Bergþór Ólason
Bergþór Ólason
Það styttist í þinglok, sem betur fer segja flestir, þó að sjálfur vildi ég gjarnan að teygðist aðeins úr. Ég sagði 18. apríl, þegar greidd voru atkvæði um vantraust á ríkisstjórnina, að það væri eini dagurinn sem stjórnarflokkarnir hefðu treyst…

Það styttist í þinglok, sem betur fer segja flestir, þó að sjálfur vildi ég gjarnan að teygðist aðeins úr.

Ég sagði 18. apríl, þegar greidd voru atkvæði um vantraust á ríkisstjórnina, að það væri eini dagurinn sem stjórnarflokkarnir hefðu treyst hver öðrum síðan þessi ólánsstjórn var skrúfuð saman þriðja sinni. Það blasir við að dagarnir hafa ekki orðið fleiri síðan þá.

Þinglokasamningar stjórnarflokkanna hafa gengið svo hægt að furðu sætir, í gamla daga hefði málum sem eru í jafn miklu ósætti og nú er aldrei verið hleypt í gegnum ríkisstjórn eða þingflokka stjórnarflokka. Verkstýringin virðist vera í molum, en það er huggun harmi gegn að það er ekki endilega slæmt að fleiri en færri stjórnarmál dagi uppi þegar við skoðum hversu fá þeirra eru raunverulega til gagns fyrir land og þjóð.

Grunnsamningar stjórnarflokkanna birtast okkur sem þrjú mál. Sjálfstæðisflokkurinn fær lagfærð útlendingalög, Framsóknarflokkurinn fær aukin listamannalaun í miðju verðbólgubáli og vinstri-grænir fá enn eina Mannréttindastofnunina.

Útlendingafrumvarpið var loksins samþykkt í gær, en því flaggað um leið að nauðsynlegt sé að leggja fram frekari frumvörp í haust, þar sem ekki sé nægjanlega langt gengið. Það er rétt mat hjá dómsmálaráðherra, en það vekur auðvitað furðu í ljósi þess að breytingartillögur sem Miðflokkurinn lagði fram í meðförum málsins voru stráfelldar með öllum greiddum atkvæðum stjórnarliða. En málið er til bóta og við í þingflokki Miðflokksins fögnum því að það sé orðið að lögum.

Eldhúsdagsumræður fóru fram í vikunni. Til gamans er rétt að halda til haga staðreynd um málaflokk hælisleitenda sem dómsmálaráðherra dró fram í umræðunni. Þar upplýsti ráðherrann að á þeim rétt rúma áratug sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur farið með stjórn málaflokksins hafi umsækjendum um alþjóðlega vernd fjölgað um 3.700%. Það hlýtur að vera nýtt héraðsmet.

Ráðherrann sló í framhaldinu á létta strengi og sagði engum betur treystandi en Sjálfstæðisflokknum til að fara með málefni hælisleitenda.

Það er alltaf gaman þegar ræðumönnum tekst að blanda saman hæfilegum skammti af húmor og hnefahöggum.

Framsóknarmennirnir þurftu svo að gefa eftir þjóðaróperuna eftir að í ljós kom að vegna vanfjármögnunar málsins hefði þingmannakórinn þurft að standa vaktina fyrstu veturna.

Samgönguáætlunin fer sennilega sömu leið. Hvað önnur mál varðar verður kylfa látin ráða kasti.

Og svo kom hvalurinn. En pistillinn er of stuttur til að úttala sig um það mál, ég læt það bíða fram yfir helgi.

Höfundur er þingflokksformaður Miðflokksins. bergthorola@althingi.is