Spurt og svarað Dagur B. Eggertsson formaður borgarráðs er gestur Spursmála að þessu sinni.
Spurt og svarað Dagur B. Eggertsson formaður borgarráðs er gestur Spursmála að þessu sinni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nauðsynlegt reyndist fyrir Reykjavíkurborg að ganga til samninga við olíufélögin um brotthvarf bensínstöðva fyrirtækjanna, til þess að greiða mætti fyrir hraðari uppbyggingu íbúðarhúsnæðis og eftir atvikum annars konar atvinnustarfsemi

Spursmál

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

Nauðsynlegt reyndist fyrir Reykjavíkurborg að ganga til samninga við olíufélögin um brotthvarf bensínstöðva fyrirtækjanna, til þess að greiða mætti fyrir hraðari uppbyggingu íbúðarhúsnæðis og eftir atvikum annars konar atvinnustarfsemi. Þetta segir Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs og fyrrverandi borgarstjóri, í viðtali í Spursmálum. Fullyrðir hann að þetta hafi verið nauðsynlegt, jafnvel í þeim tilvikum þar sem olíufélögin voru með útrunna lóðaleigusamninga. Dómaframkvæmd hefur sýnt að í slíkum tilvikum geta sveitarfélög krafist þess af olíufélögum að þau taki hatt sinn og staf og fjarlægi eigur sínar af lóðunum án þess að fyrir það komi nokkrar bætur.

Segir Dagur að með slíkri afgreiðslu sé í raun verið að hleypa upp öllum atvinnurekstri í landinu þar sem lóðaleigusamningar renna sitt skeið á enda. Slíkt sé ekki boðlegt. Skarst nokkuð í brýnu í þættinum þegar þetta mál bar á góma.

Ljóst er að olíufélögin hafa bókfært byggingarrétti á þessum lóðum svo nemur milljörðum króna. Hefur Dagur legið undir gagnrýni fyrir þetta, m.a. í Kveiksþætti sem yfirmenn Ríkisútvarpsins reyndu að koma í veg fyrir birtingu á fyrir skemmstu. Lukkaðist það ekki fullkomlega og fór þátturinn í loftið undir merkjum Kastljóss.

Framseldu verðmæti til RÚV

Í þættinum er Dagur auk þess spurður út í lóðaskipulag í tengslum við RÚV í Efstaleiti. Árið 2015 réðst borgin í breytingar á skipulagi á lóð við hlið Útvarpshússins en það gerði ríkisstofnuninni kleift í kjölfarið að selja byggingarrétti þar fyrir 1,5 milljarða króna.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um málið, sem birt var Alþingi árið 2019, segir meðal annars um þá ráðstöfun borgarinnar:

„Þegar litið er til framangreinds er athyglisvert að árið 2015 hafi Reykjavíkurborg gengið til áðurnefnds samnings við RÚV ohf. um lóðarréttindi og byggingarétt á lóðinni við Efstaleiti án þess að gera kröfu um þátttöku í stofnkostnaði innviða og því að gera lóðina byggingarhæfa. Einnig vekur athygli hversu lítill hluti afraksturs þessa samnings kom í hlut borgarinnar.“

Er trúnaðarmaður Alþingis nokkuð afgerandi í þeim ályktunum sem hann dregur af málinu sem þarna ræðir um, þ.e. að „bæði ríki og borg framseldu umtalsverð verðmæti til ógjaldfærs opinbers hlutafélags til að hægt yrði að lækka skuldir þess“.

Dagur segir að Ríkisendurskoðun fari vill vega.

„Því 20 árum fyrr leysti borgin til sín nyrsta hluta útvarpslóðarinnar þar sem nú er lögfræðistofa, heilsugæsla og svo framvegis. Þá var gerður samningur um að RÚV afsalaði sér þessum gæðum með ákvæðum um að borgin gæti ekki gert neitt frekara tilkall til lóðar RÚV. Að því leyti var upphafsstaðan í þessum samningum ólík öllum öðrum af því að þessi samningur var til,“ segir Dagur.

Mikilvæg uppbygging

Var Dagur einnig spurður út í samninga sem hann gerði við félagið GN Studios ehf. um sölu á Áburðarverksmiðjunni og byggingarlandi í Gufunesi árið 2016. Segir Dagur að það hafi verið gert að undangengnu samráði og mati á fleiri kostum um þróun svæðisins. Niðurstaðan hafi verið að byggja upp kvikmyndaaðstöðu á heimsmælikvarða sem sé líkleg til þess að auka umsvif í hagkerfinu og þar með skila miklu til baka í þjóðarbúið.

Segir hann að þverpólitísk samstaða hafi verið um að byggja upp þorp skapandi greina. Þannig var fyrst samið við GN Studios um að ráðast í uppbygginguna, í kjölfarið var samið um verð. Viðurkennir Dagur að þar með hafi ekki verið kannað hvort aðrir aðilar hefðu áhuga á að koma að uppbyggingu á svæðinu miðað við það verð sem sátt náðist um. Það verð var 10% lægra en samkvæmt mati fasteignasala sem fenginn var að borðinu. Sá hafði lagt fram lægra verðmat en annar fasteignasali sem kom einnig að málinu. Kaupverðið reyndist 27% undir mati hans.

Gengisvarnir keyptar

Nýverið var tilkynnt að Reykjavíkurborg hefði slegið lán hjá Þróunarbanka Evrópuráðsins að fjárhæð 100 milljónir evra, jafnvirði 15 milljarða íslenskra króna. Í kjölfarið lét endurskoðunarnefnd borgarinnar bóka athugasemd þar sem spurningum var varpað fram um af hverju ekki var leitað á innlendan lánamarkað og eins hvort borgin hefði gert ráðstafanir til þess að verja sig gagnvart mögulegum gengissveiflum sem gætu haft neikvæð áhrif. Eins og kunnugt er eru tekjur Reykjavíkurborgar ekki í evrum.

Dagur segir í samtalinu í Spursmálum að til skoðunar sé hvaða gengisvarnir verði keyptar, þær séu þó aldrei hugsaðar til þess að verja allt lánið, heldur að hluta. Þá segir hann að borgin hafi fyrst og síðast átt erfitt með að fjármagna sig á íslenskum skuldabréfamarkaði vegna mikilla umsvifa og lánsfjárþarfar ríkissjóðs, sem sé aðalleikandinn á þeim markaði.