á sem varamaður um miðjan síðari hálfleik, í sínum fyrsta leik á tímabilinu, og innsiglaði sigur ÍBV með marki á 78. mínútu.

Sigurmark frá Sigurpáli

Afturelding er heldur betur að rétta sig af eftir slæma byrjun. Mosfellingar, sem voru hársbreidd frá Bestu deildinni í fyrra, unnu ekki neinn af fyrstu fjórum leikjunum á tímabilinu í vor en í gærkvöld unnu þeir hins vegar þriðja leikinn í röð, 2:1 gegn Þrótti úr Reykjavík í Laugardalnum.

Afturelding er þar með komin í þriðja sæti deildarinnar en Þróttarar hafa enn aðeins unnið einn leik og sitja í tíunda sætinu.

Andri Freyr Jónasson kom Aftureldingu yfir strax á 8. mínútu en liðið fékk á sig sjálfsmark mínútu síðar. Það var svo varamaðurinn Sigurpáll Melberg Pálsson sem skoraði sigurmarkið, 2:1, með skalla eftir hornspyrnu Arons Jóhannssonar á 79. mínútu.

Höf.: Víðir Sigurðsson