Ólöf Björnsdóttir fæddist 14. desember 1926 á Þverá í Miðfirði en bjó bróðurpart uppvaxtaráranna á Reynihólum í Miðfirði þangað til hún flutti að heiman. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Sléttuvegi í Reykjavík 21. apríl 2024.

Foreldrar hennar voru Ingibjörg Jónsdóttir húsmóðir, f. 9.12. 1891, d. 4.6. 1974, og Björn Guðmundsson bóndi, f. 23.2. 1885, d. 24.3. 1985. Ólöf var fimmta í systkinaröðinni, elst var Þorbjörg Hólmfríður, f. 5.9. 1917, d. 24.11. 2000, Jóhanna, f. 27.1. 1919, d. 16.8. 2016, Guðmunur Reyndal, f. 28.8. 1920, d. 19.6. 2013, Jón Björgvin, f. 16.6. 1925, d. 15.1. 2000, Jóhannes Ingvar, f. 1.1. 1930, og Jón Elís, f. 14.7. 1932, d. 1.2. 1916.

Ólöf giftist 16.4. 1949 Vilhjálmi Ólafssyni frá Hlaðhamri í Hrútafirði, f. 31.7. 1922, d. 8.1. 2007. Þau bjuggu eitt ár á Hlaðhamri og fimm ár á Fjarðarhorni. Árið 1954 keyptu þau Kollsá II og bjuggu þar til ársins 1995, þá fluttu þau til Reykjavíkur. Árið 1996 reistu þau sér sumarhúsið Skollalund í Kollsárlandi. Þar dvöldu þau á sumrin en eftir fráfall Vilhjálms fór Ólöf í bústaðinn.

Börn Ólafar og Vilhjálms eru sex: 1) Benedikt Sævar, f. 13.9. 1948, kvæntur Guðrúnu Elísabetu Bjarnadóttur, f. 11.8. 1949. Börn þeirra eru: a) Bjarni, eiginkona hans er Lilja Kristín Ólafsdóttir. Sonur þeirra er Benedikt Októ, sambýliskona hans er Rakel Ýr Leifsdóttir. Þau eiga soninn Elmar Októ. b) Ólöf, gift Böðvari Kára Ástvaldssyni, dætur þeirra eru: i) Bjartey Líf, sambýlismaður hennar er Anton Elvar Sigurðsson, ii) Eygló Dögg, kærasti hennar er Árni Fannar Friðriksson, iii) Sólbjört Ýr. c) Dagný, maki Gustaf Ullberg, þau eiga synina: Hjalmar, Otto, Ágúst og Viktor. 2) Ingi Björn, f. 20.6. 1952, d. 3.12. 1954. 3) Jón Ólafur, f. 20.6. 1952, kvæntur Ester Jónsdóttur, f. 5.4. 1951. Börn þeirra eru: a) Eyrún, gift Boga Arasyni. Þeirra börn eru: i) María, sambýlismaður hennar er Daníel Freyr Rúnarsson, ii) Daníel, iii) Ísabella og iv) Ari. b) Sóley, gift Ólafi Jóhannssyni. Synir þeirra eru: Sindri Snær og Jón Arnar. c) Eyþór, kvæntur Guðmundu Ólafsdóttur, Þau eiga börnin: Hrafnkel, Stefaníu og Kristínu. 4) Atli, f, 12.7. 1961, kvæntur Jóhönnu S. Rúnarsdóttur, f. 10.3. 1968. Börn Atla og Álfheiðar Vilhjálmsdóttur eru: a) Harpa, gift Níelsi Bjarnasyni, þau eiga synina: Vilhjálm Bjarna, Atla Frey og Bjarka Hrafn. b) Vilhjálmur, synir hans og Brynhildar Ýrar Ottósdóttur eru: Röskvi Hrafn og Jökull Rökkvi. c) Íris, gift Selmdísi Þráinsdóttur, dætur þeirra eru: Heiða og Fanney. Jóhanna á tvo syni: a) Jakob Má Þorsteinsson giftur Maríu Lovísu Magnúsdóttur, þau eiga dæturnar Jönu Viktoríu, Elvu Alexöndru og Söru Gabríelu. b) Daníel Má Þorsteinsson. 5) Birna, f. 1.10. 1963, sonur hennar og Árna Grétarssonar er Elfar Hrafn, kvæntur Elínu Birnu Gunnarsdóttur. Dætur þeirra eru: Lóa Katrín og Heiðrún Arna. 6) Ingibjörg Ólöf, f. 17.9. 1970, sambýlismaður hennar er Otto Henrik Nilssen, f. 31.10. 1977. Dóttir þeirra er Anna Margaret Ólöf. Dóttir Ottos af fyrra hjónabandi er Charlotte Julia.

Ólöf var vinnusöm og vann öll tilfallandi störf í búskapnum. Mikil gestakoma var á Kollsá með tilheyrandi matseld, bakstri og þrifum. Alla tíð voru hjá Ólöfu og Vilhjálmi sumarbörn. Einnig dvöldu flest barnabörnin drjúgan tíma í sveitinni hjá ömmu og afa. Ólöf var virk í félagsstafi í sveitinni, var í kirkjukór Prestbakkakirkju, Kvenfélaginu Iðunni, tók þátt í kvæðakvöldum og spilakvöldum. Hún vann í sláturhúsinu á Borðeyri, mötuneyti Barnaskólans á Borðeyri og við ræstingar í Veitingaskálanum Brú.

Útför Ólafar fer fram frá Prestbakkakirkju í Hrútafirði í dag, 14. júní 2024, klukkan 14.

Elsku mamma mín.

Við systkinin vorum heppin í foreldralottóinu. Mamma var einstök á svo margan hátt og hafði sérstakt lag á því að horfa á björtu hliðarnar á öllum málum. Hún kenndi okkur systkinunum hlýju og virðingu gagnvart öðrum, að öfunda ekki heldur samgleðjast. Þín ósk var að við yrðum gott og heiðarlegt fólk, gott mannorð væri gulli betra.

Mamma hvatti okkur systkinin til að ná okkur í menntun og hafði óbilandi trú á okkur og viðkvæðið var að gefast aldrei upp.

Hún sá tækifæri til listgerðar úr öllum mögulegum hlutum. Hefði hún haft tækifæri til hefði hún sjálfsagt farið í listnám.

Mamma var ekki bara húsfreyja og bóndi heldur vann hún í sláturhúsinu, í barnaskólanum, í veitingaskálanum í Brú og tók þátt í kórstarfi og störfum hjá kvenfélaginu Iðunni. Þá kom fjöldi barna til sumardvalar hjá þeim. Þau tóku sér 22 ár í barneignir og hún var orðin amma þegar ég fæddist.

Mamma og pabbi urðu fyrir þeirri sáru reynslu að missa annan tvíburann sinn tveggja og hálfs árs gamlan árið 1954. Þá var engin áfallahjálp til staðar og viðbrögð hjúkrunarfólks á þeim tíma án mikillar tilfinningagreindar. Missirinn var óbærilega sár og viðbrögðin hjálpuðu ekki en það var bitið á jaxlinn og haldið áfram.

Þrátt fyrir stutta skólagöngu kunni mamma ógrynni af vísum, söngvum og ljóðum. Allir sem kynntust henni muna eftir fugla- og postulaþulunni. Í þeim taldi hún upp allar fuglategundir og alla postulana. Þessar þulur mundi hún þar til fyrir stuttu, sem er með ólíkindum því hún glímdi við alzheimersjúkdóminn síðustu árin.

Mamma var mjög ákveðin og fylgin sér og ég man eftir háværum samræðum um launamálí í eldhúsinu á Kollsá eitthvert haustið í sláturvertíð. Þá hafði mamma komist að því að karlar og konur fengju ekki greidd sömu laun fyrir sömu störf og því varð að breyta.

Pabbi og mamma nutu þess að ferðast og eftir fyrstu utanlandsförina árið 1987 varð ekki aftur snúið og ferðirnar urðu árlegar. Þau ferðuðust vítt og breitt um Evrópu og mamma kom í útskriftina mína til Bandaríkjanna vorið 2003. Mamma kom í margar heimsóknir til okkar Ottos, þá var farið í skoðunarferðir, karókí, dansað, sungið og mikið hlegið. Mamma hafði unun af því að kynnast nýju fólki og var daðrari af Guðs náð. Þá skipti ekki máli hvaða tungumál var talað því hún hafði einstakt lag á því að gera sig skiljanlega og alltaf var glens og gaman.

Mamma var í rauninni alveg einstaklega skemmtileg og lífsglöð. Hún var alltaf til í að bregða á leik og gantast, sérstaklega með litlu krökkunum. Anna Lóa naut góðs af og elskaði að vera með ömmu. Missir hennar er mikill og hún skilur ekkert í því af hverju amma þurfti að fara til stjarnanna.

Nú er komið að kveðjustund, það verða hvorki fleiri facetime-símtöl né meira sungið, spjallað, hlegið eða kveðist á. Síðasta faðmlagið hefur verið gefið og síðustu kossarnir kysstir á kinn. Við geymum minningarnar og hlátur þinn ómar.

Að lokum vil ég endurtaka kveðjuna okkar og segja takk fyrir allt elsku mamma, mundu að við elskum þig öll.

Ingibjörg Ólöf (Inga Lóa).

Söngur ómar um húsið „Í birkilaut hvíldi ég bakkanum á …“ ég veit að móðir mín er búin í fjósinu og komin inn. Ég nudda stírurnar úr augunum, dríf mig í fötin og geng niður stigann. Mamma stendur við skilvinduna og er að skilja mjólkina. Á eldhúsborðinu bíður mín hafragrautur. Hún lítur brosandi til mín og segir mér að borða grautinn og fara síðan út að reka kýrnar. Hún heldur áfram að syngja. Þannig minnist ég margra sumarmorgna frá bernsku minni.

Mamma var mjög lífsglöð og iðin. Hún saumaði, prjónaði, bætti, lagaði og stagaði og söng við vinnu sína. Hún var líka mjög bóngóð og vildi allt gera til að hjálpa þeim sem á þurftu að halda. Rafmagn kom í Hrútafjörð um 1970, mikil vinna var lögð í að gera slátur og annað sem fór í súr. Mamma vann í sláturhúsinu á Borðeyri á haustin, og kvöldin voru vel nýtt ýmist til að raga í fé eða útbúa mat til næsta árs. Ég minnist þvottadaganna, áður en byrjað var að þvo þurfti að hita vatn í stórum potti sem var í þvotthúsinu, í hann var þvotturinn settur og soðinn. Mamma notaði þvottabretti við þvottinn áður en hann var settur í þvottavél sem var með handsnúinni vindu.

Eftir því sem árin liðu fór mamma að fá meiri tíma til að sinna sínum áhugamálum. Hún hafði yndi af því að tína skeljar sem hún notaði í föndur sem og blóm sem hún þurrkaði. Henni var margt til lista lagt enda naut hún sín vel í fjölbreyttum verkefnum í þjónustumiðstöðinni í Bólstaðarhlíð eftir að hún settist að í Reykjavík. Hún málaði, vann með gler og gerði mörg teppi og dúka úr bútasaumi svo eitthvað sé nefnt.

Mamma var alltaf til í að ferðast bæði hér á landi sem og erlendis. Hún var mikil félagsvera og vildi hitta fólk, farið var í margar ferðir úr Skollalundi austur á Hvammstanga og Miðfjörð til að hitta vini og ættingja. Nesti í lengri bíltúra var ómissandi, hún vildi næra sig úti í náttúrunni og virða fyrir sér fegurð landsins. Erlendis þótti mömmu gaman að skoða kirkjur og fallega garða. Sumarið 2018 vorum við staddar á kaffihúsi í Brussel þegar þrjár konur koma inn og setjast nánast við sama borð og við, tvær þeirra voru á aldur við mömmu. Fljótlega voru þær komnar í hrókasamræður við mömmu, þær á flæmsku og mamma á íslensku. Við sem vorum yngri þýddum það sem sagt var en það var ótrúlegt hvað þær skildu sín á milli og mikið var hlegið. Við fórum í nokkrar ferðir til Genfar í Sviss og hún naut þess að sitja úti í fallegum görðum eða á kaffihúsi og virða fyrir sér mannlífið og blómin.

Mamma hafði mjög gaman af að fara í leikhús og var með leikhúskort í nokkur ár og þess má geta að hún fór fimm sinnum á „Elly“.

Litla fólkið í fjölskyldunni gladdi hana mikið, það lifnaði yfir henni þegar börnin komu í heimsókn til hennar og hún brá á leik með þeim.

Ég þakka samferðafólki hennar á Öldubergi fyrir samfylgdina.

Elsku mamma, takk fyrir allt, minningin þín lifir.

Far þú í friði, friður Guðs þig blessi.

Birna Vilhjálmsdóttir.

Þegar ömmu Lóu er minnst er það fyrsta sem kemur upp í hugann smitandi hláturinn og húmorinn. Það var alltaf stutt í hlátur og grín, alveg fram á síðasta dag.

Faðmur ömmu var alltaf opinn fyrir afkomendur. Það var spilað, farið í boltaleik á ganginum og farið í ævintýraferðir í fjöruna. Þegar horft var á Matlock eða Morðgátu í sjónvarpinu las amma textann upphátt fyrir okkur börnin.

Amma var listfeng á margan hátt. Eftir hana liggja margar vísur, hún smíðaði hluti úr tré, vann úr gleri, prjónaði mikið og skapaði listaverk úr því sem hún fann í fjörunni. Það var vinsælt að fara með ömmu í fjöruna og finna skeljar, kuðunga og fallega steina. Þegar heim var komið voru kuðungarnir sorteraðir og soðnir til að hreinsa út íbúa þeirra. Sjaldan varð amma reið út í okkur barnabörnin en þegar sumir náðu sér í súkkulaði upp í efstu hillu í búrinu á Kollsá, þegar hún var ekki heima, var hún ekki sátt. Sennilega var það ekki yfir súkkulaðinu sem hvarf heldur frekar vegna hitabrúsans sem datt niður og brotnaði.

Amma Lóa bar fram ýmislegt góðgæti fyrir gesti sína og sá til þess að enginn færi svangur frá henni. Við barnabörnin munum sérstaklega eftir appelsínumarmelaðinu, kartöflutertunni, smurðu brauði með niðurskornu epli, fiskbúðingnum, rúgbrauðinu, kleinunum og ekki síst sósunni með lambalærinu sem engum hefur tekist að líkja eftir. Þykk, mild, svolítið sæt og eitthvert bragð sem ekki gleymist.

Amma var góð við skepnurnar og hafði mjög gott lag á að hjálpa ánum á vorin við burð. Öll eigum við minningar af sauðburði á Kollsá þar sem mismörg börn voru komin til að „hjálpa“. Það má alveg velta fyrir sér hvernig sá reikningur kom út, hjálp á móti fyrirhöfn, en aldrei virtist vera neitt mál fyrir ömmu og afa að taka á móti börnum í sveitina. Vonandi gerðum við meira gagn en ógagn. Ferðirnar inn á Borðeyri voru ævintýri líkastar. Kaupfélagið var ekki hefðbundin búð eins og við þekktum í bænum. Við deildum þeirri skoðun með kaupfélagsstjóranum að í kaupfélaginu væri allt til. Þarna var lambapeningnum eytt í svefnpoka og fleira sem komið gæti að notum.

Eftir að amma og afi fluttu í Safamýrina jók frekar á léttleikann en hitt. Sennilega hefur töluverðri ábyrgð verið létt af þeim hjónum þegar þau brugðu búi og hægt að njóta þess meira að vera til. Að eiga athvarfið í Skollalundi var ömmu dýrmætt og þar leið henni vel við að nostra við trén, jarðarberin og að taka á móti gestum.

Okkur er það öllum minnisstætt að í hvert skipti sem við fórum frá Kollsá var amma búin að hafa til nesti handa okkur. Nestið rétti hún okkur þegar við kvöddum við spari-innganginn að sunnanverðu. Þá glitti oft í tár á hvarmi ömmu. Þegar Saab-inn keyrði úr hlaði horfðum við á afa og ömmu út um afturgluggann og veifuðum til þeirra þar til þau voru komin í hvarf.

Núna veifum við ömmu með tár á hvarmi og þökkum fyrir þá leiðsögn sem hún gaf okkur og okkar börnum inn í lífið.

Takk fyrir allt elsku amma.

Bjarni, Ólöf og Dagný Benediktsbörn.

Ég skrifaði þessa tækifærisræðu um langömmu fyrsta árið mitt í Verzló (árið 2017) og finnst hún eiga mjög vel við núna og langaði að deila henni hér.

Elsku langamma, innilega til hamingju með 95 ára afmælið eða eins og þú vilt kannski kalla það níu og hálfs árs afmælið þitt, því þú sagðist bara vera níu ára þegar þú varst níræð. Ég er svo óendanlega þakklát fyrir að geta kallað þig langömmu mína og mína bestu fyrirmynd. Þú heldur svo vel utan um mig og alla stórfjölskylduna og passar að við séum dugleg að hittast, og það er þér að þakka að við erum öll svona náin. Þú ert svo dugleg að halda utan um okkur öll og láta okkur líða vel á erfiðum stundum.

Það er líka alltaf jafn gaman að heimsækja þig því þú ert alltaf jafn glöð að fá mann og það er svo gaman að gleðja þig. Því þegar þú verður glöð verður þú svo virkilega glöð. Og svo hleypirðu manni aldrei frá þér nema þú sért búin að gefa okkur heitt súkkulaði og setja fullt af bakkelsi á borðið.

Þegar ég var að skrifa þessa ræðu rifjaðist upp fullt af góðum, fyndnum og líka sorglegum atburðum og sögum, en ég vil hafa þessa ræðu skemmtilega og ætla því bara að telja upp skemmtilegar sögur. Þegar maður kemur í kaffi til þín fær maður alltaf nýjar og skemmtilegar fyndnar sögur um það sem þú gerðir þegar þú varst lítil og er ein sem stendur alltaf upp úr en það hafa allir sem þekkja þig heyrt hana. Það er þegar þú varst í fermingarfræðslu og strákurinn fyrir aftan þig blés alltaf í eyrað þitt þegar hann söng og þig kitlaði svo mikið að þú gast ekki hætt að hlæja og presturinn var orðinn svo pirraður að hann rak þig heim. Þú varst ekki bara prakkari þegar þú varst yngri heldur líka núna á þínum eldri árum eins og þegar við vorum í árlegu útilegunni í Hrútafirðinum fagra, þegar þú tókst fölsku tennurnar úr þér og hræddir öll litlu barnabarnabörnin þín. Það er endalaust hægt að telja upp prakkarastrikin þín en ég ætla að segja það gott í bili.

Þú hefur sannað þá hugmynd að hlátur lengir lífið, því hann hefur svo sannarlega lengt lífið þitt.

Það ættu allir að eiga eitt stykki langömmu eins og þig en þú ert drottning okkar allra, elsku langamma.

Takk fyrir öll árin sem ég hef lifað með þér en þau hafa verið yndisleg, þú hefur kennt mér svo margt í gegnum tíðina.

Elska þig.

Eygló Dögg
Böðvarsdóttir.

Minningarnar leita ósjálfrátt í eldhúskrókinn á Kollsá þar sem Lóa reiddi fram hverjar veitingarnar af öðrum með bros á vör þegar við komum úr fjósinu, hafandi sinnt þeim, að okkur fannst, mikilvægu verkefnum. Við urðum þeirrar gæfu aðnjótandi að vera tekið opnum örmum inn í líf Lóu og fjölskyldu á Kollsá í Hrútafirði. Þar fengum við að fara úr skarkalanum í Reykjavík í stöðugleika og þann kærleika sem okkur var gefinn.

Lóa var mikill húmoristi, glettin og hafði einstaklega smitandi hlátur. Það var sest niður fimm sinnum á dag við eldhúsborðið og voru þetta stundirnar sem maður hlakkaði hvað mest til. Hápunkturinn var kleinubakstur, að ógleymdu eggjabrauðinu sem gjarnan var framreitt á laugardagskvöldum. Í eldhúsinu hjá Lóu fékk maður að taka virkan þátt í eldhússtörfunum sem og í súrheysturninum og fjósinu með honum Villa. Lóa og Villi voru einstaklega góðhjörtuð gæðahjón sem studdu okkur á okkar mótunarárum.

Lóa er mikil fyrirmynd í lífinu þar sem hún hætti aldrei að hafa gaman af lífinu og prófa nýja hluti. Það er ekkert svo langt síðan hún sveiflaði sér í alls konar jógastöðum níræð – standandi á haus, smakkaði sushi í fyrsta sinn og rifjaði upp gamlar góðar stundir frá Kollsá.

Það hefur fylgt okkur systrum í gegnum lífið að hafa fengið stuðning strax í bernsku frá Lóu. Það er ómetanlegt að hafa notið þeirrar gæfu og erum við ævinlega þakklátar fyrir það.

Megi verndarar og englar himins fylgja okkar góðu konu á næsta tilverustig. Blessuð sé minning hennar.

Talað við barn

Það er ekkert hræðilegt við klettana, barnið mitt.

Það er ekkert óttalegt við skuggana,

sem umlykja okkur.

Og einiviðarhríslurnar, sem elta okkur

er ekkert að óttast

Það er bara nóttin, ekkert að óttast.

Höndina smáu í mína hönd.

Svona er það, þegar nóttin kemur, barnið mitt.

(Harry Martinson)

Á. Laila Awad og Sylvía Kristín Ólafsdóttir.

Í dag, 14. júní 2024, kveðjum við Ólöfu Björnsdóttur frá Kollsá, kærleiksríka konu sem lét sig líf annarra varða.

Hún lifði langa og farsæla ævi og nálgaðist sitt 98. aldursár, reyndar voru þau síðustu erfið henni og börnunum hennar, sem umvöfðu hana skilyrðislausri ást og umhyggju.

Í Orðskviðum Salómons konungs stendur, 17, 22: „Glatt hjarta veitir góða heilsubót en dapurt geð tærir beinin.“ Mikill sannleikur felst í þessum 3.000 ára spekiorðum og gætu þau sannarlega átt við nú á dögum. Þau gætu höfðað til hennar Lóu, heiðurskonunnar okkar, því hún bar með sér birtu og glaðlyndi, létt á fæti, svipfalleg og ævinlega fallega klædd. Já, hún var heiðursfélagi í Kvenfélaginu Iðunni, eftir áratuga gjöfult og gott starf, verðskuldað og sérlega eftirminnilegt er þegar við loksins heiðruðum þær jafnöldrur og vinkonur, Lóu og Sigfríði Jónsdóttur frá Skálholtsvík, Siggu Jóns eins og við kölluðum hana, eftir leiksýningu í Borgarleikhúsinu fyrir rúmum áratug. Ógleymanlegur gleðidagur og þær báðar alveg undrandi yfir heiðrinum. Sigfríður lést sumarið 2022 og við minntumst hennar í Minningum Morgunblaðsins þá.

Þær báðar höfðu verið dyggar kvenfélagskonur sem stóðu vörð um velferð félagsins og sveitarinnar. Lóa hafði verið meira en 70 ár í Iðunni og gegnt þar mikilvægum störfum, var m.a. skoðunarmaður reikninga (þá endurskoðandi) í áratugi og var valin í hinar ýmsu nefndir félagsins, s.s. jólatrésskemmtinefnd, þorrablóts- og basarnefnd og fleiri slíkar þar sem hún var óspör á tíma sinn og vinnu.

Hún var fagurkeri, listamaður í höndum og útbjó fagra gripi úr gleri fram á síðustu ár, málaði fallegar myndir bæði með akrýl og olíu og prýða margar þeirra heimili barnanna hennar ásamt öðru vönduðu handverki.

Þótt þau hjón, Lóa og Vilhjálmur Ólafsson, ættaður frá Hlaðhamri hér í sveit, flyttu suður um miðjan tíunda tug síðustu aldar, héldu þau alltaf tryggð við Bæjarhrepp, vini sína og ættingja og ekki hafði hvarflað að henni frekar en Siggu Jóns að segja sig úr Iðunni. Tryggðin gengur yfir til barna þeirra og fjölskyldna, sem birtist í þátttöku þeirra í viðburðum höldnum hér í sveit og eiga þau sömuleiðis sumarbústað, Skollhól, á skika út úr Kollsárlandi.

Já, margs er að minnast í áranna rás, en eftirminnileg er ferð Iðunnarkvenna til Danmerkur 2014, er Lóa var tæplega 88 ára. Þar var hún hrókur alls fagnaðar, og gaf okkur sem yngri erum ekkert eftir, er við nutum samvistanna, ferðuðumst um Jótland, sigldum út í eyjar og gerðum okkur glaðan dag. Ef hún hafði dregið sig í hlé á undan okkur, gerðist það oftar en einu sinni að hún kom fram á náttfötunum og lyfti gleðiandanum enn hærra. Dásamlegar minningaperlur í sjóðinn góða.

Komið er að leiðarlokum. Í samræmi við fyrrnefnda tryggð Kollsárfjölskyldunnar fer útför Lóu okkar fram í Prestbakkakirkju, kirkjunni hennar kæru, og verður hún lögð til hvíldar við hlið elskaðs eiginmanns og ungs sonar, Inga Björns, sem þau misstu 1954. Við kveðjum Lóu með ást, virðingu og þökk, hana sem var svo óspör á kærleika sinn og umhyggju og sáði gleði- og ástarfræjum í garðana okkar.

Nú hvílir Ólöf Björnsdóttir heil og örugg í náðarfaðmi Guðs, í ljósi hins eilífa lífs. Megi Guð allrar huggunar vera afkomendum öllum nálægur. Hún veri kært kvödd í eilífri náðinni.

F.h. Iðunnarkvenna,

Kristín Árnadóttir formaður.