Ólöf Sigurborg Ólafsdóttir (Sibba) fæddist á Álafossi Mosfellssveit 13. desember 1941. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Ási í Hveragerði 5. júní 2024.

Foreldrar Sibbu voru Ólafur Friðgeir Ólafsson sem rak og átti ullarverksmiðjuna Ó.F.Ó. á Álafossi, f. 19. apríl 1911, d. 1. september 1978, og Jónína Guðrún Jóhannsdóttir húsmóðir, f. 19. júlí 1912, d. 28. október 1960.

Alsystir Sibbu var Sigríður Erla Ólafsdóttir, f. 26. júlí 1938, d. 4. apríl 2016. Sammæðra systir er Vigdís Lára Viggósdóttir, f. 7. ágúst 1944. Samfeðra systkin eru Ólafur Hraunberg Ólafsson, f. 8. janúar 1945, Hilmar Skúli Ólafsson, f. 9. apríl 1946, d. 27. janúar 2023. Valur Jóhann Ólafsson, f. 15. apríl 1948. Hrafnhildur Björk Ólafsdóttir, f. 23. september 1948, og Steinunn Inga Ólafsdóttir, f. 18. júní 1958. Uppeldissystkin Sibbu eru Kolbrún Karlsdóttir, f. 21. febrúar 1935, og Baldvin Árnason, f. 17. júní 1939.

Þann 16. október 1962 giftist hún Ástvaldi Leifi Eiríkssyni, trésmíðameistara og bónda á Hlemmiskeiði 2 í Skeiðahreppi, f. 16. október 1934, d. 5. febrúar 1996. Börn þeirra eru: 1) Ólafur Friðgeir Leifsson, f. 19. ágúst 1962, giftur Hörpu Dís Harðardóttur, f. 10. október 1968, og eignuðust þau þrjú börn: a) Ólafur Freyr, f. 3. nóvember 1987, eiginkona hans er Guðfinna Ósk og eiga þau þrjú börn. b) Eva Dögg, f. 19. september 1990, d. 20. febrúar 2014. c) Elvar Örn, f. 27. september 1994. 2) Eiríkur Leifsson, f. 11. ágúst 1963, giftur Brynhildi Gylfadóttur, f. 27. apríl 1969, og eiga þau fjögur börn: a) Leifur, f. 15. desember 1991, b) Gylfi Brynjar, f. 1. júlí 1998, c) Hrafnhildur Ólöf, f. 26. nóvember 1999, gift Lukas Pardon, d) Rebekka Hugrún, f. 30. september 2003. 3) Ófeigur Ágúst Leifsson, f. 24. desember 1967, giftur Þórdísi Bjarnadóttur, f. 11. desember 1972, og eiga þau þrjú börn: a) Salvör Ágústa, f. 19. maí 1993, unnusti hennar er Sigurgeir Búi og eiga þau eitt barn, b) Bjarni Friðrik, f. 1. mars 1993, c) Þórey Ásta, f. 15. nóvember 2005. 4) Jóna Sif Leifsdóttir, f. 23. janúar 1973, gift Benedikt Hjörvari Ingvarssyni, f. 7. október 1971 og eiga þau fjögur börn: a) Eyþór Smári, f. 29. maí 1996, kærasta hans er Katrín Ásta, b) Arnþór Ingvar, f. 9. nóvember 1998, kærasta hans er Tara Mist, c) Leifur Darri, f. 16. september 2003, d) Hekla Sigurborg, f. 19. október 2009.

Sibba ólst upp í Reykjavík hjá föður sínum, kláraði barnaskólagöngu þar og seinna fór hún í Húsmæðraskólann á Löngumýri, Skagafirði. Sibba var í hlutastarfi hjá frænku sinni Ingibjörgu á Dvalarheimilinu Blesastöðum í Skeiðahreppi samhliða bústörfum. Sibba og Leifur voru í félagsbúi með Vilhjálmi bróður Leifs á Hlemmiskeiði 2 og konu hans Ásthildi til ársins 1991 en þá hættu þau búskap.

Útför Sibbu fer fram frá Skálholti í dag, 15. júní 2024, klukkan 11.

Margs er að minnast og margs er að sakna, elsku Sibba mín.

Við hittumst fyrst árið 1985 á Dvalarheimilinu á Blesastöðum hjá Ingibjörgu frænku þinni. Ég, trippi úr Reykjavík, nýorðin 17 ára, kom austur fyrir fjall til að vinna þarna á dvalarheimilinu og þar komst þú reglulega til að aðstoða. Ekki datt okkur nú í hug að við yrðum tengdamæðgur stuttu síðar en þannig varð það nú samt. Síðan eru liðin næstum 40 ár Sibba mín og við sem betur fer vinkonur öll þessi ár og það ber að þakka. Árið 1987 kom svo fyrsta barnabarnið ykkar Leifs, hann Ólafur Freyr, mikið sem þið voruð yndisleg amma og afi og hann var alltaf velkomin til ykkar. Svo bættust fleiri barnabörn í hópinn ykkar og þið alltaf jafn stolt og ánægð með þau öll.

Sibba mín, þú kenndir mér svo margt, og þá er ég ekki að tala um handavinnuna, heldur það að baka algerlega nauðsynlegar jólasmákökur af flóknustu gerð, tertur eins og tertur eiga að vera og að taka slátur. Það er svo dásamlegt að rifja upp þessar minningar, og það gerðum við reyndar oft þegar þú varst enn hér hjá okkur, alltaf þegar við vorum að byrja sláturgerðina þá upphófst leitin að rétta og alltaf sama vaskafatinu til að hræra í, já og hvar er svo gamla góða sleifin sem alltaf var notuð. Einstaklega gott slátur sem allir hlakka til að smakka á hverju hausti.

Sibba mín, þú gafst barnabörnunum þínum það dýrmætasta sem hægt er að gefa annarri manneskju, hvað þá börnum, en það er tími, þú gafst þér alltaf tíma til að spjalla við þau, lesa fyrir þau, þú spilaðir við þau með einstakri þolinmæði og hlátri, þú horfðir með þeim á teiknimyndir og þau fundu að þér fannst myndirnar jafn skemmtilegar og þeim. Svo bakaðir þú pönnukökur handa þeim alltaf þegar þau þurftu á þeim að halda.

Sibba mín, ég er þér svo óendanlega þakklát fyrir allt þessi 40 ár sem við höfum þekkst og vorum samferða. Ég er þér svo þakklát fyrir allt sem þú kenndir og gafst börnunum mínum, og hvernig þú hjálpaðir okkur í þeim verkefnunum sem við fengum upp í hendurnar.

Mikið held ég að Leifur og Eva mín séu glöð að fá þig til sín í sumarlandið. Nú verður væntanlega lesið, tekið í spil, hlegið, dansað og kysst. Við sem fáum að vera lengur hér í jarðlífinu yljum okkur við góðar minningar og höldum vel utan um hvert annað.

Skilaðu kveðju frá okkur hér í Björnskoti til allra þarna hinumegin, elsku mamma, tengdamamma og amma.

Kallið er komið,

komin er nú stundin,

vinaskilnaðar viðkvæm stund.

Vinirnir kveðja

vininn sinn látna,

er sefur hér hinn síðsta blund.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

Grátnir til grafar

göngum vér nú héðan,

fylgjum þér, vinur. Far vel á braut.

Guð oss það gefi,

glaðir vér megum

þér síðar fylgja‘ í friðarskaut.

(Valdimar Briem)

Harpa Dís og Ólafur.

Elsku Sibba tengdamamma er farin. Alltaf er erfitt og þungt að kveðja en ég er þakklát. Þakklát fyrir okkar kynni, okkar vinskap sem dafnaði eftir því sem ég þroskaðist, en þegar ég kom fyrst á Hlemmó var ég óþroskaður unglingur. Örfáum dögum áður en hún kvaddi ræddum við um þegar ég kom með Böddu í kirkjugarðinn á Ólafsvöllum í árlegan slátt og tiltektardag árið 1990, ég fór til hennar og sagði að nú væri ég kærastan hans Ófeigs. Sibba tók mér opnum örmum eins og henni var einni lagið. Ég er betri manneskja fyrir okkar kynni, því oft þurfti hún að leiðbeina mér og benda mér á það sem betur mátti fara.

Börnunum okkar var hún góð amma, kenndi þeim bænirnar, bakaði heimsins bestu pönnukökur, karamellukökur og perukökur. Svo ég tali nú ekki um kramarhúsin og trúlofunarhringina á jólunum.

Það eru ekki allir sem geta sagt að tengdamamma sé vinkona. En Sibba var allt í einum pakka, góð amma, tengdamamma með skoðanir, góð mamma og trúnaðarvinkona. Sem vildi allt gera fyrir fólkið sitt.

Nú legg ég augun aftur,

ó, Guð, þinn náðarkraftur

mín veri vörn í nótt.

Æ, virst mig að þér taka,

mér yfir láttu vaka

þinn engil, svo ég sofi rótt.

(Sveinbjörn Egilsson)

Takk fyrir allt og allt.

Þórdís
Bjarnadóttir.