[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég hef afskaplega gaman af bókum, lesa þær, handfjatla og hlusta á umfjallanir um þær. Nýútkomnar íslenskar skáldsögur eru fyrirferðarmiklar hjá mér en ekki á þessum tíma ársins. Mig langar þó að nefna eina úr síðasta jólabókaflóði sem er DJ Bambi eftir Auði Övu Ólafsdóttur

Ég hef afskaplega gaman af bókum, lesa þær, handfjatla og hlusta á umfjallanir um þær. Nýútkomnar íslenskar skáldsögur eru fyrirferðarmiklar hjá mér en ekki á þessum tíma ársins. Mig langar þó að nefna eina úr síðasta jólabókaflóði sem er DJ Bambi eftir Auði Övu Ólafsdóttur. Bókin fjallar um hina 61 árs gömlu Logn sem þó fæddist sem Vilhjálmur. Hér fjallar Auður Ava um viðkvæmt efni og gerir það afar vel.

Ég hef verið að lesa bækur frönsku skáldkonunnar Annie Ernaux og nú síðast bókina Kona sem fjallar um líf móður hennar sem lést úr alzheimer. Stíllinn er knappur en beittur líkt og bókin Staðurinn sem fjallaði um föður hennar. Þetta eru miklar sögur á fáum blaðsíðum þar sem stéttaskiptingin í Frakklandi er alltumlykjandi.

Af tilviljun reri ég á svipuð mið með Kaupmannahafnartrílógíu Tove Ditlevsen, Barndom. Ungdom. Gift. Þar segir hin þekkta danska skáldkona frá bernsku sinni, unglingsárum og fjórum hjónaböndum. Orðið Gift er tvíbent, vísar til hjónabanda hennar en einnig eitursins sem hún átti í baráttu við. Frásögn Tove er einlæg og hispurslaus og það er erfitt að leggja bókina frá sér. Stíllinn er knappur líkt og hjá Annie Ernaux en báðar ná þær að grípa lesandann.

Ég er í áskrift að bókum frá Angústúru og nú síðast fékk ég Dagbók frá Gaza eftir Atef Abu Saif, menningarmálaráðherra palestínsku heimastjórnarinnar. Atef býr á Vesturbakkanum en var staddur á Gaza í helgarheimsókn þegar árásir Ísraelsmanna hófust 7. okt. síðastliðinn. Hann lokast inni á Gaza ásamt syni sínum og skrifar dagbók í 85 daga og er bókin afrakstur þess. Það er eiginlega ekki hægt að lýsa hryllingnum sem hann verður vitni að. Þetta er erfið en holl lesning og ómetanlegur vitnisburður um fyrstu þrjá mánuði stríðsins. Bókin minnir á bækur hinnar hvítrússnesku Svetlönu Alexievich sem skrifar um Tsjernobyl og stríð í Rússlandi út frá vitnisburði almennings.

Þessi frægu glæpamál sem Jón Torfason og Már Jónsson tóku saman hefur að geyma yfirheyrslur og héraðsdóma sem snerta morðin á Sjöundá og Natansmálið. Hér eru frumheimildir af skjalasöfnum gerðar aðgengilegar og mér finnast svona útgáfur afar áhugaverðar og þakkarverðar.