Pest Menn urðu sárlasnir af umferðarbrjósthimnubólgunni, einkum börn og ungfullorðið fólk. Ekki fylgdi þó kvef.
Pest Menn urðu sárlasnir af umferðarbrjósthimnubólgunni, einkum börn og ungfullorðið fólk. Ekki fylgdi þó kvef. — Ljósmynd/Colurbox/Elnur Amikishiyev
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
1926 „Eftir fáa daga kemur batinn skyndilega, takið hverfur, sótthitinn hverfur, og brjósthimnubólgan batnar fljótt og vel.“ G.B. umsjónarmaður Heilbrigðistíðinda í Morgunblaðinu.

Baksvið

Orri Páll Ormarsson

orri@mbl.is

Hermt var af fágætri farsótt í Morgunblaðinu seint í júní 1926, undir liðnum Heilbrigðistíðindi. Umsjón hafði G nokkur B. Augljóslega vel að sér í heilbrigðisfræðunum.

„Snemma í þessum mánuði tóku læknar í Rvík að verða varir við einkennilega farsótt, sem kalla má umferðarbrjósthimnubólgu (pleuritis epidemica). Menn veikjast skyndilega af taksótt, takið oft afar svæsið og hitinn hár (um 40°). Brátt verður vart við þurra brjósthimnubólgu, en ekkert kvef eða bólgu í lungum. Eftir fáa (venjulega 2-5) daga kemur batinn skyndilega, takið hverfur, sótthitinn hverfur, og brjósthimnubólgan batnar fljótt og vel,“ sagði G.B.

Menn urðu þó að vera skynsamir fyrst á eftir. „Alloft slær mönnum niður aftur, ef þeir fara ekki varlega með sig.“

Góðu fréttirnar voru á hinn bóginn þær að enginn hafði dáið úr þessari veiki. „Hún virðist vera rnjög svo hættulítil. Í Rvík hefir þessi sótt náð mikilli útbreiðslu. Oft veikjast 2 eða fleiri í senn á sama heimili. Veikin legst eingöngu á börn og ungfullorðið fólk (innan þrítugs),“ var haft eftir héraðslækni.

Sama veiki í Hafnarfirði

Þessi sama veiki gekk einnig í Hafnarfirði og hennar hafði og orðið vart á Akranesi, að sögn héraðslæknis þar. „Í gær átti jeg tal við hjeraðslækni í Grímsneshjeraði, sem er hjer staddur. Kannaðist hann við veikina, kvað hana hafa komið nýlega á 3 bæi í Hrunamannahreppi og hefðu 5 lagst á einum bænum.

Jeg hefi látið fregn um þessa farsótt berast í aðra landsfjórðunga. Hvorki mjer nje öðrum læknum hefir komið til hugar, að sóttvarnir geti komið að haldi. Að öðru leyti er gott heilsufar á Suðurlandi. Engar aðrar farsóttir í Rvík. Taugaveikin í Keflavík stöðvuð,“ sagði umsjónarmaður.

Næst bárust böndin að Vesturlandi. Þaðan var eftirfarandi að frétta: „Aðstoðarlæknirinn í Stykkishólimi hefir legið í taugaveiki, en er nú í góðum afturbata. Annars mannheilt í því hjeraði.“

Héraðslæknir á Ísafirði hafði svo símað deginum áður: „Eitt taugaveikistilfelli, rúmlega vikugamalt á taugaveikisheimili, líklega „reeidio“ eftir „ambulant typhús“ snemma í faraldrinum.“ Annars engin taugaveiki þar síðan í maí. „Hefi frjett af taugaveiki á Borg í Skötufirði (Nauteyrarhjeraði). – Kvefsótt gengur vestra, sama og hjer í vor.“

Kvefsótt hafði gengið í Skagafirði og víðar, að sögn héraðslæknis þar, sem staddur var í Reykjavík.

Héraðslæknir á Akureyri símaði: „Gott heilsufar.“ Sama sagði héraðslæknir á Dalvík, sem einnig var í bænum.

Dálítið var um inflúensu á Austfjörðum. Rauðir hundar á Vopnafirði og Borgarfirði. Hægfara mislingar á Héraði og í Seyðisfirði utan kaupstaðarins. Nokkur tilfelli af hálsbólgu í Norðfirði. Eitt tilfelli af lungnabólgu í Vopnafirði.

Fleira var það ekki.

Síðan kom þessi orðsending og þá var G.H. skyndilega tekinn við stílvopninu af G.B.: „Heilbrigðistíðindin hafa nú hvílt sig í nokkrar vikur vegna þrengsla í Mbl. Þau ættu úr þessu að geta komið út reglulega eins og til var ætlast. Efnið er óþrjótandi og þó margt gleymist af því, sem skrifað er í blöðin, þá loðir þá ætíð eitthvað eftir og kemur að gagni. Það er að minsta kosti mín reynsla.“

Tönnur jetast upp

Því næst sneri G.H. sér að langtímaheilsufari landans og lét þess getið að einn versti faraldur þess tíma væru tannskemmdirnar. „Það má heita, að allir fullorðnir menn hafi nú skemdar tönnur og stundum byrja tannirnar [áhugavert orðalag, tönnur og tannirnar, innsk. blm. 2024] að jetast og brenna skömmu eftir að börnin hafa tekið þær. Svo er verið að gera við þær á hverju ári og hlaða í skörðin með miklum kostnaði og fyrirhöfn, en alt kemur fyrir lítið. Þegar minst vonum varir verður að draga brotin út og setja gjörfitönnur í þeirra stað. Þannig gengur þetta hjá þeim, sem reyna að hirða tönnurnar og ná í tannlækni. Hinir láta tönnurnar ganga sjer til húðar og draga þær út sem óþolandi er að ganga með.“

En var ekkert til ráða?

Í raun ekki, að sögn umsjónarmanns Heilbrigðistíðinda. „Því miður getur enginn svarað þessari spurningu til hlítar og hafa þó margir reynt að ráða þessa gátu. Hitt er víst, að það hlýtur að vera mögulegt að komast hjá því að tönnur skemmist að verulegum mun, því nægar sannanir eru fyrir því, að tannskemdir voru fátíðar fyr á öldum og þá þektu menn þó enga tannbursta eða munnþrifnað, sem nú er talin helsta vörnin. Jeg hefi áður getið um það í Heilbrt., að í gömlum hauskúpum, sem jeg skoðaði í Ósló, var hver tönn heil að heita mátti, jannvel í gömlum mönnum með mjög slitnum tönnum. Vjer sjáum líka, að tannskemdir eru mjög fátíðar á heilbrigðum dýrum, þó ekki hreinsi þau tönnur sínar. Svo myndi og vera um mennina, ef þeir lifðu skynsamlega. Það er bersýnilegt, að eitthvað hefir breyst til hins verra í lifnaðarháttum vorrar aldar og af því stafa flestar tannskemdirnar. Aftur er mikil deila, og óútkljáð, um hvað helst það sje. Líklega eru orsakirnar margar.“

Nefndi fimm atriði

Umsjónarmaður nefndi í því sambandi fimm atriði. Í fyrsta lagi að menn tyggðu nú miklu minna en áður fyrr „en öllum líffærum, sem ekki eru notuð, hættir til rýrnunar og óþrifa“.

Í öðru lagi sykur. Hann þekktist ekki fyrrum, nema þá hunang. „Nú er hann hversdagsfæða og uppáhaldsmatur barna. Að mörgu leyti er hann ágætis fæða en ekki er það ósennilegt, að hann eigi nokkurn þátt í tannskemdunum.“

Í þriðja lagi brauð og mjölmatur sem var notað margfalt meira á þessum tíma en fyrr, „og öllum kemur saman um, að mjölmatur hafi ill áhrif á tönnur“.

Í fjórða lagi var talað um bætiefnaskort. „Ekki er þetta sannað mál, en væri svo, mætti bæta úr því með mjólk, eggjum, nýju smjöri og þó einkum þorskalýsi.“

Loks nefndi umsjónarmaður heita drykki sem sumir vildu kenna um tannpínuna, að þeir sprengdu glerunginn á tönnunum eða skemmdu þær á annan hátt.

Loks sagði G.H.: „Jeg hefi þá getið um helstu tilgáturnar, en hvaða ályktanir getum við dregið af þeim! Það verður að bíða næsta blaðs.“

Sumsé skortur á dálksentimetrum að stríða blaðamanni. Gömul saga og ný.