Félagar Rússlandsforseti og leiðtogi Norður-Kóreu virðast leggja áherslu á að styrkja samband sitt enn frekar.
Félagar Rússlandsforseti og leiðtogi Norður-Kóreu virðast leggja áherslu á að styrkja samband sitt enn frekar. — AFP/Mikhail Metzel
Kristján H. Johannessen khj@mbl.is

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Vladimír Pútín Rússlandsforseti segist reiðubúinn til að hefja friðarviðræður við stjórnvöld í Kænugarði „strax á morgun“. En til að svo megi verða þurfa hersveitir Úkraínu að hörfa frá héruðunum Sapórísja, Kherson, Dónetsk og Lúhansk. Að auki verða Úkraínumenn að kasta frá sér langþráðum draumi sínum um aðild að Atlantshafsbandalaginu (NATO).

„Þetta er ekki flókið,“ segir Pútín Rússlandsforseti. „Geri þeir þetta þá munum við láta af öllum bardögum samstundis. Og auðvitað munum við einnig tryggja að Úkraínuher geti hörfað með öruggum hætti.“

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti hefur áður sagt Kænugarð ekki munu ræða frið við Kremlverja fyrr en innrásarliðið yfirgefur hertekin landsvæði í Úkraínu. Ekki sé hægt að ræða neinn frið fyrr en þá.

Undir þetta tekur Podolyak, ráðunautur Selenskís forseta. Segir hann friðartillögu Pútíns ekkert annað en „blekkingu“. Rússlandsforseti hafi í raun engan áhuga á friði og ummæli hans nú séu einungis til þess fallin að kasta ryki í augu fólks. Friður sé ekki uppi á borðum Kremlarvaldsins.

Stór vopnasending

„Þetta er ekkert annað en blekking. Þar af leiðandi – enn og aftur – engin raunveruleg alvara á bak við tillögu um friðarviðræður og enginn vilji til að ljúka stríðinu,“ segir hann.

Varnarmálaráðuneyti Suður-Kóreu segist hafa heimildir fyrir því að Rússar hafi nýlega fengið í hendur sendingu af gámum frá nágrönnum þeirra í norðri. Er því haldið fram að inni í þessum gámum megi finna skotfæri, nánar tiltekið sprengikúlur fyrir stórskotalið. Sé þetta rétt þá má gera ráð fyrir því að inni í gámunum megi finna allt að fimm milljónir sprengikúlna og verða þær að líkindum sendar innrásarsveitum Rússlands í Úkraínu. Sem greiðslu fyrir skotfærin eru Rússar sagðir hafa sent stjórnvöldum í Pjongjang tækniupplýsingar til að þróa vopn gegn njósnahnöttum á sporbraut um jörðu. Eins er líklegt að upplýsingar Rússa hjálpi Norður-Kóreu að hanna og framleiða hefðbundnari vopnakerfi.

„Það má gera ráð fyrir því að Pútín reyni að vinna enn nánar með Norður-Kóreu á sviði öryggismála, einkum þegar kemur að vopnasendingum á borð við stórskotaliðsskotfæri, sem er nauðsynlegur liður í að tryggja sigur,“ segir varnarmálaráðherra Suður-Kóreu í samtali við Bloomberg.

Þá hefur Vladimír Pútín Rússlandsforseti boðað komu sína til Pjongjang á komandi dögum. Þar mun hann hitta leiðtoga landsins, Kim Jong-un. Ekki er nákvæmlega vitað hvert fundarefnið verður en afar líklegt er talið að leiðtogarnir muni ræða stöðuna á vígvellinum í Úkraínu og hvaða vopn og vopnakerfi Norður-Kórea geti sent Rússum sem hernaðaraðstoð.

Með Rússa í lofthelginni

Varnarmálaráðuneyti Finnlands segir rússneskar herflugvélar hafa brotið lofthelgi landsins í þessum mánuði. Athugun á gögnum hefur leitt í ljós að um var að ræða tvær langdrægar sprengjuvélar og tvær orrustuþotur. Atvikið er sagt „viljandi og alvarlegt“ en svipuð brot hafa átt sér stað yfir öðrum ríkjum Evrópu.