Ólafur Helgi Kjartansson
Ólafur Helgi Kjartansson
En við getum gert meira en að bretta upp okkar eigin ermar og hvatt aðra til þess að gera hið sama. Skorum á vini og kunningja að vera með, gefa blóð.

Ólafur Helgi Kjartansson

Ágæti lesandi.

Sennilega velta fæstir því fyrir sér hversu bráðnauðsynlegt blóð okkar er.

Við vitum flest að án þess lifum við sjálf ekki. Það er hverju og einu okkar lífsnauðsynlegt.

En hvað með aðra en okkur sjálf? Margir þurfa blóðgjöf vegna veikinda og sjúkdóma, en við leiðum sennilega ekki hugann að því hversu brýnt það er

fyrir sjúklinga og heilbrigðiskerfið að ávallt séu fyrir hendi nægar birgðir blóðs, sem bjarga lífi annarra en okkar.

Það er lán þess sem þetta ritar að hafa fengið að taka þátt í því mikilvæga starfi að tryggja blóðgjafir til þeirra sem eru veikir eða hafa orðið fyrir slysum og komast ekki af án þeirra fjölmörgu sem tilheyra öflugri sveit blóðgjafa sem leggja reglulega leið sína í Blóðbankann við Snorrabraut í Reykjavík eða á Akureyri að ógleymdum þeim sem koma við í Blóðbankabílnum þegar hann og hið dásamlega starfsfólk heimsækir okkar næsta nágrenni.

En við getum gert meira en að bretta upp okkar eigin ermar og hvatt aðra til þess að gera hið sama. Skorum á vini og kunningja að taka þátt í þessu nauðsynlega starfi með okkur. Allir sem eru heilbrigðir og orðnir 18 ára geta látið sitt af mörkum renna til góðs.

World Health Organization hefur helgað 14. júní ár hvert blóðgjöf og sá dagur er til þess valinn að vekja athygli á þeirri lífgjöf sem það að gefa blóð er.

Alþjóðlegi blóðgjafadagurinn er á föstudegi að þessu sinni og mun Blóðgjafafélag Íslands í samstarfi við Blóðbankann taka vel á móti blóðgjöfum deginum fyrr, 13. júní, í Blóðbankanum, sem er lokaður á föstudögum.

Á föstudeginum mun BGFÍ svo vekja athygli á mikilvægi blóðgjafar.

Gefum líf. Gefum blóð.

Höfundur er stjórnarmaður í Blóðgjafafélagi Íslands.

Höf.: Ólafur Helgi Kjartansson