Þorgils Gunnlaugsson bóndi á Sökku í Svarfaðardal fæddist á Hrafnsstöðum í Svarfaðardal 6. janúar 1932. Hann lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri 29. apríl 2024, 92 ára að aldri.

Foreldrar hans voru hjónin Rósa Þorgilsdóttir, f. 1898, d. 1992, og Gunnlaugur Gíslason, f. 1895, d. 1988, bændur á Sökku. Þorgils var yngstur fjögurra systkina, eldri systur hans voru Jóna Snævarr, f. 1925, d. 2002, Dagbjört Stephensen, f. 1927, d. 2023, og Halldóra, f. 1927, d. 2017, Gunnlaugsdætur en fóstbróðir þeirra og frændi, alinn upp á Sökku, var Halldór Arason, f. 1925, d. 2004.

Þorgils varð búfræðingur frá Hvanneyri 18 ára gamall en fór eftir það til Noregs þar sem hann dvaldist um eins árs skeið og vann við búskap, en hvarf síðan aftur til Sökku og vann við bústörfin þar. Þorgils kvæntist Olgu Steingrímsdóttur, f. 1937, frá Páfastöðum í Skagafirði og lifir hún mann sinn. Þau eignuðust þrjú börn, Guðrúnu Charlottu, f. 1956, Árna, f. 1958, d. 1922, og Gunnstein, f. 1961. Barnabörn þeirra eru tíu og barnabarnabörnin tólf.

Þorgils og Olga voru bændur á Sökku, síðustu árin í félagsskap við Gunnstein og Dagbjörtu Jónsdóttur eiginkonu hans. Þau brugðu búi árið 2000, byggðu Sökku 2 þar sem áður stóð bærinn Ölduhryggur og bjuggu þar síðan.

Þorgils var jarðsunginn í kyrrþey frá Dalvíkurkirkju 17. maí 2024 og lagður til hinstu hvíldar í Vallakirkjugarði.

Þorgils á Sökku er allur, 92 ára að aldri. Hann stóð á tvítugu þegar ég kom fyrst til dvalar á Sökku, fimm ára gamall. Árið eftir var ég þar sumarlangt, svo kom sá næstelsti okkar bræðra, Gunnar, og nokkrum sumrum síðar vék ég fyrir þeim yngsta, Finni. Ég náði átta sumrum á Sökku, Gunnar ellefu og Finnur tólf. Vinátta hafði verið með föðurfólki okkar, afa okkar og ömmu á Hrafnsstöðum og afa Þorgils og nafna og konu hans á Sökku. Raunar var Þorláksína amma fædd í Ölduhrygg, steinsnar sunnan Sökku, þar sem þau Þorgils og Olga reistu sér hús og bjuggu eftir að þau brugðu búi á Sökku. Feður okkar bræðra og Þorgils höfðu þekkst lengi og Gunnlaugur minntist þess oft að hafa útvegað pabba hryggi úr riðufé til rannsókna. Fyrstu sumur okkar bræðra á Sökku stóðu foreldrar Þorgils, Rósa og Gunnlaugur, fyrir búinu á Sökku og ráku það með miklum myndarskap. Þorgils og Olga tóku smám saman við búsforráðum og ekki fór búskapurinn halloka við það; öðru nær, því dugnaður og framsýni yngri bændanna, samhliða vélvæðingu, stækkaði og bætti búið. Nýtt land var brotið til ræktar, ný hús voru reist og bústofninn stækkaður. Þannig hélt það líka áfram þegar þau Þorgils og Olga létu Sökku í hendur næstu kynslóð. Á Sökku lærðum við strákar að taka til hendi. Við kynntumst því að vinna var undirstaða búskaparins og sjálfsagt væri að allir gengju til vinnu eins og þeir voru menn til. Við lærðum flest sveitastörf; að slá og raka, fara í fjósið, hirða skepnur, girða, gera lokræsi og keyra traktor. Upphaflega var Gunnlaugur lærifaðirinn en fljótlega allt meir Þorgils, ekki síst um allt sem laut að vélum. Við vorum ekki ýkja gamlir þegar við lærðum að bakka með kerru. Það var hugsað óskaplega vel um okkur á Sökku. Allt var svo alúðlegt og vingjarnlegt. Og lífið var ekki bara vinna, það var líka talsverður leikur, og þá ekki síst veiðiskapur, fyrst silungsveiði, þá skotveiði og loks skak á trillu. Þessi leikur hefur staðið alla okkar tíð. Við fórum margar veiðiferðir með Þorgils, í Svarfaðardalsá, Mýrarkvísl, Svartá, Fljótið o.fl.

Þorgils var náttúrubarn og glöggur á allt er að náttúrunni lýtur, grös og gróður og dýr. Hann var mikill veiðimaður og afar góður veiðifélagi. Hann var ekki alltaf auðveldur, gat verið stjórnsamur og vilja skipuleggja okkur út og suður eftir því sem honum þótti okkur fyrir bestu. Þorgils gat verið stríðinn og góðlátlega hrekkjóttur og eins gott að hafa varann á þegar sá gállinn var á honum. Gestrisni hefur ævinlega verið aðal Sökkufólks, það vinmargt og gestagangur mikill. Þessa höfum við bræður notið alla tíð. Í huga mínum hefur nánast verið óhugsandi að fara norður yfir heiðar án viðkomu í Sökku og alltaf vorum við hjónin aufúsugestir þar. Síðustu árin fækkaði heimsóknunum en þess í stað héldum við Þorgils tengslum okkar með tíðum símtölum. Við bræður eigum Þorgilsi, Olgu og Sökkufólki öllu mikið að þakka. Samfylgdin við þau hefur örugglega gert okkur að skárri mönnum en ella og vináttan verið og er enn ómetanleg.

Hallgrímur Snorrason.