Esther Jósefsdóttir fæddist í Reykjavík 17. desember 1928. Hún lést 2. maí 2024 á hjúkrunarheimilinu Hrafnistu í Reykjanesbæ.

Edda ólst upp í Bræðratungu í Laugardalnum Reykjavík. Foreldrar hennar voru Bárðný Jónsdóttir, f. 23.3. 1902, d. 29.6. 1958, og Jósef Eggertsson sjómaður, f. 17.6. 1901, d. 9.7. 1976. Systkini Estherar voru Ágúst, Eggert og Gréta sem öll eru látin og Hulda sem lifir systur sína og býr í Reykjavík.

Edda giftist Guðbergi Ólafssyni, leigubílstjóra og útvegsbónda, f. 7.8. 1927, d. 18.4. 2023, þann 2. september 1961. Foreldrar hans voru hjónin Þuríður Guðmundsdóttir, f. 17.4. 1891, d. 25.2. 1974, og Ólafur Pétursson, bóndi og sjómaður, f. 28.6. 1884, d. 11.10. 1964. Systkini hans voru Guðmundur, Guðrún, Ellert, Guðfinna, Viggó, Pétur, Hrefna, Margrét, Ólafur, Bjarney, Áslaug Hulda, Eyjólfur og Klara, þau eru öll látin.

Edda eignaðist fimm syni, þeir eru: 1) Haukur Berg, f. 15.12. 1954. Maki hans er Halldóra Stefánsdóttir, f. 18.11. 1951, eiga þau fjögur börn og 13 barnabörn. 2) Ólafur, f. 2.9. 1960, maki hans er Björk Árnadóttir, f. 27.12. 1961, eiga þau tvo syni og átta barnabörn. 3) Birgir, f. 30.1. 1963, maki hans er Deborah Wamalwa, þau eiga sex börn og fimm barnabörn. 4) Sævar, f. 25.1. 1966, maki hans er Lovísa Ólafsdóttir, f. 10.7. 1965, þau eiga þrjú börn og níu barnabörn. 5) Guðmundur Bjarni, f. 3.1. 1968, maki hans er Fjóla Ævarsdóttir, f. 22.12. 1970, þau eiga fimm börn og sjö barnabörn.

Edda ólst upp í foreldrahúsum í Bræðratungu í Laugardal og síðan á Sogavegi 5 þar sem leiðir þeirra Begga lágu fyrst saman. Á þessum árum starfaði Edda hjá Guðmundi Þorteinssyni gullsmið í verslun hans í Bankastræti. Edda og Beggi hófu sambúð 1959 á æskuheimili Eddu. Síðar stofnuðu þau sitt fyrsta heimili í Gnoðavogi 66, þaðan lá leiðin í Valfell í Vogum á Vatnsleysuströnd, síðan í Smáratún 31 í Keflavík, eftir það gerðust þau frumbyggjar í Hornbjargi, Kirkjuvegi 1 í Keflavík, og að endingu flutti hún á Nesvelli í Reykjanesbæ, fyrst í þjónustuíbúð og síðar Hrafnistu. Edda var heimavinnandi húsmóðir allt þar til drengirnir hennar voru komnir á legg, eftir það starfaði hún utan heimilis, m.a. í Ragnarsbakaríi og á Ökuleiðum. Hennar helstu áhugamál voru fjölskyldan, handavinna og ferðalög innan lands sem utan, þá hafði hún mikinn áhuga á körfubolta og fylgdist vel með honum. Hún var virk í félagsstarfi aldraðra og tók virkan þátt í ferðalögum á þeirra vegum.

Esther verður jarðsungin frá Keflavíkurkirkju í dag, 14. júní 2024, klukkan 11. Streymt verður frá útförinni og má nálgast hlekk á streymi á
www.mbl.is/andlat

Nú þegar við kveðjum þig, elsku mamma, hlaðast upp minningar og einnig myndast tómarúm. Allar helgarheimsóknirnar í Keflavík til ykkar pabba voru fastir liðir hjá okkur.

Þú varst alltaf jákvæð, glaðlynd, traust og úrræðagóð og þú kveður okkur, sátt með lífið.

Þú varst heimavinnandi húsmóðir stóran hluta ævinnar og leystir það upp á tíu, varst í stóru hlutverki, hugsa um heimilið og ala upp og aðstoða drengina þína fimm meðan pabbi vann langan vinnudag. Það voru alltaf heimabakaðar kökur og annað góðgæti á borðum hjá þér og enginn fór svangur frá borðum.

Fjölskyldujólaboðin og Ljósanætur-kaffið hjá þér er eitthvað sem við eigum eftir að sakna.

Þú varst mikil fjölskyldukona. Þér var umhugað um afkomendurna, börnin barnabörnin og barnabörnin og fylgdist alltaf vel með þeim og eftir komu facebook var það ekkert mál.

Þú varst alltaf til í samverustundir. Mættir alltaf í afmæli og aðra gleði í fjölskyldunni meðan heilsan leyfði. Þú varst alltaf mjög félagslynd, helstu áhugamálin voru ferðalög, hannyrðir og félagsstarf eldri borgara. Þið pabbi ferðuðust bæði innanlands og erlendis með fjölskyldu og vinum.

Samvera með saumaklúbbnum og ævilöng vinátta ykkar vinkvennanna var þér mikils virði.

Þú varst líka virk í félagsstarfi eldri borgara, fórst í ferðir, dansaðir línudans og spilaðir pútt.

Þín verður sárt saknað.

Umhyggju og ástúð þína

okkur veittir hverja stund.

Ætíð gastu öðrum gefið

yl frá þinni hlýju lund.

Gáfur prýddu fagurt hjarta,

gleðin bjó í hreinni sál.

Í orði og verki að vera sannur

var þitt dýpsta hjartans mál.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Takk fyrir allt.

Haukur og Halldóra.

Það eru góðar minningar sem koma þegar við hugsum til hennar elsku mömmu Eddu. Hún var yndisleg, dugleg og skemmtileg. Hafði mikinn áhuga á fjölskyldunni og öllu sem var að gerast í kringum hana, fylgdist vel með fréttum og Mogginn, Fréttablaðið og Víkurfréttir voru sótt á hverjum degi. Þetta voru allt nauðsynleg blöð til að geta fylgst með fréttum. Einnig var hún vel virk á facebook þrátt fyrir háan aldur. Það var skilgreint sem neyðarástand ef facebook virkaði ekki í einhvern tíma. Það var allt ómögulegt þangað til búið var að græja það.

Hún skrifaði afmælisdaga allra í fjölskyldunni í afmælisdagabók og fékk síðan aðstoð við að kaupa viðeigandi afmælisgjafir.

Þau voru ófá símtölin þar sem hún hringdi og sagði okkur fréttir af fjölskyldumeðlimum. Hún sá til þess að allir væru upplýstir og hringdi á heimili bræðranna þegar eitthvað var um að vera og líka til að kanna hvort það væru einhverjar fréttir sem hún gæti komið á framfæri. Hún hringdi mjög oft á kvöldin eftir að hún varð ein og Beggi farinn á hjúkrunarheimili. Þetta voru yndisleg símtöl þar sem farið var yfir atburði dagsins og hvað væri að gerast næstu daga í „vinnunni hennar“ eins og hún kallaði dvölina á dagvistuninni á Nesvöllum.

Edda var mikil húsmóðir og heimili hennar alltaf tandurhreint og allir hlutir á sínum stað. Þegar hún var flutt á Nesvelli fékk hún aðstoð við þrif, en þegar fór að líða að jólum þá þurfti svo sannarlega aukaþrif og aðstoð við að setja upp jólaskrautið. Það voru ómetanlegar stundir sem við áttum saman við að setja heimilið í jólabúning. Kidda var einstaklega dugleg við jólaþrifin og jólaskrautið. Lily hjálpaði henni líka töluvert með þrifin. Á Þorláksmessukvöld fórum við oft með hana rúnt niður í bæ til þess að sjá lífið í bænum og til að skoða jólaskreytt hús bæjarins. Henni fannst það einstaklega gaman og var hún með óskir um að skoða hin og þessi hús þar sem hún þekkti ábúendur.

Hún var einstaklega dugleg að bjarga sér sjálf og keyrði bíl þangað til hún var 92 ára. Einu sinni snemma á laugardagsmorgni var hún á ferðinni á bílnum sínum á leiðinni í Bónus og hafði greinilega keyrt heldur greitt. Þá var hún stoppuð af lögreglunni. Hún lét þá bara heyra það að þeir ættu að snúa sér að einhverju öðru en að sekta gamlar konur. Hún slapp því miður ekki við sektina. Hún kom í heimabankann stuttu síðar.

Edda var mikill húmoristi. Hún sá alltaf spaugilegu hliðarnar á öllum málum. Hún hafði gaman af íþróttum og fylgdist vel með körfuboltanum á veturna. Þau Mummi horfðu oft á leikina saman, henni til mikillar ánægju. Þegar Mummi fór heim þá hringdi hún í okkur og fór yfir leikina og stöðuna í deildinni. Hún vissi líka nákvæmlega hvernig leikirnir fóru í Grindavík þar sem Jói okkar var leikmaður framan af og síðar þjálfari.

Elsku mamma Edda. Við hlökkum til að hitta þig og pabba þegar okkar tími kemur. Við munum gera okkur glaðan dag og fá okkur súkkulaðirúsínur og Baileys, sem var í miklu uppáhaldi hjá þér. Guð geymi þig og takk fyrir allt saman.

Ólafur og Björk.

Á degi sem þessum staldrar maður við og leyfir huganum að reika og hugsa út í það hvað lífið er í raun stutt og hversu dýrmætt það er að hlúa vel að því. Í dag fylgjum við mömmu/tengdamömmu eða bara mömmu síðustu gönguna í þessu jarðneska lífi. Að ala upp fimm drengi er ákveðið afrek, uppátækin í æsku voru mörg, misgáfuleg og mishættuleg og myndu mörg þeirra ugglaust enda á borði barnaverndar í dag. Það var mömmu líklega til happs að hafa ekki vitað af öllu því sem var brallað. Við ólumst upp við mikið frjálsræði og það ríkti mikið traust í uppeldinu, maður fór út á morgnana og kom jafnvel lítið sem ekkert heim yfir daginn fyrr en seint á kvöldin, hún vissi alltaf að maður myndi skila sér heim.

Mamma fór ekki út á vinnumarkaðinn fyrr en við yngstu strákarnir vorum komnir í fyrstu bekki grunnskóla og fyrir tilstuðlan hennar, kjark og staðfestu komumst við allir til manns. Á sunnudögum var alltaf lambalæri eða lambahryggur og svo súkkulaðiterta og sultukaka í kaffinu og ef gert var extra vel við okkur þá var bibbakaka einnig á boðstólunum.

Lovísa kom inn í fjölskylduna 16 ára gömul, alin upp með þremur systrum þar sem ögn rólegra var á heimilinu en stundum var svona „survival of the fittest“-stemning við matarborðið og er eitt minnisstætt atvik þar sem bræðurnir og pabbi kepptust við að borða og þegar mamma loks ætlaði að setjast niður og fá sér að borða stóðu eftir einungis nokkrar kartöflur og grænar baunir, þetta sló aðeins á puttana á manni og ég held við höfum ekki látið þetta gerast aftur.

Til að drengirnir fengju nú nóg D-vítamín var drukkið mikið af mjólk. Þegar við vorum litlir var bara einn bíll á heimilinu og var það jafnframt vinnubíllinn hjá pabba svo oft var labbað út í Nonna og Bubba til að versla og það tók því varla að fara út í búð nema taka sex tveggja lítra mjólkurfernur og þessu dröslaði mamma labbandi heim til að drengirnir fengju nú sitt D-vítamín.

Það er margs að minnast, eitt sinn kom hún til Svíþjóðar, þar sem við stunduðum nám, til að vera viðstödd skírn Katrínar Hlífar og útskrift sonarins. Síðan var skellt sér í tívolí í Gautaborg og nokkru síðar haldið til Köben þar sem við spókuðum okkur um á Strikinu. Farið var í skartgripabúð þar sem ég (Lovísa) velti fyrir mér kaupum á hring, en var hikandi svo við fórum út. Stuttu síðar ákveð ég mig og við fórum til baka í búðina, en þá var hringurinn seldur. Þá lét mamma þessa fleygu setningu falla: „Hika sama og tapa.“ Þessi setning hefur fylgt okkur síðan og verið okkur leiðarljós í lífinu.

Það verða ákveðin kaflaskil í lífi manns þegar foreldrar manns kveðja. Við hjónin vorum svo lánsöm að fá að vera hjá bæði pabba í fyrra og núna mömmu þegar þau drógu síðasta andardráttinn. Þetta augnablik varðveitum við sem fjársjóð og hugsum um upphafið og endann gegnum fyrsta andardrátt barnanna okkar og síðasta andardrátt mömmu og pabba. Þessi kveðjustund er ljúfsár en mamma kveður þennan heim sátt við lífið og minningarnar lifa áfram hjá okkur fjölskyldunni.

Lovísa og Sævar.

Elsku mamma, þá ertu búin að fá hvíldina. Ég er viss um að það hafi verið vel tekið á móti þér í sumarlandinu. Þar hefur pabbi tekið á móti þér ásamt litlu barnabörnunum þínum, þeim Hugin Heiðari og Eiríki sem dóu með 4 ára millibili, 3 og 9 ára gamlir.

Þegar ég hugsa til baka man ég eftir hraustri og keikri konu sem alltaf var til staðar sama hvað. Samt sem áður höfðu hver veikindin og áföll á fætur öðrum bankað upp á hjá þér í gegnum ævina. Þú sigraðir þau öll og stóðst ávallt styrkari eftir. Þegar þú fékkst covid í mars 2022 fór baráttuþrekið minnkandi og kvaddir þú okkur sátt með lífshlaupið þitt.

Þú varst ótrúleg kona, mamma. Ólst upp fimm kraftmikla og uppátækjasama stráka þar sem þú notaðir þínar eigin uppeldisaðferðir. Við höfðum mikið frelsi og gátum leyft okkur að uppgötva heiminn á okkar forsendum, það var ekki fyrr en við fórum yfir ákveðið strik hjá þér að við þurftum að svara fyrir gjörðir okkar. Þú ólst okkur upp til að verða sjálfstæðir menn, kenndir okkur að bera virðingu fyrir öðru fólki og hlutum.

Þú hafðir mikinn áhuga á körfubolta og gerði ég það að vana þegar Keflavík var að spila að fara í heimsókn til þín og notaði símann minn til að horfa á leikinn í sjónvarpinu. Þarna áttum við margar góðar kvöldstundir saman. Þrátt fyrir að vera komin á tíræðisaldur, þá varst þú með allt á hreinu í sambandi við leikinn.

Mamma hugsaði mikið um fjölskylduna sína og fylgdist alltaf vel með afkomendum sínum. Þú vissir alltaf hver var að gera hvað og hvert var verið að fara í ferðalög og hvenær komið væri til baka.

Mamma, ég þakka þér fyrir hvernig þú ólst mig upp. Kenndir mér að meta lífið og varst alltaf að gefa góð ráð. Þú varst frábær mamma, tengdamamma, amma, langamma og vinur. Ég er stoltur að vera sonur þinn og mun alltaf sakna þín. Takk fyrir allt saman.

Guðmundur og Fjóla.

Elsku amma Edda.

Mikið vorum við mæðgur heppnar að fá að kynnst ykkur Begga. Þið höfðuð þá einstöku hæfileika að láta okkur allaf líða eins og hluta af fjölskyldunni og í alla staði fá okkur til að líða eins og við hefðum alltaf átt að vera þarna. Fjölskylda er okkur mæðgum sérstaklega kær og erum við ævinlega þakklátar fyrir ykkur og mörkuðuð þið stóran sess í okkar tilveru. Ríkidæmi og þakklæti er okkur efst í huga þegar við förum yfir okkar tíma saman. Litlu hlutirnir eins og að fá að skreyta fyrir jólin hjá þér elsku amma, koma með þér í verslunarleiðangur. Hvort sem það var að kaupa í matinn, mögulega eina Baileys, kaupa leggings eða kjól. Minnisstæðast er þegar við þræddum búðir og auðvitað fengum við frábæra þjónustu alls staðar, það var svo greinilegt að nærvera þín hreyfði við afgreiðslufólki og búðareigendum. Mér þótti sérstaklega vænt um, elsku amma, þegar þú skammaðir mig fyrir að vera ekki búin að heimsækja þig meira. Mér er það kært og þar kenndir þú mér svo sterkt ákveðin gildi sem ég mun leggja mig alla fram við að miðla áfram til míns fólks. Gefum okkur tíma til að njóta okkar bestu og hlúum hvert að öðru. Að því sögðu þá langar okkur fyrst og fremst að þakka þér og Begga fyrir ykkar tíma og alúð. Við erum endalaust þakklát fyrir ömmu Eddu og afa Begga. Þið vitið sennilega ekki sjálf hversu mikið þið hafið haft áhrif og kennt okkur um lífið og tilveruna. Hafið svo kærar þakkir fyrir og guð geymi ykkur.

Kær kveðja elsku vinkona.

Kristbjörg Eva (Kidda).

Elsku amma, tengdaamma og langamma. Við eigum svo margar yndislegar minningar með þér, ef við ætluðum að telja upp allar þá væri það efni í bók. Það sem stendur þó mest upp úr var þegar þú gafst okkur kaffi og sykurmola meðan þú fékkst að fara að „smóka þér“, eða reyndar var það sykurmolar með smá kaffi! Þegar við vorum með þér í vinnunni á leigubílastöðinni þar sem þú svaraðir „taxi góðan dag“ gleymist seint og þegar við hugsum um það heyrum við þig segja það. Þegar við vorum orðin óróleg í vinnunni með þér fengum við nokkrar glerflöskur til að fara út í sjoppu og kaupa nammi, en það myndi nú duga skammt í dag. Þegar við spiluðum langt fram á kvöld rommí, svartapétur og svo má lengi telja. Öll jólaboðin á jóladag en þar varst þú auðvitað í fararbroddi. Það má nú ekki gleyma að minnast á Villaborgara sem voru iðulega á boðstólum. Og svo gleymist það seint þegar þú bauðst litla eins árs barninu mínu (Ingibjörg) kók því það var ekkert annað í boði … en auðvitað kom það ekki til greina og þú hneykslaðist á því að ég gaf barninu bara vatn.

Þú áttir einstakt samband við barnabörnin, minningar þeirra frá því að koma í heimsókn til ömmu Eddu þar sem þau fengu alltaf eitthvað gott, sitja við hlið þér, halda í höndina og spjalla er svo mikilvæg og mun lifa með þeim alla ævi.

Minningar munu lifa svo lengi sem við lifum, þú átt risastað í hjarta okkar og verður minnst sem frábærs gestgjafa, yndislegt að eyða tíma hjá þér, algjörs stríðnispúka sem alltaf var hægt að leita til.

Við elskum þig út í geim og löngu leiðina heim. Þar til við hittumst næst –

Ingibjörg, Katrín Hlíf,
Símon Orri og fjölskyldur.

Elsku Edda frænka. Nú hefur þú fengið hvíldina.

Það var alltaf svo gaman að fara til Keflavíkur í heimsókn til Eddu frænku og Begga, alltaf tókuð þið svo vel á móti mér þegar ég kom til ykkar.

Alltaf fékk ég símtal í lok ágúst og var athugað hvort ég kæmi ekki örugglega á ljósanótt og er ég svo þakklát fyrir þann tíma sem ég eyddi með ykkur og frábæru strákunum ykkar og fjölskyldum þar.

Elsku frænka. það sem ég á eftir að sakna símtalanna og þess að heimsækja þig og spjalla. Takk fyrir allt elsku frænka.

Innilegar samúðarkveðjur, elsku Haukur, Halldóra, Óli, Björk, Biggi, Deborah, Sævar, Lovísa, Mummi, Fjóla og fjölskyldur.

Sara Finney Eggertsdóttir.