Dr., dr., MA Sigurjón Árni Eyjólfsson er einn afkastamesti fræðimaður landsins á sínu sviði.
Dr., dr., MA Sigurjón Árni Eyjólfsson er einn afkastamesti fræðimaður landsins á sínu sviði. — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Lærður er í lyndi glaður, lof hann ber hjá þjóðum, segir í heilræðavísum Hallgríms Péturssonar. Þessi vísuorð rifjuðust upp þegar Morgunblaðið ræddi við Sigurjón Árna Eyjólfsson prest á heimili hans í Reykjavík síðdegis á fimmtudag en tilefnið var heldur óvenjulegt

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Lærður er í lyndi glaður, lof hann ber hjá þjóðum, segir í heilræðavísum Hallgríms Péturssonar.

Þessi vísuorð rifjuðust upp þegar Morgunblaðið ræddi við Sigurjón Árna Eyjólfsson prest á heimili hans í Reykjavík síðdegis á fimmtudag en tilefnið var heldur óvenjulegt.

Sigurjón Árni útskrifast þannig í dag með meistarapróf í listfræði frá Háskóla Íslands. Fyrir hafði hann tvær doktorsgráður í guðfræði en fátítt er, ef ekki einsdæmi, að menn gangi svo langan menntaveg.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, kannaði að beiðni Morgunblaðsins hvort það hefði áður gerst að nemandi við skólann hefði tvær doktorsgráður og meistaragráðu. Benti athugun á skrifstofu skólans til að þetta væri einsdæmi.

Sigurjón skilaði í nóvember 2020 BA-ritgerð sem bar heitið Alræðiskenningar afhjúpaðar í myndmáli en leiðbeinandi var Æsa Sigurjónsdóttir. Var ritgerðin lokaverkefni til BA-prófs í listfræði við Háskóla Íslands.

Sigurjón lauk svo í vor við MA-ritgerðina Abstraktmálverkið: Helgimynd íslenskrar menningar á 20. öld en leiðbeinendur voru Æsa Sigurjónsdóttir og Benedikt Hjartarson. Ritgerðin fékk mjög góða umsögn en Sigurjón er maður hógvær og vill síður ræða vitnisburðinn. Þakkar hann góðu samstarfsfólki árangur sinn á akri fræðanna en þar hafi margir góðir menn lagt hönd á plóg.

Örlagaríkt ár

Sigurjón gekk í Ísaksskóla og Æfingadeildina en snemma kom í ljós að hann væri lesblindur.

„Það er kannski ástæðan fyrir því að ég hef alltaf haldið áfram að læra. Að ég hafi verið að yfirvinna það,“ segir Sigurjón sem tók svo 4. bekk í Ármúlaskóla og útskrifaðist vorið 1978 með stúdentspróf frá náttúrufræðisviði Menntaskólans við Hamrahlíð. Það ár var örlagaríkt í lífi Sigurjóns því hann fór þá um sumarið til frændfólks síns í Þýskalandi en móðuramma hans var þaðan. Þar kynntist hann konu sinni, Martinu, en þau eiga tvær dætur, Bryndísi Þóreyju og Kolbrúnu Evu.

Kenningar í guðfræði

Sigurjón lauk guðfræðiprófi við Háskóla Íslands 1984. Haustið 1986 hóf hann doktorsnám við guðfræðideild Christian-Albrechts-Universität í Kiel og lauk því 1991 en doktorsritgerðin fjallaði um réttlætingarkenninguna í guðfræði Werners Elerts. Árið 2002 tók Sigurjón annað doktorspróf þegar hann varði ritgerð sína við guðfræðideild Háskóla Íslands, „Guðfræði Marteins Lúthers í ljósi túlkunar hans á Jóhannesarguðspjalli 1535-1540“.

Sigurjón segir það hafa haft mikla þýðingu fyrir stöðu sína sem fræðimaður að ljúka síðari doktorsgráðunni. „Síðari doktorsritgerð mína vann ég í nánu samstarfi við guðfræðideildina í Kiel. Margir vinir mínir voru þar við skólann og þegar ég var kominn með tvö doktorspróf var maður meira á jafnréttisgrundvelli gagnvart þeim. Ég hef alltaf átt í mjög góðum samskiptum við guðfræðideildina við háskólann í Kiel og hef meðal annars sinnt kennslu við skólann,“ segir Sigurjón.

Aldarfjórðung í háskólanámi

Allt þetta nám hefur tekið sinn tíma. Sigurjón var sex ár að ljúka guðfræðiprófi og vann að fyrri doktorsritgerðinni í fimm ár. Þá vann hann að síðari doktorsritgerðinni í um níu ár og spannar guðfræðinámið því um tvo áratugi. Við það bætast nokkur ár í listasögu við Háskóla Íslands.

Þá er ótalið fjölþætt framlag til rannsókna og fræðslu. Sigurjón hefur starfað sem prestur, sinnt stundakennslu við Háskóla Íslands og háskólann í Kiel, skrifað formála, ritstýrt bókum, ritað greinar á þýsku og íslensku og frumsamið bækur um guðfræðileg málefni, ásamt öðru, svo að stiklað sé á stóru. Þetta eru mikil og óvenjuleg afköst. Spurður hvernig hann komi svo miklu í verk segir Sigurjón að störf sín hafi kallað á nýsköpun.

„Þegar ég hóf störf í Bústaðakirkju sem aðstoðarprestur var ég með fyrirlestra á fimmtudagskvöldum og hef haldið því áfram allar götur síðan. Fyrirlestrarnir urðu svo jafnvel að köflum í bókum sem ég var að skrifa. Þannig hef ég unnið. Svo þegar ég var héraðsprestur fékk ég líka það hlutverk að vera með erindi um texta næsta sunnudags fyrir presta á hverjum einasta þriðjudagsmorgni. Maður þarf því stöðugt að vera að framleiða efni. Fimmtudagsfyrirlestrarnir urðu að föstum fyrirlestraröðum, tíu skipti fyrir jól og tíu skipti eftir jól, en upp úr þeim hef ég samið efni fyrir bækur sem ég hef verið að skrifa. Ég hef verið mikið með sama fólkið hjá mér og get því ekki endurtekið námsefnið, eins og stundum er hægt að gera í háskólanum. Þegar maður þarf stöðugt að vera með nýtt efni er maður knúinn til að lesa og fræðast. Því hef ég jöfnum höndum sinnt kennslu og látið fræða mig til þess að geta valdið þessu.“

Vildi kanna tengslin

Hvernig lá leiðin úr guðfræðinni í listfræðina?

„Þegar ég hafði lagt lokahönd á bókina Trú, von og þjóð (2014) fannst mér ég þurfa að dýpka skilning minn og tók þá saman ritgerðasafnið Að ná áttum (2019). Þá fór ég að íhuga hvernig kirkjan birtist í nútímanum og þá blasti við að hver kirkjubygging er í raun visst endurskin af táknheimi kristninnar. Ég fékk þá námsleyfi og fór í listfræði til þess að athuga hvernig það sem ég væri að rannsaka tengdist listfræðinni,“ segir Sigurjón sem gaf árið 2020 út bókina Augljóst en hulið: að skilja táknheim kirkjubygginga. Árið 2022 gaf hann svo út bókina Tíminn og trúin: kirkjuárið og textaraðirnar en þar er tímaskilningur kristninnar greindur út frá þeim textum sem lesnir eru upp við guðsþjónustur og kirkjuárið útskýrt. Þá er væntanleg bók eftir Sigurjón sem verður unnin upp úr meistararitgerðinni, eins og rakið er hér fyrir neðan. Sigurjón segir það mjög gefandi að öðlast skilning á táknheimi kristninnar og hvernig hann birtist í listaverkum. Þar með talið í málverkum gömlu meistaranna en líka í tónlist eins og m.a. í tónlist Johanns Sebastians Bachs.

„Ég tók abstraktmálverkið fyrir í lokaverkefninu og geri grein fyrir því hvernig táknheimur kristninnar hefur breyst. Abstraktmálarar reyndu í verkum sínum að sneiða hjá hefðbundinni frásögn og verkin snerta þannig við manni. Það er eitthvað í þeim sem kallar til manns,“ segir Sigurjón og útskýrir að í nútímanum séu handanvera og hérvera ekki aðskildir veruleikar heldur tengist þeir saman sem meðal annars megi greina í abstraktverkinu. En af hverju skyldi hann vera svona námfús?

„Mér þótti gaman að láta segja mér sögur sem barn og er forvitinn að eðlisfari,“ segir hann að lokum.

Mikil afköst

Tólfta bókin er í vinnslu

Sigurjón Árni Eyjólfsson hefur gefið út ellefu frumsamdar bækur og eru tvö ritgerðasöfn þá meðtalin. Þá hefur hann skrifað formála að tveimur bókum, Um ánauð viljans og Um trúarbrögðin: ræður handa menntamönnum sem fyrirlíta þau, en báðar komu út sem lærdómsrit hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi. Þá hefur Sigurjón Árni gefið út á annað hundrað fræðigreinar um guðfræðileg málefni en hann hefur meðal annars mikið rannsakað texta Marteins Lúthers.

Sigurjón hyggst jafnframt vinna bók upp úr MA-ritgerð sinni, Abstraktmálverkið: Helgimynd íslenskrar menningar á 20. öld, og verður það tólfta frumsamda bókin.

Samhliða ritstörfum hefur Sigurjón leikið á saxófón en hann lauk burtfararprófi á saxófón frá djass- og rokkbraut og framhaldsprófi í saxófónleik frá Tónlistarskóla FÍH í maí 2016.