Varnarbandalag Jens Stoltenberg segir Atlantshafsbandalagið munu taka við þjálfun Úkraínuhers og hernaðaraðstoð Vesturlanda á næstunni.
Varnarbandalag Jens Stoltenberg segir Atlantshafsbandalagið munu taka við þjálfun Úkraínuhers og hernaðaraðstoð Vesturlanda á næstunni. — AFP/Simon Wohlfahrt
Atlantshafsbandalagið (NATO) mun taka við samræmingu og skipulagi á hernaðaraðstoð Vesturlanda við Úkraínu. Bandaríkin hafa frá upphafi innrásar Rússlands í febrúar 2022 leitt hernaðaraðstoðina, en munu nú afhenda NATO kyndilinn

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Atlantshafsbandalagið (NATO) mun taka við samræmingu og skipulagi á hernaðaraðstoð Vesturlanda við Úkraínu. Bandaríkin hafa frá upphafi innrásar Rússlands í febrúar 2022 leitt hernaðaraðstoðina, en munu nú afhenda NATO kyndilinn. Varnarmálaráðherrar í Evrópu eru fylgjandi þessari breytingu. Greint er frá þessu í hermiðlinum Stars and Stripes, sem starfar með heimild bandaríska varnarmálaráðuneytisins, Pentagon.

Varnarmálaráðherrar Evrópuríkja eru flestir staddir í höfuðstöðvum Atlantshafsbandalagsins í Brussel til að útfæra skiptin en þau verða formlega samþykkt á fundi NATO sem fram fer í Washington í júlí næstkomandi.

Framkvæmdastjóri NATO, Jens Stoltenberg, segir vinnuna í Brussel ganga vel. „Það sem ég get sagt á þessari stundu er þetta: við erum sammála í öllum meginatriðum. NATO mun taka að sér leiðandi hlutverk þegar kemur að því að samræma varnaraðstoð og þjálfun,“ segir hann.

Þjóðþingin stöðvi ekki aðstoð

Stoltenberg lagði það fyrst til í apríl síðastliðnum að NATO tæki við hernaðaraðstoðinni. Tímasetningin er vart tilviljun en á sama tíma stóðu yfir miklar deilur á Bandaríkjaþingi um áframhaldandi stuðning og dróst mjög að afhenda vopnakerfi og fjármuni til Úkraínu. Þessi mikli dráttur á aðstoð frá Bandaríkjunum er sagður hafa haft áhrif á stöðuna á vígvellinum. Undir stjórn NATO verður meiri fyrirsjáanleiki í allri aðstoð Vesturlanda.

„Við kunnum auðvitað öll að meta hvað Bandaríkin og bandamenn hafa lagt fram. Engin fordæmi eru fyrir viðlíka aðstoð. Á sama tíma urðum við þó vitni að því þegar það tók Bandaríkin sex mánuði að ná fram samstöðu um aðstoð við Úkraínu,“ segir Stoltenberg og bendir á að ríki Evrópu hafi einnig dregið lappirnar. Eru meðal annars dæmi um að vopnakerfi hafi aldrei skilað sér í hendur Úkraínuhers þrátt fyrir gefin loforð þar um. Slíkt megi ekki endurtaka sig.

„Með því að færa hernaðaraðstoðina beint undir NATO, í stað frjálsra framlaga, verður útkoman áreiðanlegri og öflugri,“ segir Stoltenberg.

Höf.: Kristján H. Johannessen