Guðmundur Þorlákur Ragnarsson fæddist í Reykjavík 14. ágúst 1946. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 20. maí 2024.

Foreldrar hans voru Ragnar Þ. Guðmundsson, forstjóri ríkisprentsmiðju Gutenberg, f. 15. mars 1921, d. 5. janúar 1984, og Katrín Ingibjörg Bjarnadóttir húsmóðir, f. 13. júlí 1923, d. 26. október 1979. Guðmundur var elstur af systkinum sínum. Hin eru: Ragnar, f. 1953, og Margrét, f. 1955, gift Pétri G. Péturssyni, f. 1952.

Hinn 8. október 1966 kvæntist Guðmundur eftirlifandi eiginkonu sinni, Dúfu Sylvíu Einarsdóttur, f. 13. júlí 1946. Börn þeirra eru: 1) Ragnar, f. 1965, kvæntur Írisi Höllu Nordquist, og börn þeirra eru Patrekur, f. 1998, í sambúð með Erlu K. Arnalds, f. 1998, Andrea, f. 2000, Karen, f. 2004, og Kristófer, f. 2010. 2) Unnur Ása, f. 1970. 3) Örn, kvæntur Herdísi Guðmundsdóttur, f. 1985. Börn hans og fv. maka eru Nína Guðrún, f. 1998, gift Símoni B. Grétarssyni, f. 1995, og Katrín, f. 2003. Börn Arnar og Herdísar eru Guðrún Lillý, f. 2014, og Guðmundur Trausti, f. 2017.

Guðmundur ólst upp í Norðurmýrinni og Hlíðunum. Hann gekk í Austurbæjarskóla og Menntaskólann í Reykjavík, og lauk kandídatsprófi frá Háskóla Íslands árið 1970. Að loknu námi var hann ráðinn frkvstj. Kaupmannasamtakanna.

Guðmundur og Dúfa hófu búskap árið 1965 og bjuggu fyrstu árin í Reykjavík. Þau fluttu á Selfoss 1972 þegar Guðmundur var ráðinn frkvstj. Kaupf. Hafnar. Árið 1974 var hann ráðinn frkvstj. Þ. Jónsson og Co og flutti fjölskyldan þá í Kópavog þar sem þau bjuggu til ársins 1984. Hjónin byggðu nýtt hús við Beykihlíð 7 í Reykjavík og bjuggu þar til ársins 2018. Síðustu árin bjuggu þau í Lundi 3 í Kópavogi.

Guðmundur var ráðinn frkvstj. fjármála og rekstrar hjá Kennaraháskólanum árið 1989 og tók hann virkan þátt í sameiningu skólans og Háskóla Íslands árið 2008. Árin 2008 til 2011 var hann starfsmannastjóri HÍ, en lauk störfum hjá HÍ árið 2012.

Guðmundur var heilsteyptur og hógvær, og var gjarnan falin ábyrgð hvert sem hann kom. Hann var vinmargur og ræktaði tengsl við ættingja og vini, og gestkvæmt var á heimili þeirra Dúfu. Hann hafði mikla ánægju af barnabörnunum sem orðin eru átta og fylgdist vel með því sem þau voru að sýsla.

Guðmundur sat tólf ár í stjórn Þroskahjálpar og þar af tvö sem formaður. Hann var formaður foreldrafélags Öskjuhlíðarskóla í nokkur ár og var í svæðisstjórn um málefni fatlaðra. Hann var einnig félagi í Lionsfélaginu Tý.

Guðmundur hafði alla tíð mjög gaman af stangveiði og tónlist, þá sérstaklega djasstónlist. Þau hjónin ferðuðust mikið um Ísland, bæði á láglendi og hálendi, með fjölskyldu og vinum. Síðustu 15 árin var golfið í uppáhaldi og vann Guðmundur það afrek að fara tvisvar holu í höggi.

Guðmundur fór í hjartaaðgerð 42 ára og bjó við skert þrek en lifði ágætu lífi. Síðustu fimm árin átti hann við vaxandi vanheilsu að stríða en naut að geta búið á heimili þeirra Dúfu til æviloka, þar sem hann gat notið samvista með börnum og barnabörnum fram á sinn síðasta dag.

Útförin fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 14. júní 2024, klukkan 11.

Elsku afi.

Til þess að skrifa þessa grein þurfum við helst að gleyma síðustu árum. Góð minningargrein, ha? Það er erfitt að horfa á einhvern sem manni þykir vænt um ganga í gegnum veikindi. Afi okkar átti vissulega erfitt á síðustu árum en fylltist stundum við góða brandara og minningar. Þá sáum við afa okkar eins og hann var og mun alltaf vera í okkar hjörtum. Húmorsglampi í augum, saga forfeðra handan við hornið og þægileg þögn.

Það er erfitt að koma öllum minningunum sem við eigum af afa í orð, en það má nefna veiðitúra, spil, sögur og einstakan áhuga og vilja til þess að verja tíma með barnabörnunum sínum.

Það er dýrmætt að hafa átt afa eins og afa Guðmund og við eigum honum margt að þakka. Á síðustu árum tengdumst við mikið í gegnum bókmenntir og gátum spjallað um (mis)góðar bækur lengi. Við vörðum einnig mörgum dýrmætum stundum við spil, og oftar en ekki þegar við amma vorum í stofunni að leysa krossgátur mátti heyra rétt svar úr stólnum hans afa. Við munum alltaf monta okkur af langalangafa okkar fyrir að hafa teiknað húsið í Norðurmýrinni sem og mörg fleiri áberandi hús sem afi var duglegur að benda okkur á út um allan bæ. Svo munum við alltaf muna eftir afa þegar horft er yfir götuna á húsið þar sem hann bjó lengi. Hann var stoltur af afa sínum eins og við erum af okkar.

Elsku afi, við vonum að þú hafir það gott þar sem þú ert núna og vitum að þú munt vaka yfir okkur og okkar fólki.

Nína Guðrún og Katrín.

Gjörvilegur á velli, traustur, stefnufastur og jarðbundinn. Virðing fyrir umhverfi og samfélagi, réttsýnn, sanngjarn, ekki skaplaus en fór vel með það. Þessi orð koma mér í hug þegar ég minnist frænda míns og kærs vinar, Guðmundar Þ. Ragnarssonar.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama;

en orðstír

deyr aldregi,

hveim er sér góðan getur.

(Hávamál)

Það eru okkur hjónum mikil forréttindi að hafa átt samleið og mikinn vinskap með slíkum manni og þeim samrýmdu hjónum Guðmundi og Dúfu. Sjaldan er annað þeirra nefnt nema nafn hins fylgi. Gleði, hógværð og kærleikur einkenndu ætíð öll okkar samskipti, hvort sem við sátum saman á ótal menningarlegum viðburðum, á ferðalögum innanlands og utan, við matarborðið eða spilaborðið. Einstök prúðmennska, tillitssemi og umhyggja þeirra aðalsmerki.

Við frændur erum systkinabörn og Guðmundur þrem árum eldri en ég. Vinskapur milli okkar hjóna spannar meira en 50 ár og höfum við átt margar dýrmætar stundir saman. Margar veiðiferðir vítt og breitt um landið og heimsóttar nokkrar af bestu laxveiðiám landsins. Oftast var það Guðmundur sem hafði veg og vanda af skipulagi veiðiferða. Hann var snjall fluguveiðimaður og naut sín einstaklega vel við árniðinn í fögru landslagi þar sem veiðivon var. Eitt sinn vorum við fyrir allnokkrum árum stödd við veiðar í Eystri-Rangá. Við frændurnir stóðum hvor sínum megin við Dúfu. Ekkert beit á hjá okkur körlunum en við fylgdumst af aðdáun með aflaklónni Dúfu landa fjórum löxum.

Menning og listir hafa skipað stóran sess í lífi hjónanna. Þar má telja áhugann fyrir tónlist, myndlist og leiklist. Jazz var Guðmundi ávallt kær en klassísk tónlist hefur verið þeim hjónum mjög hugleikin og voru þau m.a. fastagestir Sinfóníuhljómsveitar Íslands auk þess sem þau sóttu óperuhús og klassíska tónleika víða um heim. Þá höfðu þau mikinn áhuga fyrir leiklist og voru þau t.a.m. fastagestir frumsýninga í Borgarleikhúsinu um árabil ásamt hópi vina. Þá fylgdist Guðmundur ágætlega með myndlist og prýða mörg fögur verk heimili þeirra hjóna. Hin síðari ár vaknaði áhugi þeirra fyrir golfíþróttinni og stunduðu þau hana bæði innanlands og utan, eftir því sem þrek og heilsa leyfði.

Síðustu misseri hafa verið frænda erfið. Dvínandi þrek og viðvarandi verkir hafa komið í veg fyrir að hann gæti sinnt sínum áhugamálum og hugðarefnum sem skyldi. Hann hélt þó reisn sinni, en að lokum gaf líkaminn sig, stundaglasið tæmdist og ferðin til Sólarlandsins tók við. Dúfa hefur staðið sem klettur með manni sínum ásamt fjölskyldu í erfiðum veikindum. Söknuðurinn er mikill en minningarnar lifa.

Við sendum Dúfu, Ragnari, Unni Ásu, Erni, systkinum og fjölskyldunni allri okkar dýpstu samúðarkveðjur og biðjum algóðan Guð um að styrkja þau í sorg og söknuði.

Þorsteinn og Elsa Björk.

Fallinn er frá góður drengur og samstarfsmaður til margra ára. Leiðir okkar Guðmundar Ragnarssonar lágu saman undir lok níunda áratugarins við Kennaraháskóla Íslands. Við störfuðum báðir náið með rektorum skólans, ég á sviði námsins en hann við fjármál. Á þessum árum átti sér stað mikil uppbygging í Kennaraháskólanum, skólinn stækkaði og námsbrautum fjölgaði, bæði í grunn- og framhaldsnámi. Fósturskólinn, Íþróttakennaraskólinn og Þroskaþjálfaskólinn voru sameinaðir Kennaraháskólanum 1998. Húsnæði Húsmæðraskólans á Varmalandi var fært undir skólann og nýtt til námskeiðahalds. Árið 2008 var Kennaraháskólinn svo sameinaður Háskóla Íslands.

Guðmundur kom að öllum þessum verkefnum sem fjármálastjóri skólans. Hann var góður samstarfsmaður, ráðagóður, greinandi í hugsun og lausnamiðaður. Auk þess var hann vinnusamur og leit á hvert verkefni sem áhugaverða áskorun. Hann kunni að vinna með öðrum og taka þátt í umræðum um vandasöm málefni. Að mínu mati var hans stóri kostur að líta á viðfangsefnin í starfsemi skólans sem aðalatriði og fjármálin sem tæki til að koma þeim í framkvæmd. Vegna þessara eiginleika ávann hann sér virðingu og traust þeirra sem honum kynntust.

Guðmundur var einnig góður félagi. Hann tengdist hópi samstarfsmanna sem stundaði sund um árabil. Þessi félagsskapur, sem kallaði sig Sundfjelag Kennaraháskólans, fór reglulega í Laugardalslaugina í hádeginu og synti hver sína 500 metra. Var Guðmundur þar engin undantekning. Þessi félagsskapur var einnig upphaf þess að fara öðru hvoru í Múlakaffi til að snæða pönnusteikta ýsu, rétt sem allir voru einhuga um að væri „jafnvel betri en hjá mömmu“. Guðmundur var mikill áhugamaður um þessar ferðir og sendi kvörtun á hópinn ef honum fannst líða of langt á milli.

Við Guðmundur tengdumst einnig vinaböndum með öðrum hætti. Ég hafði verið um árabil sem barn og unglingur í sveit austur í Flóa á ættarslóðum konu hans. Hann hafði einnig starfað um tíma sem kaupfélagsstjóri Kaupfélagsins Hafnar á Selfossi. Flóinn var því kært umræðuefni og vorum við sammála um fegurð hans og þeirrar fjallasýnar sem þar ber fyrir augu. Þessu til viðbótar höfðum við báðir áhuga á bílum. Reyndist Guðmundur mér ráðagóður við kaup á bílum en hann hafði reynslu af þeim vettvangi áður en hann réðst til Kennaraháskóla Íslands. Ber þar hæst að Guðmundur „lét“ mig kaupa gamla Mözdu sem reyndist afar vel.

Eftir sameiningu Kennaraháskólans og Háskóla Íslands starfaði Guðmundur í nokkur ár á stjórnsýslusviði hins sameinaða háskóla. Verkefni hans tengdust fjármálum, starfsmannamálum og gæðamálum, svo eitthvað sé nefnt. Fórust honum þau verk öll vel úr hendi eins og önnur sem hann tók að sér.

Með þessum orðum vil ég þakka fyrir góð kynni og vináttu og sendi eiginkonu hans og öðrum aðstandendum samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning Guðmundar Ragnarssonar.

Börkur Hansen.

Guðmundur Þorlákur Ragnarsson, fyrrverandi fjármálastóri Kennaraháskóla Íslands, er látinn eftir erfið og langvarandi veikindi. Guðmundur var ráðinn fjármálastjóri Kennaraháskólans af Jónasi Pálssyni, fyrrverandi rektor skólans, í febrúar árið 1989. Hann lét af störfum sem fjármálastjóri eftir að Kennaraháskóli Íslands og Háskóli Íslands voru sameinaðir árið 2008. Guðmundur hafði þá sinnt starfi sínu við Kennaraháskólann við frábæran orðstír í tæpa tvo áratugi.

Eftir sameiningu háskólanna tveggja starfaði Guðmundur sem starfsmannastjóri Háskóla Íslands í þrjú ár og að því loknu sem sérfræðingur í miðlægri stjórnsýslu Háskóla Íslands til starfsloka í ágúst 2012, þegar hann lét af störfum. Áður en Guðmundur var ráðinn fjármálastjóri við Kennaraháskólann hafði hann gegnt ýmsum stjórnunarstörfum á almennum vinnumarkaði.

Guðmundur var afar farsæll stjórnandi og reyndist mörgu fólki vel. Hann var metnaðarfullur og faglegur í vinnubrögðum, átti gott með að vinna með öðrum og að greina aðalatriði frá aukaatriðum. Hann var frábær starfsmaður sem fjármálastjóri Kennaraháskólans og vann sér traust bæði starfsmanna skólans, samstarfsaðila og viðskiptavina – og, sem einnig skipti máli, starfsmanna stjórnarráðsins, sem höfðu með málefni Kennaraháskólans að gera. Hann var einstaklega áreiðanlegur og ábyrgur í störfum sínum fyrir skólann.

Í starfi stofnunar eins og Kennaraháskóla Íslands koma upp mörg viðfangsefni sem krefjast faglegrar úrlausnar, festu en líka sveigjanleika og skýra sýn á það sem skiptir meginmáli. Guðmundur kom víða við í störfum sínum og tók meðal annars mjög virkan þátt í ögrandi og stundum erfiðum verkefnum, eins og til dæmis sameiningu Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands árið 2008. Þar áður hafði hann einnig tekið virkan þátt í sameiningu Kennaraháskóla Íslands og Hússtjórnarkennaraskóla Íslands, Fósturskóla Íslands, Íþróttakennaraskóla Íslands og Þroskaþjálfaskóla Íslands.

Undirritaður starfaði náið með Guðmundi í Kennaraháskólanum frá 1991 til 1999 sem aðstoðarrektor og síðan sem rektor Kennaraháskólans frá janúar 2000 til september 2008. Milli okkar skapaðist ómetanlegt traust, sem að mínum dómi leiddi til góðra verka.

Fyrir hönd fyrrverandi samstarfsfólks við Kennaraháskóla Íslands þakka ég störf Guðmundar Ragnarssonar í þágu skólans og votta Dúfu, Unni Ásu og öðrum aðstandendum hans innilega samúð.

Ólafur Proppé, fv. rektor Kennaraháskóla Íslands.

Mig setti svo sannarlega hljóða þegar ég frétti af andláti Guðmundar Ragnarssonar. Þrátt fyrir að ég vissi að hann væri lengi búinn að berjast við mikil veikindi þá komu þessar fréttir sem þruma úr heiðskíru lofti. Ég var búin að vera á leiðinni að hafa samband við hann og kanna hvort ég gæti kíkt aðeins til hans og Dúfu. En svona er lífið og við erum endalaust minnt á að það er ekki eftir neinu að bíða þegar tíminn er annars vegar, hver dagur, hvert augnablik er það eina sem við höfum fast í hendi.

Kynni mín við Guðmund hófust árið 2000 en þá var ég svo stálheppin að hann réð mig í vinnu við Kennaraháskóla Íslands. Ég var ráðin í fjármáladeildina þar sem hann ásamt öðru úrvalsfólki starfaði. Guðmundur var bæði frábær yfirmaður og skemmtilegur vinnufélagi. Frá fyrstu stundu leið mér vel í starfi mínu og ég fann fljótt að ég efldist við að gegna því með Guðmund mér við hlið. Hann var hvetjandi og styðjandi við allar þær hugmyndir og breytingar sem manni datt í hug að gætu verið til bóta hvað vinnuna varðaði. Hann var svo fær í sínu starfi og var ekki nískur á að deila þeirri færni til okkar sem unnum næst honum. Hann gerði kröfur um fagleg og vönduð vinnubrögð. Oft settist hann niður til að ræða um verkefnin sem lágu fyrir og þá var svo dýrmætt að finna að það skipti hann einnig miklu máli hvað við hin höfðum til málanna að leggja.

Í endurminningunni eru árin frá 2000-2008 ótrúlega góð og skemmtileg ár sem starfsmaður Kennaraháskóla Íslands. Það ríkti oft glens og gaman hjá okkur inni á fjármálagangi, mikið drukkið af kaffi og málin rædd. Hópurinn var samhentur undir ljúfri stjórn Guðmundar, við gengum mörg í gegnum ýmis miserfið verkefni í persónulega lífinu og þá var dýrmætt að eiga góða vinnufélaga og yfirmenn.

Ég er þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast Guðmundi og vinna með honum þau ár sem við áttum saman. Hann var í mínum huga ákaflega góð manneskja og mér þótti innilega vænt um hann.

Ég sendi Dúfu og öllum öðrum aðstandendum mínar innilegustu samúðarkveðjur vegna fráfalls Guðmundar.

Sofðu rótt, kæri Guðmundur.

Sólveig María.

Hugurinn leitar um fimmtíu ár aftur í tímann þegar Guðmundur og fjölskylda fluttu á Selfoss og Guðmundur gerðist kaupfélagsstjóri í Höfn á Selfossi og fjölskyldan flutti í Hafnartún. Hafnartún var rifið á dögunum eftir að hafa brunnið en þetta var glæsilegt hús og úr því á ég góðar minningar þegar ég lék við börnin sem þar áttu heima í gegnum árin.

Ég kynntist Ragnari syni Guðmundar og Dúfu og hefur sú vinátta varað alla tíð. Ragnar kom í bekkinn til okkar og féll vel í góðan hóp okkar í 65-árganginum. Guðmundur var hægur og virðulegur maður og hefur vinátta minnar fjölskyldu og fjölskyldu Guðmundar og Dúfu lifað öll árin. Eftir að fjölskyldan flutti í Kópavog varð ég þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að koma til þeirra til helgardvalar af og til fram á fullorðinsár.

Ég hitti Guðmund og Dúfu á gangi í fyrrasumar í grennd við fótboltamót sem ég var á í Kópavogi, það var hlý og gleðileg stund. Ég sá þó að það var nokkuð dregið af Guðmundi en vináttan og væntumþykjan skein þó í gegn. Ég vil þakka kynnin og sendi Dúfu, Ragnari, Unni Ásu, Erni og fjölskyldum mínar dýpstu samúðarkveðjur. Því miður get ég ekki verið við útförina vegna ferðalags utan landsteinanna.

Kjartan Björnsson.

Félagar úr Lionsklúbbnum Tý vilja í fáum orðum minnast fallins félaga, Guðmundar Ragnarssonar. Þótt viðvera Guðmundar í félagsskap okkar væri ekki löng í 50 ára sögu var þátttaka hans í öllu starfi eftirminnileg. Hann gegndi fjölda trúnaðarstarfa í stjórn og nefndum, meðal annars formennsku um skeið. Þau Dúfa, kona hans, voru dugleg að taka þátt í félagsstarfinu, vinnuverkefnum, ferðalögum og skemmtunum.

Guðmundur var hugmyndaríkur í úrlausn mála, traustur og samviskusamur í öllu sem hann tók sér fyrir hendur. Við sendum innilegar samúðarkveðjur til Dúfu og barnanna og kveðjum góðan dreng og frábæran félaga.

Björn Þorvaldsson.