Umbótaflokkurinn skákar Íhaldsflokki

Fátt virðist geta komið í veg fyrir sögulega niðurlægingu Íhaldsflokksins í bresku þingkosningnunum. Í gær sigldi hinn nýi Umbótaflokkur (e. Reform), sem orðhákurinn Nigel Farage leiðir, fram úr íhaldsmönnum í skoðanakönnun YouGov. Sæki hann frekar í sig veðrið gæti það nánast gert út af við Íhaldsflokkinn.

Það myndi gerbreyta stjórnmálalandslaginu í Bretlandi og hafa áhrif í ýmsum öðrum Evrópuríkjum. Voru þau þó velflest umlukt pópúlísku umróti í pólitíkinni fyrir.

Rishi Sunak forsætisráðherra Breta hefur reynst ótrúlega lánlaus í kosningabaráttunni, en þrátt fyrir að Sir Keir Starmer leiðtogi Verkamannaflokksins hafi ekki alveg persónutöfrana til að hrífa þjóðina með sér virðast kjósendur svo fullsaddir af Íhaldsflokknum eftir 14 ára valdatíð að Verkamannaflokknum sýnist sigurinn vís.

Þar gildir einu að Sir Keir hefur ekki heldur átt góða kosningabaráttu til þessa og stefnumál flokks hans höfða ekkert sérstaklega til kjósenda; þeir vilja einfaldlega breytingar.

Segja má að Umbótaflokkurinn hafi verið stofnaður til höfuðs Íhaldsflokknum, en stofnendur og stuðningsmenn eru margir fyrrverandi íhaldsmenn, sem blöskrar eilíf miðjusókn Íhaldsflokksins, reiðarek í ríkisfjármálum, klúður við Brexit og uppgjöf í innflytjendamálum.

Í upphafi virtist Umbótaflokkurinn ekki eiga mikla möguleika á þingsætum, en hann þurfti víða ekki mikið fylgi til þess að ónýta sigurmöguleika Íhaldsflokksins og í því fólst ógnin. Í Bretlandi eru einmenningskjördæmi þar sem efsti maður hreppir þingsætið en önnur atkvæði falla dauð.

Sé Umbótaflokkurinn kominn fram úr Íhaldsflokknum (rétt er að bíða fleiri kannana) getur staðan breyst ört, jafnvel svo að Íhaldsflokkurinn gjaldi afhroð og Umbótaflokkurinn leiði stjórnarandstöðuna gegn meirihluta Verkamannaflokksins.

Í kosningum er samt ekkert gefið. Óvíst er að Umbótaflokkurinn ógni aðeins stöðu Íhaldsflokksins, hann gæti líka gert Verkamannaflokknum skráveifu.

Verkamannaflokkurinn hefur ekki höfðað ákaflega sterkt til kjósenda, heldur má að miklu leyti rekja fylgi hans til bylgju andúðar á ráðleysi ríkisstjórnar íhaldsmanna. Sú bylgja á sér undiröldu vantrúar, jafnvel óbeitar, á stjórnmálalífinu öllu.

Nýi flokkurinn ætti frekar að njóta slíkrar óbeitar kjósenda en þeir gömlu. Rétt eins og á meginlandi Evrópu er það vatn á myllu pópúlískra afla og vill einhver veðja á að hinn flugmælski grallaraspói Nigel Farage notfæri sér það ekki út í ystu æsar?

Öfugt við þá Rishi Sunak og Sir Keir Starmer þarf Farage ekki að vera orðvar og ábyrgur; kjósendur nánast ætlast til annars af honum, þó ekki væri nema vegna skemmtanagildisins! Hann hefur heldur ekki valdið þeim vonbrigðum að því leyti til þessa.

Forskot Verkamannaflokksins í skoðanakönnunum hefur verið afgerandi um langt skeið. Vegna kjördæmafyrir­komulagsins hefur honum verið spáð 460 sætum af 650 í breska þinginu, en Íhaldsflokknum aðeins 80. Sá áætlaði þingstyrkur byggist þó aðeins á 37% fylgi Verkamannaflokksins á landsvísu, en samkvæmt síðustu könnun eru íhaldsmenn langt á eftir með 18% og Umbótaflokkurinn með 19%. Samanlagt eru hinir tveir síðarnefndu flokkar því líka með 37% en í því ljósi slær talsvert á glansinn á Sir Keir.

Það gæti skipt sköpum ef Íhaldsflokkurinn og Umbótaflokkurinn mynda kosningabandalag, líkt og þegar er rætt, þannig að aðeins sigurstranglegri frambjóðandi þeirra bjóði sig fram í hverju kjördæmi. Það dugar ósennilega til sigurs, en það gæti svipt Verkamannaflokkinn hreinum meirihluta á þingi.

Spennandi vikur eru því fram undan í stjórnmálum Bretlands (og ekki minna spennandi í Frakklandi). Eftir sitja hins vegar stærri spurningar um hina stóru mynd stjórnmálaþróunar í Evrópu í heild. Þar virðast kjósendur í hrönnum hafa misst þolinmæðina gagnvart gömlu kerfisflokkunum og vanmætti þeirra gagnvart aðsteðjandi vanda, sem þeir áttu sinn þátt í að skapa.