— Universal Pictures
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hvað gera menn sem litnir eru hornauga af samfélaginu og engum háðir árið 1965? Þeir stofna mótorhjólaklúbb. Og aðalgaurinn getur ekki heitið neitt annað en Johnny. Þið munið Marlon Brando í The Wild One

Hvað gera menn sem litnir eru hornauga af samfélaginu og engum háðir árið 1965? Þeir stofna mótorhjólaklúbb. Og aðalgaurinn getur ekki heitið neitt annað en Johnny. Þið munið Marlon Brando í The Wild One. Hann tekur ungan mann, Benny, undir sinn verndarvæng; týpuna sem fyrr mun láta lífið en að afhenda einhverjum frekjudúddum leðurjakkann sinn. Eruð þið að ná þessu? Er tragedía í uppsiglingu?

Auðvitað á Benny kærustu, Kathy, sem hefur engan áhuga á að deila honum með Johnny og hinum gaurunum í Vandals MC. Hún telur meira búa í sínum manni. Árin líða, mannskapurinn kominn út á ystu nöf og Vandals farinn að minna meira á glæpasamtök en mótorhjólaklúbb. Eins og getur gerst. Til uppgjörs hlýtur að koma! Í bakgrunni kraumar uppreisn sexunnar gegn ríkjandi gildum, frjálsar ástir, stríð, friðarákall, geimferðir og allur pakkinn.

Við horfum hér yfir sviðið í kvikmyndinni The Bikeriders eftir Jeff Nichols sem frumsýnd verður í vikunni. Þar kemur saman svalasti hópur manna sem lengi hefur sést á hvíta tjaldinu. Okkar allra svalasti maður, Tom Hardy, leikur Johnny og Austin „Elvis“ Butler Benny. Þarna eru líka Michael Shannon, Mike Faist og Norman gamli Reedus. Hugsið ykkur! Mótvægið og aðhaldið er fólgið í Jodie Comer, sem fer með hlutverk Kathyjar. Sú má aldeilis hafa sig alla við, því af 13 nafngreindum leikurum á Wikipediu er hún eina konan.

The Bikeriders sækir innblástur í fræga svarthvíta ljósmyndabók sem Danny Lyon gaf út árið 1968 og þótti fanga vel andann í mótorhjólaklúbbnum fræga Outlaws MC.

Langflóknasta handritið

Um er að ræða sjöttu mynd Jeffs Nichols í fullri lengd og hann upplýsir í samtali við vefsíðu Harley Davidson-mótorhjólanna að hann hafi gengið með hana í maganum í um tvo áratugi, eða frá því að hann uppgötvaði ljósmyndabókina fyrst. „Þá var ég ekki tilbúinn tæknilega sem kvikmyndagerðarmaður og sem sögumaður þurfti ég að auki tíma til að finna leiðina inn í verkið. Þetta er langflóknasta handrit sem ég hef nokkru sinni skrifað, þó ég voni að það skíni ekki í gegn þegar menn horfa á myndina, og satt best að segja hafði ég ekki kjark fyrr en ég var búinn að gera fimm myndir. Í þessari mynd vissi ég að tíminn myndi líða á sérkennilegan hátt, vegna þess að ég vildi vera á ferðinni og fanga þessar fallegu sögur í bókinni, sem ég hef unnað heitt lengi.“

Nichols kveðst ekki hafa viljað stíga á tærnar á Outlaws (hver myndi svo sem vilja það?), þannig að hann skáldaði söguþráðinn, eftir að hafa fengið grænt ljós frá Ljóninu sjálfu, Danny Lyon. Frásagnir meðlima klúbbsins dýpka þó, að hans mati, ljósmyndirnar í bókinni og um þetta fólk vildi hann skrifa – óbeint. „Myndin varð að vera um þetta fólk og hvernig það upplifði sig sjálft og hvernig það passaði og passaði ekki inn í veröldina,“ segir Nichols.

Svo fór hann að spinna og fann fljótt að ástarsaga Bennys og Kathyjar myndi ekki bera myndina uppi ein og sér. Þess vegna skóp hann „ástarþríhyrning“. „Benny hrífst ekki bara af Kathy, heldur einnig Johnny – hvorki þó á kynferðislegan hátt né heldur á forsendum föður og sonar. Persóna Johnnys girnist Benny, ekki á sama hátt og Kathy gerir, en þau laðast bæði að honum. Það var neistinn sem gerði mér kleift að halda myndinni á jörðinni.“

Höfundurinn líkir Benny við opið glas. Annarra sé að hella í hann. „Allir eru að reyna að fylla Benny af vonum sínum, draumum og þrám, en hann er ekki gerður til að bera það allt. Hann nær ekki utan um þetta fólk og vill það satt best að segja ekki. Fyrir vikið erum við búin að hanna persónu sem vonlaust er að fullnægja. Hans hlutverk er að vera einskonar tæki fyrir Kathy og Johnny, enda eru þau í reynd persónurnar sem myndin snýst gegn á áhugaverðan hátt. Og það er harmleikur vegna þess að þau leggja svo mikið í hlut sem ekki var gerður til að halda neinu. Benny veldur stöðugri gremju og sem kvikmyndagerðar- og sögumaður varð ég að sætta mig við það.“

Ríkt persónugallerí

Persónugalleríið er ríkt í myndinni og Nichols kveðst hafa varist fimlega þegar að honum var lagt að trimma það niður og beina sjónum fyrst og síðast að þríhyrningnum góða. „Það vildi ég ekki gera vegna þess að í sannleika sagt þá duga persónur Bennys, Johnnys og Kathyjar – eins mikið og ég ann þeim – ekki til að líma þetta saman. Til þess þurfti ég á einstaklingseinkennum allra hinna að halda.“

Harley Davidson-menn gátu vitaskuld ekki sleppt Nichols án þess að spyrja um uppáhaldsmótorhjólaatriðið hans í myndinni. „Kathy fyrir aftan Benny fyrsta kvöldið,“ svaraði hann um hæl. „Það er ástarsena og hún er ekki bara að falla fyrir Benny heldur einnig samfélagi mótorhjólanna. Ég skrifaði það nákvæmlega þannig. Ég elska áferðina og hljóðrásina, sérstaklega Out in the Streets með The Shangri-La’s. Sérhver sena sem tekin var upp á hjólunum var ógnvekjandi vegna þess að ég var með alla þessa leikara á svæðinu hjálmlausa á eldgömlum tækjum og á fleygiferð. En það var akkúrat á þeim augnablikum sem bók Lyons lifnaði við – ég hef aldrei upplifað annað eins.“

Hlotið lof fyrir fjölhæfni

Jodie Comer er 31 árs gömul, fædd í Liverpool á Englandi. Hún hefur hlotið lof fyrir fjölhæfni í leik sínum og afburðavald á mállýskum af ýmsu tagi.

Comer lét fyrst að sér kveða í sjónvarpi, í myndaflokkunum My Mad Fat Diary, Doctor Foster og Thirteen en í þeim síðastnefnda leikur hún unga konu sem sleppur úr haldi mannræningja eftir 13 ár. Frá 2018-22 var hún í burðarhlutverki í hinum vinsælu þáttum Killing Eve. Af kvikmyndum sem Comer hefur leikið í má nefna The Last Duel eftir Ridley Scott. Um þessar mundir er hún að leika í Danny Boyle-myndinni 28 Years Later sem frumsýnd verður á næsta ári. Þá hefur hún leikið á sviði við góðan orðstír.