Sjálfstæð Kolbrún semur lögin sín sjálf og framleiðir.
Sjálfstæð Kolbrún semur lögin sín sjálf og framleiðir. — Ljósmynd/Álfgrímur Aðalsteinsson
„Í textanum tala ég mjög mikið um að mála og hvernig maður sér heiminn í gegnum ramma og glugga. Það eru rammar á gluggum líka og mér fannst það einhvern veginn „meika sens“. Svo er þetta líka orð sem er eins áfram og aftur á…

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

„Í textanum tala ég mjög mikið um að mála og hvernig maður sér heiminn í gegnum ramma og glugga. Það eru rammar á gluggum líka og mér fannst það einhvern veginn „meika sens“. Svo er þetta líka orð sem er eins áfram og aftur á bak,“ segir tónlistarkonan Kolbrún Óskarsdóttir, sem gengur undir listamannsnafninu KUSK, um titillag nýútkominnar breiðskífu sinnar, RAMMAR. Er það önnur breiðskífa hennar en sú fyrsta, SKVALDUR, kom út fyrir tveimur árum, nokkrum mánuðum eftir að hún fór með sigur í Músíktilraunum. „Platan sjálf gengur svolítið í hringi, sem er skemmtilegt,“ segir Kolbrún um RAMMA.

Hún líkir plötunni við rússíbana þar sem byrjun og endir mætist. „Platan hefst með mikilli meiningu og endar þannig líka,“ útskýrir Kolbrún. „Fyrsta lagið, „Heim“, er svolítið kveikjan að plötunni og þá ekki hvernig hún er heldur því að gera plötu. Ég var búin að vera að semja mörg lög en það gekk ekki mjög vel. Svo hlustaði ég á plötuna Decide sem Joe Keery gerði og fyrsta lagið á henni heitir „Runners“. Mér fannst það svo geggjað að mig langaði að skrifa eins konar ástarbréf í formi lags til þessa lags og þá varð „Heim“ til. Út frá því langaði mig að búa til heila plötu úr gömlu og nýju efni,“ úskýrir Kolbrún.

Of mikið að gera

Kolbrún gerði sína fyrstu plötu, fyrrnefnda SKVALDUR, í október árið 2022 og segir að þá hafi sig langað til að hefjast strax handa við þá næstu. „Á sama tíma var ég að byrja í sviðshöfundanámi við Listaháskóla Íslands þannig að þetta fór svolítið út í að ég væri að reyna að gera tvennt í einu, vera í fullu námi og líka að búa til aðra plötu. Það var orðið dálítið mikið þannig að frá áramótum tók ég mér pásu í LHÍ til að geta verið meira í tónlist og klára þessa plötu.“

– Þetta er lúxusvandamál, að hafa svo mikið að gera að velja þurfi á milli?

„Já, algjörlega,“ svarar Kolbrún kímin, „og algjör lúxus að geta tekið pásu í skólanum og fengið að koma aftur. Núna er ég bara að vinna til að halda mér uppi, geta gert tónlist og hafa gaman af því í leiðinni.“

Kolbrún starfar í Hinu húsinu þar sem hún sinnir ýmsum verkefnum. Hún segir vinnustaðinn skemmtilegan líkt og samstarfsfólkið. „Ég vinn m.a. með Hrannari Mána Ólafssyni sem er Óviti og besti vinur minn og samstarfsaðili í tónlist. Það er gaman að vera að vinna á sama stað líka,“ segir Kolbrún en til skýringar er Óviti listamannsnafn Hrannars sem er tónlistarmaður.

Syngur með systur sinni

En aftur að plötunni RAMMAR. Kolbrún er spurð út í yrkisefni sín, textana, um hvað þeir fjalli og svarar hún því til að það sé í raun það sem sé að gerast í kringum hana hverju sinni. „Ég sem mjög mikið út frá umhverfinu og pikka upp litla hluti sem ég sé á leið minni,“ segir Kolbrún. Hún nefnir einnig fólkið sem henni þyki vænt um, það sé henni innblástur. „Næstsíðasta lagið syng ég með litlu systur minni, Hildi Óskarsdóttur. Það mætti segja að sá texti fjalli um systraást,“ segir Kolbrún en systir hennar er henni sex árum yngri. Kolbrún er tvítug, verður 21 árs í ágúst.

Hún er beðin um að lýsa tónlistinni fyrir þeim sem hafa ekki hlustað á plötuna. Angurvær, kannski? „Það er svolítið erfitt,“ segir hún kímin, „en ég myndi segja að hún væri mjög angurvær, já, og drífi sig svolítið sjálf. Ég sest bara niður og byrja á einum hlut og svo hleðst restin af laginu ofan á þann byrjunarpunkt. Skemmtilegustu lögin eru eiginlega alltaf lögin sem ég ætlaði ekki að semja.“

Músíktilraunir voru stökkpallur

Kolbrún framleiðir lögin sín sjálf, er sjálflærð í „pródúseringu“ eins og hún orðar það, og segist finna sig vel í því hlutverki. Hún segist hafa gaman af því að prófa sig áfram og nota ólík hljóðfæri og þá bæði í tölvunni og þau sem eru til taks í hljóðveri. „En svo er gott að vera með fólk í kringum sig sem er til í að koma og spila gítarinn betur en ég, ég er ekkert voðalega góð á gítar,“ segir Kolbrún sposk.

Hún er spurð að því hvaða áhrif hún telji sigurinn í Músíktilraunum hafa haft á hana og tónlistarferilinn. „Ég held að það hafi verið góður stökkpallur fyrir mig til að byrja að spila á tónleikum sem mér finnst rosalega gaman að gera. Þá fékk ég þessa umfjöllun og tækifæri til að spila á Aldrei fór ég suður,“ segir Kolbrún. Á þeirri hátíð hafi hún hitt nær öll sín átrúnaðargoð, kynnst þar að auki mörgum og myndað nýjar tengingar. „Ég held að þetta hafi hjálpað mér mest þegar kemur að því að koma fram og finna út hver ég vil vera á sviði og hvaða orku ég vil gefa frá mér.“

Útgáfutónleikar KUSK vegna nýju plötunnar verða á Kex hosteli 29. júní.