Eldheimar eru reistir yfir rústir einbýlishúss sem hvarf undir ösku og gjall í ársbyrjun 1973.
Eldheimar eru reistir yfir rústir einbýlishúss sem hvarf undir ösku og gjall í ársbyrjun 1973. — Morgunblaðið/Brynjólfur Löve
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þegar Kristín Jóhannsdóttir söðlaði um, tók sig upp frá Þýskalandi þar sem hún hafði búið um tveggja áratuga skeið, urðu Vestmannaeyjar fyrir valinu. Valið var ekki augljóst þótt Kristín hafi alist upp í Eyjum

Þegar Kristín Jóhannsdóttir söðlaði um, tók sig upp frá Þýskalandi þar sem hún hafði búið um tveggja áratuga skeið, urðu Vestmannaeyjar fyrir valinu. Valið var ekki augljóst þótt Kristín hafi alist upp í Eyjum. Hún réð sig hins vegar til þess að sinna markaðsmálum fyrir bæjarfélagið. Fljótlega kom í ljós að lítið var um fjármagn til þess verks. Fljótlega kynntist hún þó hugmynd sem skopmyndateiknarinn og uppfinningamaðurinn Sigmund Jóhannsson hafði mótað af sínu þekkta listfengi.

„Hér á þessu svæði eru undir öskunni eitthvað um átta hús og hann var búinn að rissa upp eins og honum var einum lagið þessa líka fínu teikningu þar sem búið var að hálfgrafa hús úr öskunni og ferðamenn eru þarna að rölta um. Þetta var hann búinn að sjá fyrir sér að yrði Pompei norðursins,“ útskýrir Kristín. Þetta var árið 2004.

Bendir Kristín á að þessar hugmyndir hafi ekki verið fullmótaðar en tekin hafi verið ákvörðun um að leita styrks hjá Ferðamálaráði. Gekk það ferli eins og í sögu og hlaut Vestmannaeyjabær hæsta mögulega styrk, þ.e. fimm milljónir króna.

Komust strax á kortið

„Það sem var svo skemmtilegt var að við vorum ekki búin að grafa frá meira en einum húsgafli þegar það var allt orðið fult hérna af fréttamönnum og áður en ég vissi af var þetta komið í fréttir hér og þar um heiminn. Við vorum á forsíðu Moggans daginn eftir að við byrjuðum.“

Hlakkar nokkuð í Kristínu þegar hún rifjar þessa daga upp og minnir á að þarna hafi komið í ljós að það hafi í raun ekki þurft neitt markaðsfé til þess að koma Vestmannaeyjum á kortið, bæði hér á landi og erlendis. Hún bendir þó á að það hafi ekki allir haft jákvætt viðhorf til þessa framtaks.

„Sitt sýndist hverjum um þetta brölt. Það voru margir hér sem sgöðu einfaldlega: við erum búin að fá nóg af þessu gosi. Við þurfum ekkert meira af því. Það tók fólk dálítinn tíma að venjast því að það væri eitthvað merkilegt við þetta gos.“

Og hugurinn hvarflar aftur. Kristín var barn í Eyjum þegar ósköpin dundu yfir þann 23. janúar 1973. Þá hófst gos við rætur Helgafells og rýma þurfti bæinn í skyndi. Hún fór í land ásamt fjölskyldu sinni og dvaldi þar í nokkra mánuði. Var reynsla Kristínar misjöfn af þeirri vist og rifjar meðal annars upp að gaman hafi verið hent að henni og öðrum börnum þar sem þeim var t.d. boðið gos og hraun.

Viðhorfið breyttist til gossins

Segir hún að lengi vel hafi hún hafi hálfskammast sín fyrir það að vera úr Eyjum. Sú tilfinning hafi hins vegar breyst eftir að hún flutti sem ung kona til Þýskalands. Þá áttaði hún sig fljótt á því að nýjum samlöndum hennar fannst merkilegt að hún hafi alist upp á þessum merka stað og upplifað atburðina sem heimurinn fylgdist agndofa með á sínum tíma.

Verkefnið í tengslum við rústirnar sem komu undan öskunni vatt hins vegar upp á sig og þegar upp var staðið ákvað Vestmannaeyjabær að byggja myndarlega yfir eitt þeirra húsa sem komu undan nærri tuttugu metra háu gjóskulagi. Var gengið hreint til verks eins og Eyjamanna er von og vísa og í maí 2014 var safnið opnað með pomp og prakt.

Bendir Kristín á að einvalalið hafi verið fengið að þessu verkefni. Mikil áhersla var lögð á að hugsa hlutina til enda áður en hafist var handa. Meðal fyrirtækja sem komu að verkinu var fyrirtækið Gagarín sem sérhæft hefur sig í uppbyggingu gagnvirkra sýninga.

Kristín segir safnið komið í endanlega mynd. Hins vegar séu alltaf tækifæri til uppbyggingar.

„Það er allt til umræðu og allt er þetta fjármagni háð. Auðvitað á maður draum um að gera einhvern tíma eitthvað meira,“ segir hún. Og raunar er safnið í sífelldri endurskoðun, einnig sá hluti þess sem helgaður er Surtsey. Þá hafa listamenn komið að því að efla starfsemina og um þessar mundir er stórt og mikið logaverk eftir Huldu Hákon á svæðinu og einnig áhrifamikið verk eftir listakonuna Gíslínu Dögg sem nefnist „Kaffiboðið sem aldrei var haldið“. Það sýnir stofuborð, dekkað upp með glæsilegu postulíni og nýbökuðum kleinum. Það er hins vegar stráð ösku og sýnir uppvartað kaffiboð, sem halda átti 24. janúar 1973.

Met slegið um liðna helgi

Þegar Kristín er spurð út í aðsóknina segir hún að þar hafi vel tekist til. Um 30 þúsund manns sæki safnið heim á ári hverju en það komi í bylgjum. MIklu skipti að halda uppi ferðum í Landeyjahöfn en þá skipti komur skemmtiferðaskipa einnig máli. Síðastliðinn sunnudagur hafi reyndar verið stærsti opnunardagurinn frá upphafi. Þá hafi 1.500 manns farið í gegn á einum degi.

Hún bætir við að Íslendingar á öllum aldri séu einnig duglegir að heimsækja safnið, óháð því hvort þeir hafi tengingar við Vestmannaeyjar. Mikill áhugi sé fyrir því að fá innsýn inn í þær aðstæður sem sköpuðust meðan á gosinu stóð.

Blaðamenn geta vitnað um að gestahópurinn er blandaður. Pæjumót stóð reyndar yfir í bænum á sama tíma og viðtalið var tekið og óvenju margir Íslendingar á svæðinu. Það er hins vegar aðeins til marks um að þjóðin er áhugasöm um hina miklu atburði sem safnið er helgað. Ekki hefur sá áhugi minnkað við þær gríðarlegu hamfarir sem riðið hafa yfir á Reykjanesi á undanförnum misserum.

Ítarlegri útgáfu af þessu viðtali má nálgast á mbl.is og Spotify eða með því að skanna merkið hér fyrir neðan.