[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skotíþróttamaðurinn Hákon Þór Svavarsson keppir fyrir Íslands hönd á Ólympíuleikunum í sumar. Alþjóðaólympíunefndin, IOC, staðfesti í gær að hann hefði fengið boðssæti á leikunum en Hákon keppir í haglabyssuskotfimi og keppnisgrein hans á leikunum í …

Skotíþróttamaðurinn Hákon Þór Svavarsson keppir fyrir Íslands hönd á Ólympíuleikunum í sumar. Alþjóðaólympíunefndin, IOC, staðfesti í gær að hann hefði fengið boðssæti á leikunum en Hákon keppir í haglabyssuskotfimi og keppnisgrein hans á leikunum í París verður leirdúfuskotfimi (skeet). Hákon er 46 ára gamall, búsettur á Selfossi, og keppir fyrir Skotíþróttafélag Suðurlands.

Þar með hafa þrír Íslendingar fengið keppnisrétt á ÓL í París en hin eru sundmaðurinn Anton Sveinn McKee og þríþrautarkonan Guðlaug Edda Hannesdóttir.

Handboltakonan Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir hefur framlengt samning sinn við Selfyssinga til tveggja ára. Þótt hún sé aðeins tvítug lauk hún sínu sjötta tímabili með meistaraflokki félagsins í vor og tók þátt í að liðið endurheimti sæti sitt í úrvalsdeildinni.

Sam Kerr frá Ástralíu, ein besta knattspyrnukona heims, hefur framlengt samning sinn við ensku meistarana Chelsea til tveggja ára. Kerr hefur fimm sinnum orðið meistari með Chelsea og unnið ellefu titla með félaginu frá 2019, skorað 99 mörk í 128 leikjum, en hún hefur verið frá keppni síðan í janúar þegar hún sleit krossband í hné.

Þýskalandsmeistarar Bayer Leverkusen í knattspyrnu eru farnir að styrkja sig fyrir átökin á næsta tímabili en þeir hafa nú fengið til sín spænska miðjumanninn Aleix García frá Girona og samið við hann til 2029. García er 26 ára gamall og var í stóru hlutverki hjá Girona sem hefur óvænt skotið sér í hóp bestu liða Spánar og hafnaði í þriðja sæti 1. deildar í ár, á eftir Real Madrid og Barcelona. García lék alla leiki liðsins nema einn á nýliðnu tímabili og var fyrirliði liðsins í hluta leikjanna. Hann hefur leikið tvo landsleiki fyrir Spán.

Enska knattspyrnufélagið Manchester United virðist vera langt komið með að tryggja sér varnarmanninn efnilega Jarrad Branthwaite frá Everton. The Times sagði í gærkvöld að samningar hefðu tekist um kaup og kjör við leikmanninn en félögin ættu eftir að ræða kaupverðið. Talið er að Everton vilji fá um 70-80 milljónir punda fyrir þennan 22 ára gamla leikmann sem var einn þeirra sem duttu út úr landsliðshópi Englands á síðustu stundu fyrir Evrópukeppnina í Þýskalandi. Branthwaite hefur leikið 45 úrvalsdeildarleiki fyrir Everton, 35 þeirra á nýliðnu keppnistímabili.

Edin Terzic er hættur störfum sem knattspyrnustjóri Borussia Dortmund í Þýskalandi og uppsögn hans kemur talsvert á óvart. Hann hefur stýrt liðinu frá árinu 2020 þegar hann tók við því til bráðabirgða til að byrja með. Undir hans stjórn varð Dortmund bikarmeistari 2021, var hársbreidd frá meistaratitlinum 2023 og lék til úrslita í Meistaradeild Evrópu í vor. Terzic er 41 árs gamall Þjóðverji af króatískum ættum og var áður aðstoðarstjóri Slavens Bilic hjá Besiktas í Tyrklandi og West Ham á Englandi.