Suðurbæjarlaug Sundlaugarnar eru vinsælar meðal ungra sem aldinna.
Suðurbæjarlaug Sundlaugarnar eru vinsælar meðal ungra sem aldinna. — Ljósmynd/Hafnarfjarðarbær
Suðurbæjarlaug í Hafnarfirði verður lokuð enn á ný vegna framkvæmda frá 10. júní í tíu daga. Spurður um lokun laugarinnar sagði Geir Bjarnason, íþrótta- og tómstundafulltrúi Hafnarfjarðarbæjar, að flísar hefðu losnað úr útilauginni og verið væri að…

Suðurbæjarlaug í Hafnarfirði verður lokuð enn á ný vegna framkvæmda frá 10. júní í tíu daga.

Spurður um lokun laugarinnar sagði Geir Bjarnason, íþrótta- og tómstundafulltrúi Hafnarfjarðarbæjar, að flísar hefðu losnað úr útilauginni og verið væri að rífa allar lausu flísarnar af þar sem fólk hefði meitt sig á þeim. Þurfti að tæma laugina í kjölfarið. Svo þyrftu að koma tveir þurrir dagar eins og í gær og þá væri hægt að líma nýjar flísar á. Þegar því er lokið er fúgað og eftir það verður laugin opnuð á ný.

Geir sagði að verið væri að gera heilmikið annað í leiðinni. Færa á öryggisbúrið sem var innanhúss og búið er að byggja sérstakan öryggisturn úti. Auk þess er verið að sinna alls kyns viðhaldi sem hægt er þegar laugin er tóm.

Laugin hefur verið lokuð 1-3 vikur á sumrin undarfarin ár vegna viðhalds og þakviðgerða. Geir sagði að laugin væri orðin barn síns tíma og ekki væri hægt að gera við stóru laugina nema tæma hana. Laugin verður opnuð þó ekki sé allt orðið klárt, fyrr ef það verður frábært veður en kannski tveimur dögum seinna ef það verður blautt. Geir segist hafa skilning á að gestir séu ósáttir við þessar lokanir en jafnframt að öryggið verði ávallt að vera í fyrirrúmi. sigridurh@mbl.is