Fugladauði Krían leitaði skjóls í melgresi og lúpínu. Nokkuð stórt kríuvarp er ofan Ærvíkurbjarga. Ólafur Karl gekk fram á a.m.k. 200 dauða fugla.
Fugladauði Krían leitaði skjóls í melgresi og lúpínu. Nokkuð stórt kríuvarp er ofan Ærvíkurbjarga. Ólafur Karl gekk fram á a.m.k. 200 dauða fugla. — Ljósmynd/Ólafur Karl Nielsen
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þúsundir mófugla drápust í hretinu á Norðausturlandi í júní. Ólafur Karl Nielsen, vistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, segir um þungt högg að ræða. Eins og greint var frá á mbl.is í vikunni fann Sigfús Illugason, ferðaþjónustubóndi á…

Ólafur Pálsson

olafur@mbl.is

Þúsundir mófugla drápust í hretinu á Norðausturlandi í júní. Ólafur Karl Nielsen, vistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, segir um þungt högg að ræða.

Eins og greint var frá á mbl.is í vikunni fann Sigfús Illugason, ferðaþjónustubóndi á Bjargi í Mývatnssveit, hátt í tuttugu dauða fugla á tjaldsvæðinu er hann fór að taka þar til á mánudag. Sömu sögu er að segja víða um Norðausturland.

Tug- eða hundruð þúsunda

„Það eru örugglega tugþúsundir ef ekki hundruð þúsunda mófuglapara sem dvelja á því svæði sem er núna undir fönn,“ segir Ólafur og vísar þar til heiðarlanda nærri sjó í yfir 150 metra hæð yfir sjávarmáli allt frá Fnjóskadal í vestri og austur um. Sérstaklega þungri stöðu lýsir hann í heiðarlöndunum norðan Mývatnssveitar og yfir í Tjörnes, Kelduhverfi og Öxarfjörð og svo áfram yfir í Þistilfjörð og Bakkafjörð. „Á þessu áhrifasvæði var bara vetur. Veðrið var það hart að ég hef eina heimild um fálkaunga sem króknuðu í hreiðri. Það lá þykkt snjólag yfir öllu landi og allt mófuglavarp er fyrir bí.“

Ólafur Karl kveðst sjá það greinilega á fuglunum núna að margir þeirra sem eftir lifi reyni augljóslega að gera aftur það sem þeir gerðu í vor. Reyni að verpa eggjum og klekja út. „Ég sé það til dæmis á rjúpunni að karrarnir eru byrjaðir að ropa á fullu og kvenfuglinn er á hlaupum, sem er óvanalegt á þessum tíma, en þær ættu að liggja á eggjum sínum.“ Þá segir hann hrossagauka hneggja á fullu og heiðlóur syngja.

Minnst 200 dauðar kríur

Sjálfur var Ólafur staddur á Norðausturlandi þegar kuldakastið reið yfir og gekk fram á minnst 200 dauðar kríur sem leitað höfðu skjóls í melgresi og lúpínu undir Ærvíkurbjörgum við ósa Laxár.

Nokkuð stórt kríuvarp, sem heitir Laxamýrarleiti, þar sem jafnan eru um eitt til tvö þúsund pör, er ofan við björgin. Segir Ólafur ekki einn einasta fugl hafa haldið til í varpinu, þeir hafi leitað skjóls undir björgunum. Áhrif fugladauða séu misjöfn eftir tegundum, sumar tegundir bæði lifa og fjölga sér hratt eins og mófuglarnir en aðrar séu langlífari og viðkoman lítil. Þær séu viðkvæmari fyrir miklum afföllum fullorðinna fugla. Fugladauði á þessum skala geti dregið dilk á eftir sér í stofnum langlífari fugla eins og kríu. „Maður hefur heyrt um dauðar kríur miklu víðar um Norðurland, við Skjálfandaflóa og norður í Grímsey.“ Kunnugir fuglalífi í Grímsey segjast ekki hafa orðið varir við fugladauða í hretinu en þúsundir ef ekki tugþúsundir kría eru í eynni.

Magnús Þór Bjarnason, flugvallarvörður í Grímsey, lifir og hrærist í fuglalífinu allt sumarið. Hann segir kríuna ofsækja flugvöllinn og fyrir lendingu séu stundum fleiri þúsund fuglar á vellinum. Segir hann að í hretum bæði núna, í fyrra og hittifyrra hafi verið komin óhemja af kríu sem hafi þá horfið að miklu leyti og virtist hreinlega flýja veðrið. Mögulega drepst hún í sjó eða hrekst til lands og drepst þar.

Verra og lengra júníhret

Kuldakastið nú stóð óvenju lengi yfir. Samfellt frost mældist á Grímsstöðum á Fjöllum frá klukkan 6 á mánudagsmorgni til klukkan 10 á föstudagsmorgni eða í 100 klukkustundir, að því er segir í tilkynningu á veðurvefnum Bliku.

Það er lengsti frostakafli í júní frá upphafi mælinga eða í um 75 ár. Frostinu fylgdi einnig bæði snjókoma og hvassviðri en vindur mældist um 15 metrar á sekúndu frá miðjum mánudegi fram á fimmtudagskvöld og snjódýpt mældist mest 32 cm á fimmtudagsmorgun. Kuldakastið var umtalsvert verra en fyrri kuldaköst og líklegt má telja að kuldakastið í upphafi mánaðar sé versta júníhretið á þessum slóðum í allavega 94 ár og jafnvel lengur, að því er segir á Bliku.

Drápust í hretinu

Kuldakastið í upphafi mánaðar reyndist bæði lengra og snjóþyngra en fyrri júníhret. Því fylgdi einnig bæði snjókoma og hvassviðri.

Þúsundir mófugla drápust í hretinu og allt mófuglavarp er fyrir bí.

Áhrif fugladauða á þessum skala eru misjöfn eftir tegundum. Hann getur dregið dilk á eftir sér í stofnum langlífari fugla eins og kríu.

Höf.: Ólafur Pálsson