Umræðan um netsölu á áfengi er hávær og þar ber mjög á stjórnmálamönnum sem hafna eðlilegum viðskiptaháttum og stunda um leið hræðsluáróður.
Umræðan um netsölu á áfengi er hávær og þar ber mjög á stjórnmálamönnum sem hafna eðlilegum viðskiptaháttum og stunda um leið hræðsluáróður. — Morgunblaðið/Heiddi
Netverslun með áfengi er fullkomlega í takt við tíðarandann. Einokunarsala á áfengi er það alls ekki

Sjónarhorn

Kolbrún Bergþórsdóttir

kolbrun@mbl.is

Fjöldi einstaklinga nýtir sér þá þægilegu leið að kaupa áfengi á netinu. Þessi þjónusta hefur verið í boði í þó nokkurn tíma, fólk hefur vanist henni og hún er í huga þess orðin næsta sjálfsögð, sem hún á vitaskuld að vera. Hér á landi er hins vegar ákveðin hneigð hjá stjórnmálamönnum til að hafa vit fyrir fólki og gera því hlutina aðeins erfiðari en ástæða er til. Það hlaut því að koma til „vitundarvakningar“ hjá einstaka ráðherrum og stjórnmálamönnum af gamla skólanum sem vara nú við þeirri vá sem lýðheilsu þjóðarinnar stafar af sjálfsögðum viðskiptaháttum eins og áfengissölu á netinu.

Þessi viðbrögð koma alls ekki á óvart. Það er einkennilegur þankagangur í huga of margra stjórnmálamanna þegar kemur að því að leyfa almenningi að bera ábyrgð á sjálfum sér. Þá vaknar upp í þeim löngun til að stjórna, setja höft og banna. Í þessu tiltekna máli tala stjórnmálamenn, þar á meðal heilbrigðisráðherra, eins og þeir telji réttast að hefta aðgengi að áfengi eins mikið og mögulegt er. „Það verður að huga að lýðheilsusjónarmiðum,“ segja þeir brúnaþungir. Fjármálaráðherra er meira að segja svo áhyggjufullur að hann hefur klagað starfsemi netverslana til lögreglunnar. Starfsemi sem var svo sannarlega ekki að hefjast í gær.

Áfengi er hluti af lífi fjölmargra, sem merkir engan veginn að þeir sömu glími við áfengisvanda. Ansi margir stunda hófdrykkju. Nú er eins og maður heyri ámátleg hljóð úr einhverjum áttum þess efnis að hófdrykkja sé hugtak sem gjalda verði varhug við því áfengi sé í eðli sínu böl. Það er ekki rétt, eins og sá stóri hópur landsmanna sem kunna að fara með vín veit vel. Hér á landi er svo hópur sem veit þetta alveg fyrir víst og það eru vínspekúlantar sem kunna allar þær kúnstir sem fylgja eiga því að drekka vín á réttan hátt. Þeir harðneita að drekka vín nema hitastigið sé rétt og velta víninu síðan á tungunni af mikilli kunnáttu. Við hin erum eins og fúskarar við hliðina á þeim.

Vissulega finnast einstaklingar sem fara fram úr sér við drykkju og gera eitthvað sem þeir hefðu betur sleppt, en meðan það varðar ekki við lög og meiðir ekki aðrar manneskjur þá kemur engum það við. Öll vitum við síðan af einstaklingum sem þjást af alkóhólisma og hafa eyðilagt líf sitt. Það er ofur dapurlegt en við getum ekki hætt áfengissölu þess vegna.

Netverslun með áfengi er fullkomlega í takt við tíðarandann. Einokunarsala á áfengi er það alls ekki. Ef lýðheilsusjónarmið eru svo ofarlega í huga stjórnmálamanna sem sjá netverslun sem varasama útbreiðslu á áfengi, hvað finnst hinum sömu þá um allar þær upplýsingar um áfengisdrykkju sem finna má á síðu Áfengis- og tóbakssölu ríkisins, vinbudin.is? Þar eru langar og nákvæmar lýsingar á því hvernig eigi að smakka vín. Þar eru kokteiluppskriftir. Þar eru meira að segja upplýsingar um hvaða vín sé best að hafa með sér í ferðalagið.

Kæru afturhaldssömu þingmenn Framsóknarflokks, Vinstri- grænna, Flokks fólksins og Gömlu-Samfylkingarinnar, er þarna ekki um að ræða hættulegan boðskap um áfengisgleði í fríinu? Finnst ykkur rétt að ritskoða eða jafnvel loka netsíðu ÁTVR í ljósi þess að þar er nánast talað um áfengi eins og sjálfsagða vöru, sem sé meira að segja nánast ómissandi í ferðalagið? Finnst ykkur þessi upplýsingastarfsemi góð fyrir lýðheilsusjónarmiðin sem þið aðhyllist svo mjög og virðast byggjast á því að hamla eigi aðgengi að áfengi, og auglýsingum um það, eins og mögulegt er? Kannski ættuð þið bara að gangast við því að þið fylgið hafta- og bannstefnu og að forræðishyggjan er rík í hjarta ykkar.

Það er algjör tímaskekkja að amast við netsölu á áfengi. Hér áður fyrr meðan banngleðin var svo mikil að fólk gat ekki keypt sér bjór var því haldið að almenningi að frjáls bjórsala myndi skila sér í augafullu fólki á vinnustað og á heimilum og ungmenni þessa lands myndu lenda í sollinum. Um þetta var bullað endalaust. Sama bullið er í gangi varðandi áfengissölu á netinu. Sölu sem er sjálfsögð og eðlileg og skaðar ekki íslenskt samfélag á nokkurn hátt.