Það var hamagangur í öskjunni á þingi í vikunni, enda áttu þinglok upphaflega að vera í gær, þótt ekki stæðist það nú, enda mikið óafgreitt. Útlendingafrumvarp Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra var þó loksins samþykkt.
Það var hamagangur í öskjunni á þingi í vikunni, enda áttu þinglok upphaflega að vera í gær, þótt ekki stæðist það nú, enda mikið óafgreitt. Útlendingafrumvarp Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra var þó loksins samþykkt. — Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
Karlalandslið Íslands í fótbolta sigraði Englendinga 0:1 í vináttulandsleik á Wembley-leikvangi. Síðasti bekkurinn í Grunnskóla Grindavíkur útskrifaðist og öllu starfsfólki skólans síðan sagt upp

8.6.-14.6.

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Karlalandslið Íslands í fótbolta sigraði Englendinga 0:1 í vináttulandsleik á Wembley-leikvangi.

Síðasti bekkurinn í Grunnskóla Grindavíkur útskrifaðist og öllu starfsfólki skólans síðan sagt upp.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra sagði umboð ríkisstjórnarinnar skýrt og kvað hana ætla að koma mikilvægustu málum í gegnum þingið fyrir sumarleyfi.

Stjórn Vinstri-grænna ákvað að flýta landsfundi til þess að kjósa nýjan formann, en flýta sér samt hægt og vilja ekki halda hann fyrr en 4. október, svo hægt sé að taka nokkrar snerrur í þinginu fyrst.

Sama dag baðst matvælaráðuneytið afsökunar á ráðherra sínum, en Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir afvegaleiddi þingið í svari við fyrirspurn vikunni áður. Hún hefur ekki enn beðið þingið afsökunar.

Úrskurðarnefnd upplýsingamála hnekkti synjun Útlendingastofnunar um afhendingu gagna sem sýna hugsanleg tengsl fólks, sem hingað hefur komið í nafni fjölskyldusameingar, við hryðjuverkasamtökin Hamas.

Vegagerðin mótmælti því harðlega að ný „hönnunarbrú“ yfir Ölfusá myndi kosta 10 milljarða kr., hún myndi aðeins kosta átta milljarða. Ekki liggur fyrir hver pantaði þessa dýru brú, en fjárveitingavaldið var ekki spurt.

Dæmi eru um að útlendingar með atvinnuleyfi hér á landi framleigi það ólöglega.

Þess var minnst að 120 ár voru liðin frá því að aðförin að einkabílnum hófst þegar Ditlev Thomsen flutti fyrsta bílinn inn til landsins.

Íslenskir stjórnmálamenn létu í ljós áhyggjur af auknu ofbeldi í garð stjórnmálamanna í Evrópu eftir að Mette Frederiksen forsætisráðherra var slegin bylmingshöggi á götu úti. Enginn þeirra minntist á það þegar Nigel Farage var grýttur í Bretlandi.

Enginn hefur enn gefið sig fram til formennsku Vinstri-grænna í haust. Mest er um það rætt í „grasrótinni“ að flokkurinn þurfi að verða róttækari en nokkru sinni fyrr í von um að komast upp úr 3% fylgi í 4% fylgi Sósíalistaflokksins.

Útgerðin Gjögur frá Grindavík keypti 16 íbúðir í blokk í Kópavogi til þess að hýsa skipverja sína og fjölskyldur þeirra.

Löng bið er eftir verklegu meiraprófi til aksturs, sem er ein algengasta framhaldsmenntun fyrrverandi drengja, sem eiga undir högg að sækja annars staðar í menntakerfinu.

HS Orka kveðst búin undir flesta möguleika vegna jarðelda í nágrenni virkjunarinnar á Svartsengi, en hraunjaðarinn hefur færst nær.

Karlalandslið Íslands steinlá í vináttuleik við Hollendinga í Rotterdam, 4:0. Enska landsliðið, sem tapaði 0:1 fyrir Íslandi nokkrum dögum fyrr, hlýtur að vera logandi hrætt við það hollenska.

Útlendingastofnun hefur frá 2017 birt 72 útlendingum ákvörðun sína um brottvísun frá Íslandi vegna ýmiss konar refsilagabrota eða um 8,5 brottvísanir á ári. Flestir þeirra voru hér án dvalarleyfis.

Umsóknum hælisleitenda hefur snarfækkað á árinu, þær voru 936 fyrstu fimm mánuði ársins en 4.159 allt árið í fyrra. Það er nær helmingssamdráttur á mánuði. Á sama tíma fengu 135 hæli hér, en 663 var synjað.

Meirihluti fjárlaganefndar vill athuga hvort ekki sé hyggilegra að Ríkisútvarpið verði hefðbundin ríkisstofnun á fjárlögum.

Umboðsmaður Alþingis krefur úrskurðarnefnd upplýsingamála svara um minni afköst en áður, færri úrskurðir séu kveðnir upp og málsmeðferð lengist sífellt, allt að 241 degi. Gangi umba vel að fá svör!

Einn dó í bílslysi í Norðurárdal í Borgarfirði.

Skúli Óskarsson kraftlyftingamaður dó 75 ára.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra kom loks undan feldi sínum og gaf út ónothæft hvalveiðileyfi til 204 daga.

Hvalur hf. mótmælti vinnulaginu, þar sem málshraðareglur stjórnsýslunnar hefðu verið þverbrotnar í pólitísku skyni. Ekki gæfist ráðrúm til þess að hefja vertíðina úr þessu og enginn ræki fyrirtæki ár fyrir ár eftir því sem ráðherra þóknaðist að gefa til þess leyfi.

Vopnuð sérsveit lögreglu var kölluð út 461 sinni á liðnu ári, en fjöldi útkalla á ári hefur meira en tífaldast á liðnum áratug. Aukinn vopnaburður viðskiptavina hennar er talinn líklegasta skýringin.

Talsverð gosmóða lagðist yfir höfuðborgarsvæðið og var borgarbúum ráðlagt að hafa glugga lokaða og halda börnum heima við.

Stórstjarnan Gerard Butler kom til landsins til þess að leika í myndinni Greenland. Enginn kunni við að segja honum hið sanna.

Sorpu hefur ekki enn tekist að finna stað fyrir nýja móttöku í stað þeirrar á Dalvegi, sem lokað verður í haust.

Ljóst var að þinglok tefðust, enda tugir stjórnarmála óafgreiddir, þar af mörg stóeflismál, líkt og samgönguáætlun Suðurkjördæmis, lögreglulög og lagareldismálið og fleiri, sem útlit er fyrir að flest muni daga uppi.

Vegna þeirra vandræða í þinginu blasir við að þjóðin fari óperulaus inn í haustið, en menningarráðherra lá svo á, að Íslensku óperunni var slaufað áður en peningur fannst fyrir nýju fínu þjóðaróperuna.

Vegna umræðu um jarðhræringar og öryggi millilandaflugs telur forstjóri Isavia að það kosti hundruð milljarða króna að leggja nýjan alþjóðaflugvöll, sem muni seint bera sig. Hann fussaði yfir Hvassahrauni.

Þingmaður lagði fram fyrirspurn um „heiðurs“-ofbeldi í landinu eftir að uppvíst varð um stórfelld ofbeldisbrot gegn konu í alþjóðlegri vernd og fjölskyldusameiningu.

Vegagerðin hefur farið marga milljarða fram yfir fjárheimildir Alþingis við Hornafjarðarfljót og verður fróðlegt að sjá hver mun sæta ábyrgð fyrir þau lögbrot.

Íbúar í nýbyggingum í miðbænum kvarta sáran undan háreysti og öðru ónæði þar, sem virðist hafa komið þeim í opna skjöldu.

Til stendur að reisa vetnisverksmiðju og ammoníaksverksmiðju á Grundartanga. Þó ekki fyrr en að loknum ítarlegum rannsóknum á áhrifum framkvæmda þar á tímgunarsvæði Katanesdýrsins.

Lárus Þorvaldur Guðmundsson, fv. prófastur og sendiráðsprestur, dó 91 árs.

Þingmenn Miðflokksins íhuga vantrauststillögu á matvælaráðherra vegna vísvitandi dráttar við útgáfu hvalveiðileyfa. Þingmenn Viðreisnar tóku vel í þá hugmynd.

Lögregla fyrirhugar að taka rafbyssur í notkun í sumar sem hluta af orkuskiptaáætlun.

Þótt engum lítist á flugvallargerð í Hvassahrauni hyggst innviðaráðuneytið halda til streitu rannsóknum og skýrslugerð á fýsileika þess. Það hefur kostað offjár, en ekki er ljóst hver er frændi hvers.

Grunur leikur á um mansalsbrot á veitingastað á Laugavegi.

Íbúar við Austurhöfn urðu ekki kátir þegar Reykjavíkurborg greindi frá uppsetningu parísarhjóls við baðherbergisglugga þeirra. Borgin sagði það á misskilningi byggt, gervigreind hefði verið notuð til þess að gera myndina, sem væri kolröng, hún hefði meira að segja sýnt logn.

Júníveturinn var óvenjuharður og hafa þúsundir fugla króknað og soltið, en varp víða ónýtt.

Ellý Katrín Guðmundsdóttir fv. borgarritari dó 59 ára.