Rafah Fjöldi palestínskra flóttamanna er staddur í landamæraborginni en ekkert lát virðist á átökum þar.
Rafah Fjöldi palestínskra flóttamanna er staddur í landamæraborginni en ekkert lát virðist á átökum þar. — AFP/Eyad Baba
Ísraelskar herþyrlur réðust með loftárásum á palestínsku borgina Rafah í gær, en Hamasliðar greina frá því að bardagar eigi sér stað úti á götum borgarinnar. Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Antony Blinken, hefur haldið því fram að vopnahlé sé enn mögulegt á milli Ísraels og Hamas

Elínborg Una Einarsdóttir

elinborg@mbl.is

Ísraelskar herþyrlur réðust með loftárásum á palestínsku borgina Rafah í gær, en Hamasliðar greina frá því að bardagar eigi sér stað úti á götum borgarinnar. Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Antony Blinken, hefur haldið því fram að vopnahlé sé enn mögulegt á milli Ísraels og Hamas.

Ísraelsher réðst inn í Rafah á Gasaströnd í byrjun maí og er markmið hersins að stöðva alla starfsemi samtaka Hamas. Borið hefur á miklum áhyggjum innan alþjóðasamfélagsins yfir fjölda flóttamanna í borginni.

Að sögn íbúa sætir vesturhluti Rafah hörðum árásum Ísraelshers úr lofti, frá sjó og á landi. „Það var mikil skothríð frá orrustuflugvélum og þyrlum auk stórskotaliðs og herskipa Ísraels á svæðið vestan Rafah,“ sagði einn íbúi borgarinnar í samtali við fréttaveitu AFP.

Vígamenn Hamas-samtakanna segja sveitir sínar heyja bardaga við ísraelskt herlið á sama svæði. Eins segja þeir rúmlega 37 þúsund manns hafa fallið á Gasa frá upphafi átaka þar í kjölfar ódæðis Hamas í Ísrael 7. október sl. og að flesta hinna látnu almenna borgara. Brigður hafa verið bornar á þær tölur.

Unnið í átt að vopnahléi

Unnið hefur verið að samkomulagi um vopnahlé milli stríðandi fylkinga en þær viðræður hafa tafist vegna innrásar Ísraelshers inn í Rafah. Í lok maí hóf Joe Biden Bandaríkjaforseti á ný að leita samkomulags.

Síðastliðinn mánudag samþykkti öryggisráð Sameinuðu þjóðanna tillögu um að styðja við vopnahléstillögur Bandaríkjastjórnar, en þær fela í sér sex vikna vopnahlé, gísla- og fangaskipti og endurreisn innviða á Gasa.

Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna hefur sagt að Ísraelsstjórn styðji við tillögurnar en Benjamín Netanjahú forsætisráðherra Ísraels á enn eftir að lýsa yfir formlegum stuðningi við þær. Vitað er að einhverjir innan ríkisstjórnar hans eru andvígir samningum. Hamas hefur til þessa hafnað öllum samningum.

Um væri að ræða fyrsta vopnahlé í átökunum síðan í nóvember.

Höf.: Elínborg Una Einarsdóttir