Framkvæmdir Sævar Hilmarsson og Margrét Hallgrímsdóttir við Þingvallabæinn í gær. Nokkurra ára framkvæmdir eru senn á enda og er það stór áfangi.
Framkvæmdir Sævar Hilmarsson og Margrét Hallgrímsdóttir við Þingvallabæinn í gær. Nokkurra ára framkvæmdir eru senn á enda og er það stór áfangi. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Drífa Lýðsdóttir drifa@mbl.is Á þjóðhátíðardeginum 17. júní verða liðin 80 ár frá lýðveldisstofnun árið 1944. Af því tilefni er efnt til lýðveldishátíðar á Þingvöllum og um allt land. Þá verður formlega lokið við endurbætur á Þingvallabænum eftir viðamiklar endurbætur á liðnum árum.

Sviðsljós

Drífa Lýðsdóttir

drifa@mbl.is

Á þjóðhátíðardeginum 17. júní verða liðin 80 ár frá lýðveldisstofnun árið 1944. Af því tilefni er efnt til lýðveldishátíðar á Þingvöllum og um allt land. Þá verður formlega lokið við endurbætur á Þingvallabænum eftir viðamiklar endurbætur á liðnum árum.

Margrét Hallgrímsdóttir hjá forsætisráðuneytinu, sem er verkefnisstjóri lýðveldisafmælisins, og Sævar Hilmarsson verkstjóri framkvæmdanna tóku á móti blaðamanni og ljósmyndara Morgunblaðsins við Þingvallabæinn í gær þar sem vinna stóð yfir vegna endurbótanna. Fór samtalið fram undir lýðveldistrénu, grenitré sem var plantað einmitt á 17. júní fyrir 80 árum.

Þingvallabærinn var byggður sem prestsseturshús um 1930 þegar 1.000 ár voru liðin frá stofnun Alþingis. Húsið var byggt eftir uppdráttum Guðjóns Samúelssonar húsameistara ríkisins sem leitaðist við að endurskapa anda íslenska torfbæjarins í steinsteypu. Við endurbæturnar veitti Pétur Ármannsson ráðgjöf, en hann er sérfræðingur í verkum Guðjóns.

Gestastofa forsætisráðherra

Upphaflega var húsið þrjár burstir með torfi á þekjum en árið 1970 var ákveðið að stækka bæinn og var þá bætt við tveimur burstum til suðurs sem voru teknar í notkun 1974. Í nyrstu burstinni er aðstaða fyrir Þingvallanefnd og þjóðgarðsvörð auk prests, en hinar fjórar burstirnar þjóna sem bústaður og gestastofa forsætisráðherra. Þingvallabærinn myndar sögulega heild með kirkjunni á þessum helgasta sögustað þjóðarinnar. Þingvallabærinn var friðlýstur af forsætisráðherra og er hluti af þeirri heild sem samþykkt var á heimsminjaskrá UNESCO árið 2004.

Þegar framkvæmdir hófust fyrir fáum árum var orðið afar tímabært að ráðast í endurbætur á hinu tæplega aldar gamla húsi. Þar sem húsið er friðlýst segir Margrét mikilvægt að taka mið af menningarsögulegu gildi þess. Tímabært hafi verið að hefja viðgerðir, en húsið var orðið heilsuspillandi vegna raka og myglu, lagnir að gefa sig og ástand veggja og þaks bágborið.

Síðan þá hafa verið gerðar gagngerar endurbætur að höfðu samráði við Minjastofnun Íslands, hönnuði og viðeigandi fagaðila. Með endurbótunum hefur verndun hússins verið tryggð. „Húsið hefur þýðingu fyrir okkur öll og ásýnd Þingvalla og er nú til sóma sem móttökustaður forsætisráðherra. Það er mjög mikilvægt að vanda vel til verka og tryggja þar með öryggi hússins og gesta þess með tilliti til brunavarna og starfsaðstæðna almennt,“ segir Margrét.

„Varðveisla sögulegra bygginga helst í hendur við viðeigandi og verðugt hlutverk þeirra. Í því felst aðlögun að samtímanum á grundvelli sögunnar og reglubundið viðhald. Þannig er það að miklu leyti notkunin sjálf sem tryggir varðveisluna þegar öllu er á botninn hvolft,“ segir hún og minnir á mikilvægi þess að standa þannig vörð um varðveislugildið.

„Endurbæturnar hafa verið unnar af fagmennsku og hönnun einkennist af gæðum og ákveðinni hógværð sem hæfir sveitasetrinu. Þar er saga hússins virt samhliða því að notagildi þess er tryggt,“ bætir Margrét við.

Spurður um aðdraganda viðgerðanna sagði Sævar: „Þetta byrjar á því að vart varð við leka og þá förum við að skoða þakið. Oft hafði áður eitthvað verið gert til að reyna að laga leka en nú þurfti að fara í miklar framkvæmdir.“

Steinveggirnir stóðu eftir

Sævar segir enn fremur að ekki hafi verið loftræsting í húsinu, sem hafði sín áhrif. Því var komin mygla sem bregðast þurfti við og brunaöryggi var jafnframt ábótavant.

„Það kemur í ljós að allt þakið er ónýtt, það eina sem hélst voru sperrurnar. Allur eir, öll klæðning, einangrun, allt saman var skemmt. Þá fannst einnig mygla í þakinu, sem var vægast sagt illa farið,“ segir Sævar. Við frekari ástandsskoðun kom einnig í ljós mygla í veggjum hússins.

„Við þurftum því að hreinsa innan úr öllu húsinu, því það eina sem stóð eftir voru steinveggirnir,“ segir hann. Húsið og varðveisla þess var því í hættu vegna þeirra skemmda sem orðið höfðu. Vandað var til framkvæmda og við endurbygginguna en mikil áhersla lögð á nýta það sem unnt var. Þannig voru allir gluggar teknir og þeir notaðir aftur eftir viðgerð.

Hönnuðir endurbótanna komu frá teiknistofunni Glámu-Kím, í samvinnu við sérfræðinga forsætisráðuneytisins og í góðu samráði við Pétur Ármannsson hjá Minjastofnun Íslands. Að framkvæmdinni komu tugir aðila.

Hátíðahöld á Þingvöllum um helgina

Haldið upp 80 ára afmæli
lýðveldisins Íslands

Á Þingvöllum verður fjölbreytt og fjölskylduvæn dagskrá um helgina sem nær svo hápunkti annað kvöld með notalegum tónleikum, eins og Margrét Hallgrímsdóttir orðar það, verkefnisstjóri og formaður nefndar 80 ára afmælis lýðveldisins.

Á morgun setur Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands kórahátíð í Almannagjá við Lögberg þar sem fjöldi kóra mun skiptast á að syngja á hálftíma fresti, frá kl. 13 til 16.

Fornleifaskóli barnanna verður starfandi, á staðnum verða víkingar og handverksmenn sýna verk sín. Einnig lýðveldis- og skógargöngur með landvörðum, leikhópurinn Lotta skemmtir, þá verður ljósmyndahátíð, glíma og síðast en ekki síst fjallkonan sjálf. Þá verður boðið upp á lýðveldisköku, og matarvagnar til staðar að auki.

„Veðurspáin er góð og því tilvalið að taka með sér Álafoss-ullarteppið og fara í lautarferð til Þingvalla og njóta fegurðarinnar og samverunnar. Það verður án efa notaleg lautarstemning eins og var í gamla daga,“ segir Margrét. Hápunkturinn verður söngvakan á Valhallarreit kl. 20 á sunnudagskvöld en þá munu Bubbi Morthens, Valdimar, Reiðmenn vindanna og Helgi Björns, GÓSS og GDRN stíga á pall. Nánari upplýsingar er hægt að nálgast á heimasíðu Þingvalla og á síðunni www.lydveldi.is.