Álftir yfir Víðidal.
Álftir yfir Víðidal. — Morgunblaðið/Eggert
Vinni Le Pen hinar óvæntu kosningar um þjóðþingið mun hún velja næsta forsætisráðherra. Það verður hennar næsti maður, Bardella, sem leiðtoginn kallar „litla ljónsungann sinn“ og er fjallmyndarlegur og með foringjabrag.

Flest í tilverunni lýtur lögmálum, ef ekki sínum eigin, þá almennum lögmálum, sem víðar gilda. Á þessum vettvangi var nokkuð fjallað um kosningar til Evrópuþingsins, en með þeim fyrirvara þó, að íbúar svæðisins taki þá uppákomu aðeins kurteislega í alvöru, enda væru þær einungis í þykjustunni og breyttu litlu sem engu um stjórn ESB, og enn síður um hag almennings. Það reyndist þó, að þessu sinni, nokkurt efni til að fjalla um úrslit þeirra kosninga, ekki vegna þess, að þær breyttu einhverju í Brussel.

En það sem var fréttnæmt var að belgíska ríkisstjórnin féll með dynk, og á daginn kom, að Belgar héldu kosningar um sín eigin mál um leið og kosið var til „evrópska þingsins“. Og Belgar hafa talið að öruggara væri að kjósa, því að þegnunum væri skylt að nýta atkvæðaseðilinn, að viðlögðum sektum eða öðrum refsingum. Belgískir fréttamenn tóku þó margir fram (ekki þó á belgísku), að menn mættu ekki taka andköf, því að þótt ríkisstjórn falli í Belgíu, þá fylgir því sáralítið uppnám. Ekki vegna þess, að ný stjórn hafi verið snarlega mynduð. Það væri fremur sjaldgæft. Enda er þekkt reynsla í Belgíu sú, að það taki hið minnsta ríflega 100 daga og oftast mun meir, að klambra saman ríkisstjórn þar. Metið í þeim efnum er frá 2010 og slagaði myndunartími nýrrar ríkisstjórnar í Belgíu þá upp í 550 daga, eða rúmt hálft annað ár.

Eftir að fjallað var á þessum vettvangi um fyrirhugaðar kosningar til ESB-þingsins og undirstrikað, að þær kosningar hefðu lítið gildi og væru hluti af nýtingu þeirra að skjóta þangað þingmönnum sem voru að falla fyrir síðasta söludegi og gátu þá farið á þolanleg eftirlaun og þyrftu ekki að stimpla sig inn, en því betur getað sinnt víðfrægum matsölustöðum og sléttum og aðgengilegum golfvöllum, og þess háttar til að fá aðlagandi tíma til að nýta sér og vegna ríkjandi misskilnings fyrstu dagana, um að þeir myndu jafnvel skipta einhverju máli í þingsalnum í Brussel og þar að auki væri öll hersingin flutt með ærnum tilkostnaði til Strassbúrgar til að gera þar ekkert heldur, en þar er enn meiri sægur af meistarakokkum og fjölmargir þeirra með Michelin-stjörnur í augunum og víðar því til staðfestingar.

Dómstóllinn skrítni

Bréfritari hitti prýðilegan mann, sem starfað hafði við hinn skrítna Mannréttindadómstól, sem gerði sig nýlega, rétt einu sinni, að örlagakjána út af úrskurðum þaðan, um mál sem honum komu minna en ekkert við. Var sá góði maður spurður, hvursu lengi hann ætlaði að halda sér við þetta efni, þar syðra. „Ég hef hugsað mér að drýgja þann tíma, eins og frekast er kostur, og þegar það verður ekki lengur hægt, þá ætla ég mér að láta gera persónulega athugun á mér, um það,hvort tekist hafi að þurrka út alla þá lögfræðikunnáttu, sem ég eitt sinn réð við.

Þá verð ég fyrst kominn á sömu bylgjulengd og þeir, sem eru þar fyrir. Og þá stofnum við klúbb þeirra, sem lengst hafa komist í fræðunum hver og einn, og munum keppast um að finna matsölustaði, sem bera af öllum, og það þótt allur heimurinn sé undir, og fáum endanlega úr því skorið, að öllum helstu markmiðum okkar í lífinu hafi verið náð. Þriðja hvern mánuð förum við í sparifötin og veitum einum úr hópnum doktorsgráðu og verður það gert á meðan birgðir endast.

Við höfum fyrir löngu lært að forðast að halda dagbók, sem myndi bara gera okkur grunsamlega, frekar en hitt, og láta skattinn finna á okkur veika hlið. En þörfina á því til að eiga eitthvað skráð fyrir næstu kynslóðir munum við afgreiða með því, að safna matseðlum og láta binda þá inn í skinn.“

Stjórnarskráin vakir

En hvað sem þessu líður, þá verða menn að muna, að stjórnarskrá Íslands bindur okkur við að úrskurðir Mannréttindadómstóls Evrópu binda engan mann á Íslandi frekar en hann vill. Þótt ekkert banni svo sem að hafa hliðsjón af því, sem þar er muldrað og skrifað hjá sér.

Og það er ekki andstætt bindandi stjórnlagaramma, þótt Íslendingar kunni, við einhver tækifæri, að taka mið af því sem frá þeim dómstóli kemur í einhverjum tilvikum, þótt ólíklegt sé að slík tilvik verði mörg. Landsmenn verða, í þeim efnum, aldrei bundnir af að hafa hliðsjón af slíkum textum, sem þaðan koma, og það þótt megi fella sig við þá.

Kosningar til Evrópuþingsins hafa ekki bindandi þýðingu fyrir einstaka þjóðir, og skiptir þá engu, hversu lítil þátttaka sé í þeim kosningum, og fer síður en svo fjölgandi. Kosningarnar fara fram í hverju landi fyrir sig, en því næst er þeim, sem sagðir eru eiga saman, safnað í flokka, eftir því hverning lesið er í stjórnmálaskoðanir þeirra, og hverjir eiga helst saman.

Og þar sem slíkir flokkar hafa sáralítil áhrif, þar sem nær öll völd eru færð í hendur kommissaranna og fá þeir hins vegar, hver og einn, meiri völd en tíðkast með einstaka ráðherra í lýðræðisríkjum álfunnar.

Macron upp með andfælum

Þegar á daginn kom, að flokkur forseta Frakklands hefði fengið helmingi færri atkvæði í Evrópukosningunum nú en flokkur Marine Le Pen fékk, var forsetanum mjög brugðið. Það var ekki vegna þess, að þetta afhroð flokksins í Evrópuþingskosningum myndi hafa einhver áhrif í Brussel og úthverfum.

Macron var brugðið, því að hann vissi að það var ekki verið að greiða atkvæði um Evrópu. Umræðan í Frakklandi sjálfu sannaði það. Macron og aðrir landar hans litu á þessi úrslit sem áhrifaríkar skoðanakannanir, sem gætu skaðað forsetann pólitískt. Þetta áfall hafði ekkert með ESB að gera, enda voru þetta aðeins ESB-kosningar. Og þær hafa lítið sem ekkert gildi í Brussel eða annars staðar. Aðeins einum klukkutíma eftir að tölurnar höfðu birst tilkynnti forseti Frakklands, að löggjafarþingið væri rofið og kosningar boðaðar í landinu, í tveimur atrennum lögum samkvæmt. Hin fyrri í lok júní og hin síðari 7. júlí, næstkomandi.

Það fer ekki á milli mála, að eiginlegt samráð var ekki haft við lykilöfl í þjóðfélaginu. Fréttaöflin sögðu, að Macron forseti hefði tekið mikla áhættu! Öðrum fannst sú fullyrðing ýkt. Macron er öruggur í forsetastólnum í þrjú ár.

Flokkur Marine Le Pen er þegar stærsti flokkurinn í þinginu, þó að enn ráði hann ekki öllu þar. En sú breyting þýðir þó óneitanlega, að þyngra er um vik fyrir Macron, þegar hann þarf að koma mikilvægum málum fram.

Ekki er endilega líklegt að þessi „sterki leikur“ forseta Frakklands, í aðdraganda Ólympíuleika, heppnist. En það er þó ekki útilokað. Vogun vinnur – vogun tapar hugsar forseti Frakklands.

Raunar stendur Frakkland ekki mjög vel eftir tíð forsetans. Hann á í fjárhagskrísu. Þegar hann blés þjóðþingið af, aðeins klukkutíma eftir tapið um ESB, og boðaði kosningar lækkuðu bæði verulega, verð- og hlutabréf.

Markaðurinn er ekki alvitur, en ljóst er þó, að hann var fullur efasemda, og ekki síst hafði hann þær efasemdir því hann taldi þetta óyfirvegað viðbragð og fát, sem benti til þess, að hinum sjálfumglaða forseta væri brugðið og gæti nú ekki falið taugaveiklun sína. Vinni Le Pen hinar óvæntu kosningar um þjóðþingið mun hún láta sinn næsta mann, Bardella, sem leiðtoginn kallar „litla ljónsungann“ og er fjallmyndarlegur og með foringjabrag, „velja sitt lið“ þegar þar að kæmi.

Kjördagur vestra

Það getur margt gerst til 5. nóvember nk. Í augnablikinu hefur Donald Trump mikla yfirburði. Hann virðist nú hafa nær allan flokkinn sinn mjög nærri sér, en töluvert vantaði upp á slíka eindrægni í kosningum 2020.

Skoðanakönnunum verður að taka með fyrirvörum, það sýnir sagan. En óneitanlega hafa þær verið óþægilega áþekkar, hvaðan sem þær hafa komið. Í umræðunni vestanhafs ber sífellt meira á demókrötum, sem lengi hafa starfað í fremstu sveit þess flokks, en hafa aldrei sóst eftir þingsætum eða öðrum bitlingum frá flokknum. En þeir eru óþægilega hreinskilnir orðnir og bersýnilegt er að „stórblöðin“ og „mainstream media“, sem lengi og fast hafa stutt demókrata, hvað sem á gengur, eru aðeins farin að sýna efasemdir og þagga ekki niður í öllu slíku, eins og lengi hefur verið gert.

Nú er opinberlega um vandann rætt í þessum miðlum, þótt enn sé varlega farið. Þannig fjalla þeir nú um það, hvenær síðasta tækifærið sé til að losa um Joe Biden. Slíkar leiðir eru til, er niðurstaðan, og það þótt erfitt sé að nýta þær, ef sitjandi forseti streitist á móti. Bent er á, að báðir stóru flokkarnir, Demókratar og Repúblikanar, hafa þekktar aðferðir til að koma tveimur mikilvægustu frambjóðendum sínum úr framboði, ef það er óhjákvæmilegt að þeirra mati.

Landsfundur Demókrata

Demókratar halda landsfund 19.-24. ágúst, en Landsfundur Repúblikana verður 15.-18. júlí. Eftir þá fundi, og hafi ekkert gerst, verður þrengra um að koma forsetaframbjóðanda frá, en ekki endilega ómögulegt.

Thomas Eagleton dró framboð til baka eftir að skýrsla um andleg veikindi hans var birt. Og hann tók ekki á móti.

Horace Greeley, sem hafði tapað fyrir Ulysses S. Grant, lést eftir að hann hafði tapað, en áður en Grant var settur í embætti í janúar.

Lyndon Johnson tók við af John Kennedy eftir að Kennedy var myrtur þegar ár var í kosningar, 1964. Við þessar aðstæður þurfti ekki að spyrja að leikslokum. Lyndon Johnson vann glæsilega, með miklum yfirburðum, og augljóst var hvað réð mestu um þau úrslit. Í aðdraganda kosninga, haustið 1968, eftir að hafa búið við mikinn styrk á liðnu kjörtímabili, átti Johnson í innri baráttu um það, hvort hann færi aftur í framboð. Hann hélt ræðu til þingfulltrúa sinna, um að hann hefði ákveðið að vera ekki í framboði í nóvember. Varaforseti hans, Hubert Humphrey, heyrði þessa tilkynningu fyrst í útvarpssendingu! Þessa yfirlýsingu dró Johnson allt fram í seinni part ágústmánaðar.

Rétt er að geta þess, að frambjóðandi Repúblikana, Richard Nixon, vann kosningarnar sem fóru í hönd og varð forseti. Hann hafði slegist við John F. Kennedy átta árum fyrr og tapað naumlega.