[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mér fannst mikilvægt að koma að rödd þeirra sem upplifðu það að vera nemendur á þessum tíma og kynnast sigrum þeirra og sorgum í skólagöngunni.

Vaxtaverkir er yfirskrift nýrrar sýningar í Árbæjarsafni, en þar er fjallað um veröld grunnskólabarna í Reykjavík á árabilinu 1898-1974. Sýningarstjóri er Íris Gyða Guðbjargardóttir.

„Þetta er sýning um skólagöngu barna á Stór-Reykjavíkursvæðinu frá 1898-1974. Sýningunni er ætlað að höfða til barna en foreldrar og ömmur og afar eiga einnig að njóta þess vel að vera hér með börnunum og upplifa sýninguna í gegnum þau. Margir gripanna eiga líka eftir að koma fullorðnum kunnuglega fyrir sjónir,“ segir Íris.

Ýmiss konar gripir eru á sýningunni og koma úr safnkosti safnsins. „Flestir gripirnir eru frá 1930 til 1960 og segja má að það tímabil sé þungamiðja sýningarinnar. Þetta eru hlutir eins og skólatöskur og kennslugögn eins og grifflar og krítartöflur. Þessi fyrstu skriffæri griffill og krít líta nánast út eins og nútímaspjaldtölva. Lýðheilsa fékk síðan töluvert rými innan sýningarinnar og nokkrir forvitnilegir munir sem tengjast því þema eru á sýningunni.“

Kosið um gripi

Það sem stendur upp úr í sýningarvinnunni er það að börn komu mikið að gerð hennar. „Við unnum þessa sýningu í samstarfi við hönnunarteymið ÞYKJÓ, sem eru sérfræðingar í að vinna að verkefnum með börnum fyrir börn. Við stofnuðum krakkaráð með þeim og tókum þrisvar sinnum í sýningarferlinu á móti rúmlega hundrað börnum úr Ártúnsskóla og við lögðum fyrir þau alls kyns verkefni. Við sýndum þeim varðveislurýmin okkar þar sem er að finna þúsundir gripa, sem ekki margir hafa aðgang að, og fórum með þeim í gegnum ferlið sem á sér stað þegar sýning verður til. Hönnuðirnir fylgdust með börnunum meðan við sérfræðingar safnsins sögðum þeim frá gripunum og sögum þeim tengdum. Börnin hjálpuðu okkur líka við þróun sýningartextans, við breyttum handritinu heilmikið eftir þeirra aðkomu.“

Börnin fengu að kjósa um þá gripi í safneigninni sem þeim þótti mest spennandi. „Það voru ýmsir gripir sem okkur fullorðna fólkinu þótti afar áhugaverðir sem börnunum fannst ekkert varið í. Við eigum gott safn af þurrkuðum blómum sem skólabörn höfðu límt á pappír. Við ætluðum að skreyta sýningarrýmið með þessu en þurrkuðu blómin fengu algjöra falleinkunn hjá börnunum, meðan gömul kvikmyndavél fékk toppeinkunn og er hér á sýningunni.“

Rödd nemenda

Fyrir sýninguna safnaði Íris yfir 300 persónufrásögnum einstaklinga sem voru í barnaskóla á síðustu öld. „Þegar ég geri sýningar finnst mér mikilvægt að draga fjölbreytilegar frásagnir fólks fram í sviðsljósið. Á sýningunni er að finna, uppi á veggjum og inni í skápum, uppskrifaðar persónufrásagnir sem valdar voru úr þessum mikla fjölda. Mér fannst mikilvægt að koma að rödd þeirra sem upplifðu það að vera nemendur á þessum tíma og kynnast sigrum þeirra og sorgum í skólagöngunni.“

Fallegt tímabil

Spurð hvað hafi vakið mesta athygli hennar þegar hún vann að sýningunni segir Íris: „Tímabilið 1900-1930 er mjög áhugavert því þar er verið að bæta skólakerfið allverulega. Það var þó nokkuð um að foreldrar hefðu ekki efni á námsgögnum og það var ótrúlega fallegt hvað kennarar og samfélagið hjálpuðust vel að til að gera börnum kleift að geta stundað nám. Það voru dæmi um að kennarar keyptu bækur fyrir börnin. Svo var komið á matargjöfum og lýsisgjöfum svo börnum liði betur. Þetta var fallegt tímabil þar sem var reynt að efla heilbrigði og heilsu barna. Á sama tíma er erfitt að lesa um reynslu barna sem skólakerfið hélt ekki nægilega vel utan um, til að mynda gengu fá börn með þroskahömlun í skóla á þessu tímabili.“

Á sýningartímabilinu mun fræðsluteymi safnsins bjóða upp á öfluga og fjölbreytta fræðsludagskrá fyrir grunnskólabörn. „Við viljum endilega fá sem flesta nemendur og kennara í heimsókn til okkar, en sýningin mun standa í þrjú ár. Sýningin mun vaxa og dafna eins og grunnskólabörn,“ segir Íris og bætir við: „Við fengum nýlega styrk úr Barnamenningarsjóði til að útbúa sjónlýsingu um sýninguna fyrir blinda og sjónskerta og leiðsögn á táknmáli í samtali við börn. Þetta er stórt skref fyrir okkur í því að bæta aðgengi fyrir öll að safninu.“

Sýningin er opin 10:00-17:00 og tilvalið að pakka nesti, spenna á sig bakpokann, fræðast og njóta dagsins í Árbænum.

Frásagnir nemenda

„Við hölluðum höfðinu aftur og svo hellti kennarinn smáslettu ofan í okkur. Svo fór þetta eftir hvað kennarinn var nettur í hellingunum hvort þú fékkst smáskammt eða gúlsopa (…) Ég man að einhver óhittinn kennari hellti einu sinni lýsi í nýja peysu sem ég var í og það var alveg sama hve oft peysan var þvegin, lyktin loddi alltaf við hana.“

– Ásgerður Ingimarsdóttir (1929-2013)
Þjóðháttasafn Þjóðminjasafnsins

„Nemendur sem þóttu sjúklega grannholda voru drifnir í ljósalampa. Þeir voru í sérstakri stofu, þarna lágu þessir mjóu og ungu búkar með sérstök ljósagleraugu fyrir augum, og létu gervisólina hressa sig. Allt urðu þetta miklir afbragðsmenn að lokum.“

– Jón Birgir Pétursson (f. 1938) Melaskóli 60 ára

„Ritföngin voru ýmist reiknispjald og griffill eða pappír og blýantur, síðar penni og blek. Ég er örvhentur, en sjálfsagt þótti að allir skrifuðu með hægri hönd, svo að rétt pennahald var mér erfitt, lengi vel og í byrjun varð að standa yfir mér og færa skriffærið í hægri hönd, því að ég skipti ósjálfrátt yfir í vinstri … Talað var um að menn væru vel eða illa skrifandi, sendibréfsfærir og listaskrifarar. Einnig þekktust orðin pár, hrafnaspark og kattarklór.“

– Ónefndur (f. 1924) Þjóðháttasafn Þjóðminjasafnsins