Reynsluboltar Toni Kroos og Thomas Müller kampakátir eftir sigurinn.
Reynsluboltar Toni Kroos og Thomas Müller kampakátir eftir sigurinn. — AFP/Miguel Medina
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þjóðverjar fóru á kostum í upphafsleik Evrópumótsins í fótbolta þarlendis gegn Skotlandi í München í gærkvöldi. Þýskaland vann leikinn, 5:1, og hefur mótið með látum. Þýska liðið setti tóninn snemma leiks en Florian Wirtz skoraði fyrsta mark leiksins og mótsins á 10

EM 2024

Jökull Þorkelsson

jokull@mbl.is

Þjóðverjar fóru á kostum í upphafsleik Evrópumótsins í fótbolta þarlendis gegn Skotlandi í München í gærkvöldi. Þýskaland vann leikinn, 5:1, og hefur mótið með látum.

Þýska liðið setti tóninn snemma leiks en Florian Wirtz skoraði fyrsta mark leiksins og mótsins á 10. mínútu. Jamal Musiala kom Þýskalandi í 2:0 níu mínútum síðar og undir lok fyrri hálfleiksins fékk Þýskaland vítaspyrnu. Þá fór Ryan Porteous í glórulausa tæklingu á Illkay Gündogan og fékk rautt spjald eftir athugun dómarans Cléments Turpins í VAR-sjánni. Kai Havertz skoraði úr vítaspyrnunni og Niklas Füllkrug bætti við fjórða marki Þýskalands á 68. mínútu. Skotland minnkaði muninn, 4:1, með sjálfsmarki frá Antonio Rüdiger. Emre Can bætti við fimmta marki Þýskalands í blálok leiks.

Svara fyrir síðustu mót

Þjóðverjar fara frábærlega af stað en hin lið A-riðilsins eru Sviss og Ungverjaland og þau mætast klukkan 13 í dag. Þýskaland vonast til að svara fyrir vonbrigði síðustu móta en á síðustu þremur stórmótum hafa Þjóðverjar komist lengst í 16-liða úrslit og tvisvar dottið út úr riðlakeppninni. Þýska liðið var magnað í dag og mætir Ungverjum í næsta leik.

Skoska liðið var aftur á móti arfaslakt og alls ekki tilbúið í þennan stóra leik. Lykilmenn eins og Andrew Robertson, Scott McTominay og John McGinn voru ekki sjón að sjá og munu Skotar þurfa að laga mikið í sínum leik vilji þeir eiga möguleika á að komast upp úr riðlinum.

Veislan nýhafin

Evrópumótið fer eftirminnilega af stað og leikurinn í gær var aðeins byrjunin. Í dag fara fram þrír leikir en ásamt leik Sviss og Ungverjalands klukkan 13 mætast stórliðin Spánn og Króatía klukkan 16. Ítalía og Albanía mætast svo klukkan 19.

Sunnudagurinn er ekki mikið síðri en þá hefst keppni í C- og D-riðli. Pólland og Holland mætast klukkan 13, Slóvenía og Danmörk klukkan 16 og England og Serbía klukkan 19.

Þjóðverjar hafa sett tóninn á mótinu og munu aðrar þjóðir vilja fylgja á eftir á næstu dögum.

Þýskal. – Skotl. 5:1

1:0 Florian Wirtz 10.

2:0 Jamal Musiala 19.

3:0 Kai Havertz 45.

4:0 Niklas Füllkrug 68.

4:1 Sjálfsmark 87.

5:1 Emre Can 90+3.

Rautt spjald: Ryan Porteous (Skotlandi) 44.

Áhorfendur: 75.024.