Sigrún Gunnarsdóttir fæddist í Reykjavík 11. maí 1946. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Ísafold 25. maí 2024.

Foreldrar Sigrúnar voru Guðný Kristjánsdóttir, f. 13.4. 1923, d. 6.2. 1982, og Gunnar Pjetursson, f. 16.10. 1919, d. 8.9. 1968. Bróðir hennar er Pétur Gunnarsson og hálfbræður Örn Gunnarsson og Arnar Gunnarsson.

Sigrún giftist 4. febrúar 1967 Gunnsteini Skúlasyni, f. 31.1. 1947. Foreldrar hans voru Gyða Brynjólfsdóttir, f. 7.10. 1925, d. 1.12. 1996, og Skúli Steinsson, f. 7.12. 1924, d. 19.8. 1980. Börn Sigrúnar og Gunnsteins eru: 1) Skúli, f. 1966. Maki Nína Björk Hlöðversdóttir. Synir þeirra eru Gunnsteinn Aron, f. 1993, Darri Logi, f. 1995, Númi Jökull, f. 2004, og Breki Þór, f. 2001, maki Indíana Ýr Henriksdóttir, þau eiga eina dóttur, Bríeti Sól, f. 10.9. 2023. 2) Guðný, f. 1967. Maki Siggeir Magnússon, börn þeirra eru Gyða Sif, f. 1998, Sigrún Tinna, f. 2002, Dagur Máni, f. 2009. 3) Sif Beckers Gunnsteinsdóttir, f. 1972. Maki Thomas Beckers. Börn þeirra eru Elmar, f. 2002, Embla Liv, f. 2003, og Emelía, f. 2009. 4) Hrund, f. 1974. Maki Alfreð Gíslason. Barnsfaðir og fyrrverandi eiginmaður Sigurjón Eiðsson. Dætur Rán, f. 2003, og Sif, f. 2007.

Sigrún ólst upp í Reykjavík og stundaði nám í Melaskóla síðan tók síðan landspróf og eitt ár í verslunardeild Hagaskóla. Sigrún starfaði hjá Flugfélagi Íslands á yngri árum, kenndi á saumavélar og prjónavélar. Hún útskrifaðist úr keramikdeild Myndlista- og handíðaskólans árið 1988. Hún, ásamt fjórum listakonum, stofnaði og rak um árabil Art-Hún vinnustofu og gallerí. Sigrún var virk í félagsstarfi Stjörnunnar, starfaði um tíma í meistaraflokksráði kvenna í handknattleik hjá Stjörnunni á þeim tíma sem börn þeirra Gunnsteins spiluðu handbolta. Hún var félagi í Golfklúbbi Reykjavíkur og hafði mikla ánægju af samverunni og útivistinni sem golfinu fylgdi. Hún stundaði skíði og útilegur með börnum sínum og vinahópum þeirra hjóna. Sigrún spilaði frá unga aldri á píanó og var einstaklega hæfileikarík á því sviði. Sigrún og Gunnsteinn dvöldu hluta úr ári á um áratugar tímabili á heimili sínu í Sarasota þar sem þau spiluðu golf og eignuðust dýrmætar minningar með vinum og fjölskyldu. Þau sem koma í jarðarförina eru hvött til að klæðast litum og heiðra þannig þá sköpunargleði og það örlæti sem einkenndi líf Sigrúnar og samskipti alla tíð.

Útför Sigrúnar fer fram frá Vídalínskirkju í Garðabæ í dag, 14. júní 2024, klukkan 13.

Elsku besta mamma okkar.

Við sjáum þig fyrir okkur að spila á hvíta píanóið á Lindarflötinni seint á síðustu öld. Þú veist ekki af okkur, við erum að fela okkur við arininn svo við getum notið þess að hlusta á þig spila af innlifun, lög eins og Liebestraum, Blessuð sértu sumarsól eða Take five.

Ef þú sæir okkur myndirðu hætta að spila, snúa þér að okkur brosandi og kalla okkur ljósin þín. Við værum reyndar alveg til í að geta gengið inn í þessa minningu akkúrat núna, heyra þig ávarpa okkur svona hlýlega og knúsa þig fast, þótt það truflaði píanóspilið.

Það er svo margt um þig að segja. Þú varst einstök kona, ofsalega gefandi, hjartahlý og styðjandi móðir og hæfileikaríkari manneskju höfum við aldrei hitt. Þú sogaðir að þér allskonar fólk og enginn var merkilegri en annar. Í Amsterdam stoppaðir þú einu sinni umferðina seint um kvöld, þú varst í massa fíling að syngja og dansa og njóta augnabliksins. Ljósastaurar lýstu upp snjóflyksur sem féllu rólega til jarðar og í stað þess að flauta og vera með fúss, stöðvaði leigubílstjóri bílinn, steig út, og dansaði með þér upp á gangstétt til að trufla ekki mómentið.

Þetta kunnirðu að meta, svona hlutum tókstu eftir, sagðir frá og hélst á lífi. Það fallega, skemmtilega og örláta í fólki. Lífsins glimmer. Öfund var ekki til í þinni orðabók og þú varst sannkölluð ljónynja fyrir okkur börnin þín.

Á píanóið spilaðir þú af snilld án þess að hafa fengið formlega kennslu, og það gerðir þú ekki bara heima, heldur líka á alls konar kvennakvöldum, á bar í New Orleans og Sarasota. Af mikilli list málaðir þú, teiknaðir, smíðaðir, kenndir sjálfri þér á sauma- og prjónavélar og kenndir á þær heima um árabil. Á miðjum aldri fórstu í listnám á Íslandi og í Bandaríkjunum, skapaðir litríka keramikskúlptúra og íslensku draugana, þar sem alltaf var stutt í ást til heimsins, ævintýrsins og húmorinn. Þú stofnaðir þitt eigið listgallerí og vinnustofu, Gallerý Art-Hún, ásamt fjórum öðrum vinkonum og listakonum. Við munum þegar við fórum á opnunina á galleríinu, við vorum táningar og hefðum ekki getað verið stoltari af þér. Þú varst svo með’etta mamma. Þvílík fyrirmynd.

Það var erfitt að horfa upp á heilsuna hrörna hjá þér síðustu árin, en magnað að sjá hvernig þú ákvaðst að taka veikindunum með æðruleysi og jákvæðu hugarfari. Þú elskaðir og brostir alltaf þegar pabbi hjálpaði þér að standa upp úr þægindastólnum og „dansaði þér“ yfir í rúmið þitt á Ísafold.

Í lokin áttirðu erfitt með að framkalla hlátur en það var alltaf stutt í húmorinn. Þegar eitt af tólf barnabörnum kom með blátt hár í heimsókn blússaði upp stuðpinninn í þér, það kom blik í augun og hliðarbros, og þú trúðir Sif systur fyrir því að þú værir sko líka til í að lita á þér hárið blátt!

Það lærist með reynslunni að lífið er alls konar og djúp sorg og mikil hamingja geta fyllt sömu augnablikin. Takk fyrir að kenna okkur og börnunum okkar að lífið er ást og það er núna, í öllum heimsins litum.

Takk, elsku mamma fyrir allt.

Guð geymi þig.

Hrund, Sif, Guðný og Skúli.

Það gustar af henni, stórglæsileg kona faðmar mig lengi og innilega, aðeins of lengi fannst mér við þessi fyrstu kynni en mikið kunni ég síðar vel að meta hlýjan faðm tengdamömmu minnar og seinna allir strákarnir mínir sem sóttu í ömmu faðm.

Hávær hlátur, bleikur varalitakoss á kinn og geislandi nærvera.

Sigrún tengdamamma mín var alveg einstök, alveg frábær og alveg yndisleg. Hún kenndi mér að taka lífið ekki of hátíðlega, það má alveg hafa gaman og grínast eins og krakki þótt maður sé orðinn fullorðinn.

Strákarnir okkar dýrkuðu ömmu sína enda amma mikill húmoristi og skemmtileg með öllu sínu sprelli og gleði. Hún var alltaf með geggjaða brandara sem hún hló sjálf hæst að og skemmtilegustu sögurnar, en bestar voru þær þegar hún gerði grín að sjálfri sér. Ein sagan finnst mér svo falleg og lýsandi fyrir Sigrúnu. Hún var erlendis og það kom hellirigning. Hún hleypur ekki í skjól heldur fer að dansa úti á miðri götu í rigningunni. Leigubíll stoppar, en í staðinn fyrir að flauta fer bílstjórinn út úr bílnum og dansar með hana upp á gangstétt, fer svo sína leið. Það var ekki annað hægt en að hrífast af og með þessari yndislegu konu.

Sigrún var mikil listakona sem spilaði og söng með sinni hrjúfu viskírödd, algjör töffari og nagli, gleðigjafi, jákvæð og lífsglöð sem smitaði frá sér.

Það er svo hollt og gott að fá að ferðast með svona fólk við hliðina á sér í gegnum lífið.

Ég hefði átt að byrja fyrr í golfinu svo ég hefði getað golfast með þér á Flórída og hér á landi, það hefði verið geggjað.

Elsku yndislega Sigrún mín, ég hefði ekki getað beðið um betri tengdamömmu, ég elska þig innilega og sakna þín óendanlega mikið, við munum aldrei gleyma þér og munum halda áfram að hlæja að sögunum þínum.

Þín eina og uppáhaldstengdadóttir,

Nína Björk.

Elsku amma mín.

Það er erfitt að hugsa til þess að geta ekki knúsað þig, sagt þér sögur, leitað til þín ráða, hlustað á þig segja brandara og heyrt þig hlæja. Þinn stóri persónuleiki, hlátur, húmor og gleði, sem allir þekkja, lýsir því hvernig amma þú ert og hefur alltaf verið. Ég er svo heppinn að hafa fengið að upplifa þessa líflegu orku frá þér, sem smitaði alla í kringum þig. Það þurfti aldrei að spyrja hvort þú værir á staðnum – hláturinn þinn heyrðist í fjarska og ef það var ekki fyrir hann þá var nóg að skoða næsta rauðvínsglas með rauðum varalit.

Elsku amma mín; takk fyrir allt sem þú hefur gefið mér í gegnum árin. Alla gleðina, ástina, og hláturinn sem við deildum saman.

Elsku amma mín; ég verð alltaf þakklátur fyrir tímann og allar góðu minningarnar sem við áttum með ykkur afa í Hólahjalla og á Flórída.

Elsku amman mín; þegar ég leitaði til þín ráða þegar mér var strítt á leikskóla og þú gafst mér þau ráð að gefa stráknum sem var að stríða mér kjól, það myndi sko kenna honum.

Elsku amma mín; þegar ég sagði öllum frá því að „maður má alveg eiga ömmu sína fyrir vin“.

Elsku amma mín; þegar við ræddum stjörnurnar sem lýstu upp himininn að nóttu til, en lágu sem stjörnufiskar í fjörunni á daginn.

Elsku amma mín; þegar ég kom í heimsókn til ykkar og þú varst búin að fylla snúningsborðið af snúðum og alls konar bakkelsi.

Elsku amma mín; þegar ég kom í heimsókn til ykkar afa og þú fannst alltaf eitthvað fyrir mig að gera, hvort sem það var að mála, leira eða spila saman á píanó.

Elsku amma mín; þegar þú eldaðir kjötbollur sérstaklega fyrir mig þegar ég kom í heimsókn.

Elsku amma mín; þegar ég hló svo mikið eftir að þú sagðir mér að jólasveinninn hefði gefið þér sítrónu í skóinn af því að þú værir svo súr.

Elsku amma mín; þegar ég fékk að koma með besta vin minn í heimsókn því ég var svo montinn af bestu ömmu í heimi.

Elsku amma mín; þegar þú sendir englana þína til að vaka yfir mér svo ég svæfi vel um nóttina.

Elsku amma mín; þegar þú sagðist elska að heyra mig segja „amma mín“.

Elsku amma okkar; við elskum þig, amma okkar.

Gunnsteinn, Darri, Breki og Númi Skúlasynir.

Mig langar í fáum orðum að minnast elskulegrar mágkonu minnar hennar Sigrúnar. Ég var bara 12 ára þegar ég byrjaði að passa fyrir þau Gunnstein bróður. Ég var svo montin af börnunum og eyddi ómældum tíma heima hjá þeim. Sigrún reyndist mér mín besta vinkona og stoð og stytta. Alltaf gat ég leitað til hennar með vangaveltur, hugmyndir og vandamál og fengið góð ráð. Hún var svo stór karakter og mikill gleðigjafi, listakona og músíkant. Hún spilaði á píanóið af þvílíkri snilld eftir eyranu. Aldrei lærði hún á hljóðfæri, en hvar sem var komið, hvort sem var í heimahúsi eða á bar erlendis, settist hún við píanóið og spilaði. Sú kunni að halda uppi stuðinu með Bítlalögum og fleiru og allir skyldu syngja með! Ég er virkilega þakklát fyrir allar samverustundirnar sem við Vili áttum með elsku Sigrúnu og Gunnsteini. Upp úr standa heimsóknir okkar til þeirra til Sarasota, og þeirra til okkar í sveitina. Móttökur þeirra voru alltaf upp á tíu og sjálfsagt fannst þeim að taka okkur Villa með til vina sinna í thanksgiving-boð og eins að taka á móti saumaklúbbnum mínum í Sarasota. Elsku Gunnsteinn og fjölskyldan öll, hjartans samúðarkveðjur frá okkur Villa, minning um yndislega konu lifir.

Guðlaug Skúladóttir.

Nú ríkir kyrrð í djúpum dal,

þótt duni foss í gljúfrasal,

í hreiðrum fuglar hvíla rótt,

þeir hafa boðið góða nótt.

(Magnús Gíslason)

Okkar yndislega, skemmtilega og frábæra vinkona hefur kvatt þetta jarðlíf.

Við erum búnar að vera vinkonur í 70 ár og aldrei fallið skuggi á vináttu okkar. Stofnuðum saumaklúbb þegar við vorum litlar stúlkur í Melaskóla, hann fékk síðan nafnið Bomsur og var örugglega skemmtilegasti klúbbur landsins með Sigrúnu í fararbroddi. Við vinkonurnar getum yljað okkur við minningar af öllu því skemmtilega sem við gerðum gegnum árin. Tilveran verður fátæklegri án Sigrúnar, þökkum henni allar dýrmætar stundir sem við áttum saman.

Innilegar samúðarkveðjur til Gunnsteins og fjölskyldu.

Megi Sigrún ávallt vera Guði falin.

Bryndís, Hildur,
Svandís, Arndís,
Elínborg (Ella), Guðrún, Anna Kr. og Anna C.

Þegar við vinkonurnar byrjuðum í golfi á 9. og 10. áratug síðustu aldar hafa sennilega fáar okkar gert sér í hugarlund hversu mikil áhrif golfiðkun ætti eftir að hafa á líf okkar, félagsleg tengsl og vináttubönd. Tengslin ná langt út fyrir golfvöllinn og vináttan er ævilöng. Í raun væri hægt að skipta lífinu í tvo kafla; áður en við byrjuðum í golfi og eftir að við byrjuðum í golfi.

Í golfinu kynntist maður konum sem maður hefði annars ekki kynnst, þær komu alls staðar að. Konum sem spiluðu golf á miðvikudögum í kvennatímum GR.

2004 ákváðum við nokkrar konur að stofna golfhóp. Tilviljun réð mestu um hverjar völdust í hópinn. Fljótlega kom í ljós að hópurinn var vel valinn. Samstaða var um nafnið: Mafíósur. Keppnisreglur voru settar. Sigrún teiknaði merkið. Stílfært M, sem við létum prenta á rauðar peysur. Allar vorum við með keppnisskap í góðu meðallagi. Okkar spiladagar voru miðvikudagar. Þá var keppt um besta skor og flesta fugla, og í lok sumars var gerður upp árangurinn. Sigrún hannaði verðlaunagrip, sem var leirdiskur, sandlitaður með fuglasporum, hefði getað verið ljósmynd af glompu í Grafarholtinu. Sigrún ósérhlífin að vanda, lagði sitt af mörkum, alltaf.

Það hefur stundum verið sagt að þú kynnist manni vel á einum golfhring. Hvernig meðspilarinn tekst á við vonbrigði og meðbyr. Sigrún var ein þeirra sem alltaf var gaman að vera með, burtséð frá því hvernig golfið gekk. Sagði skemmtilega frá og það var mikið hlegið þar sem hún var.

Nú er Sigrún látin eftir áralöng veikindi sem settu mikið mark á hana. Við kveðjum hana með þakklæti fyrir allt það sem hún var okkur. Óvenjulega hæfileikarík og fjölhæf kona, mikilhæf leirlistarkona og píanóleikari, spilaði allt eftir eyranu, músíkölsk svo af bar. Hún hafði ríka kímnigáfu og frásagnarhæfileika. Einstakur gleðigjafi sem alltaf var gaman að vera með.

Ógleymanleg eru lokahófin þar sem borðaður var góður matur, golf sumarsins gert upp og verðlaun veitt. Leirdiskurinn hennar Sigrúnar var aðalverðlaunin og á hann letruð nöfn þess sem best stóð sig það sumarið. Þegar föstum dagskrárliðum var lokið settist Sigrún við píanóið og spilaði af fingrum fram. Þvílíkur tónlistarmaður. Við sungum við hennar undirleik.

Ógleymanleg er einnig fyrsta golfferðin okkar sem var til Westerwood í Skotlandi. Hún var ekki sérstaklega eftirminnileg vegna golfsins, heldur vegna kvöldanna þar sem Sigrún lék aðalhlutverk. Spilaði listavel á píanóið og dró að sér gesti hótelsins. Ókeypis píanókonsert á heimsmælikvarða.

Við Mafíósurnar sendum Gunnsteini og fjölskyldunni allri innilegar samúðarkveðjur.

Megi minningin um einstaka konu lina sorg ykkar.

Fyrir hönd Mafíósanna,

Margrét Geirsdóttir.

Mig langar með nokkrum orðum að minnast einstakrar konu og kvenskörungs; móður Hrundar vinkonu minnar; Sigrúnar Gunnarsdóttur, leirlistakonu, píanóleikara, gleðigjafa og mikillar fyrirmyndar okkar vinkvennanna allt frá unglingsárum.

Frá heimili þeirra Sigrúnar og Gunnsteins á Lindarflötinni á ég einstakar minningar, þar sem dyrnar stóðu hálfum Garðabænum opnar, enda börn þeirra fjögur öll vinamörg og með stútfulla dagskrá alla daga. Í seinni tíð höfum við vinkonurnar sem sjálfar eigum nú orðið stór börn, oft velt því fyrir okkur hvernig þau hjónin afbáru það að allur vinahópur okkar yfirtæki sjónvarpsherbergi fjölskyldunnar kvöld eftir kvöld, viku eftir viku og fékk þá enginn annar að njóta eina sjónvarps heimilisins.

Það duldist engum hið einstaka samband sem var á milli þeirra hjóna; Sigrúnar og Gunnsteins og man ég oftar en ekki eftir þeim sitjandi tveimur í betri stofu heimilisins (enda sjónvarpsherbergið upptekið), spjallandi og hlæjandi yfir vínsglasi. Ég, óharðnaður unglingurinn með háleitu rómantísku hugmyndirnar, leit upp til þeirra og spurði eitt sinn Sigrúnu hver lykillinn að svo farsælu hjónabandi væri. Sigrún hló og svaraði mér svo á yfirvegaðan hátt: „Björk mín, þetta er allt saman vinna.“

Ég viðurkenni að á þeim tíma þyrsti mig í rómantískari og dularfyllri lýsingar á leyndardómunum að baki svo lífseigri ást og vináttu, en eldri og lífsreyndari ég hugsa oft til þessara orða Sigrúnar og eru þau mér ágætis áminning um að að baki öllu því góða og fagra í lífinu er líka bara þrotlaus vinna.

Sigrúnu þakka ég heilræðin, húmorinn og hlýjuna sem alltaf mætti mér, og síðar mínum börnum á hennar heimili. Elsku Hrund, Sif, Guðný, Skúli og fjölskyldur; ykkar sterki og samstillti hópur er ljóslifandi sönnun þeirra miklu mannkosta sem mamma ykkar hafði að geyma. Elsku Gunnsteinn, það hefur verið aðdáunarvert að fylgjast með alúðinni og ástinni, í nálægð þá, en undanfarið meira úr fjarlægð, allt þar til yfir lauk; þú alltaf við hlið þinnar heittelskuðu konu.

Ykkur öllum sendi ég mínar dýpstu samúðarkveðjur.

Minning stórs og litríks karakters lifir.

Björk Eiðsdóttir.

Ég lít í anda liðna tíð,

er leynt í hjarta geymi.

Sú ljúfa minning létt og hljótt

hún læðist til mín dag og nótt,

svo aldrei, aldrei gleymi.

(Halla Eyjólfsdóttir)

Þessar ljóðlínur koma upp í hugann við fráfall kærrar vinkonu. Meira en hálfrar aldrar vinátta kallar fram ótal minningar. Minningar frá tímum barnauppeldis, tímamóta í lífi fjölskyldnanna, gleði- og sorgarstunda leita á hugann.

Atorkusemi og listhneigð voru aðalsmerki Sigrúnar. Aðdáunarvert var að sjá hvernig hún ung að árum tókst á við barnauppeldi og heimilishald. Allt lék í höndum hennar sem sjá mátti á fallega klæddu börnunum og heimili þeirra Gunnsteins. Framan af sinnti hún heimili og börnum ásamt því að kenna á prjóna- og saumavélar. Síðar þegar um hægðist lét hún drauminn um að sinna listinni rætast. Leirlistin varð fyrir valinu og eins og annað þá lék leirinn í höndum hennar. Helstu áhugamál Sigrúnar voru golf og skíði sem hún stundaði svo lengi sem heilsan leyfði.

Við áttum frábærar samverustundir í gleði og leik, bæði heima og erlendis. Má þar nefna laufabrauðsgerð í aðdraganda jóla, sumarbústaðaferðir og ógleymanlegar stundir í húsi þeirra hjóna á Flórída.

Sigrún var jákvæð, hlý og nærgætin. Hún hafði góðan húmor og sá gjarnan spaugilegu hliðarnar á tilverunni. Hún var glaðsinna, söngelsk, spilaði á píanó og á gleðistundum var hún hrókur alls fagnaðar.

Þrátt fyrir veikindi og vanmátt síðustu ára þá bar hún sig vel. Þann tíma naut hún aðdáunarverðrar umhyggju Gunnsteins, barnanna og annarra aðstandenda.

Að leiðarlokum þökkum við áralanga vináttu og væntumþykju. Blessuð sé minningin um kæra vinkonu.

Innilegar samúðarkveðjur sendum við Gunnsteini, börnunum og öðrum aðstandendum.

Unnur og Hilmar.

Okkar góða, síkáta og skemmtilega Sigrún Gunnarsdóttir er látin eftir langvarandi og erfið veikindi.

Það er mikil eftirsjá að þessari heiðurskonu sem var hrókur alls fagnaðar þar sem við félagarnir ásamt mökum komum saman á tímamótum og gleðistundum. Ef píanó var á staðnum brást ekki að Sigrún settist við hljóðfærið og kæmi viðstöddum í stuð með píanóleik og söng. Vinátta og samvistir okkar spanna nú yfir hálfa öld.

Sigrún hafði mikinn áhuga á golfíþróttinni og var meira en liðtæk þar. Þær voru þó nokkrar golfferðirnar með Mulningsvélinni bæði innanlands og til útlanda. Við minnumst gleðistunda er þau hjón Gunnsteinn og Sigrún voru heimsótt í glæsileg hýbýli þeirra erlendis. Þar var tekið rausnarlega á móti gestum.

Mulningsvélin vottar Gunnsteini og fjölskyldu hans sína innilegustu samúð. Minning Sigrúnar Gunnarsdóttur mun lifa með okkur.

F.h. Mulningsvélarinnar,

Jón Hermann Karlsson.