Fjölskyldan Samankomin þegar Hrólfur og Guðný giftu sig 2018.
Fjölskyldan Samankomin þegar Hrólfur og Guðný giftu sig 2018.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Árni Snorrason fæddist 16. júní 1954 á Selfossi og verður því sjötugur á morgun. „Foreldrar mínir byggðu hús á Fossi en þá voru tvö býli þar með blandaðan búskap og laxveiðar sem höfðu verið stundaðar frá öndverðu á Selfossi

Árni Snorrason fæddist 16. júní 1954 á Selfossi og verður því sjötugur á morgun.

„Foreldrar mínir byggðu hús á Fossi en þá voru tvö býli þar með blandaðan búskap og laxveiðar sem höfðu verið stundaðar frá öndverðu á Selfossi. Því ólst ég upp við sveitastörf þó foreldrar mínir væru ekki bændur. Ég fór svo 6 ára í Litlu-Sandvík til Lýðs Guðmundssonar hreppstjóra og konu hans Aldísar Pálsdóttur. Var ég þar í 10 sumur í sveit hjá þeim hjónum og Páli syni hans og konu hans Elínborgu Guðmundsdóttur. Þar var gott að vera og var ég heimagangur bæði sumar jafnt sem vetur. Í Stóru-Sandvík á næsta bæ voru fjórar fjölskyldur, allar með börn á mínu reki, og samfélag og vinátta sem ég sótti í.“

Árni lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1974. Hann tók þátt í stofnun Hjálparsveitar skáta á Akureyri og varð menntaskólameistari í brids ásamt félögum sínum. Hann fékk ásamt fleirum styrki til Ameríkudvalar og nam Árni stærðfræði við University of Kansas 1974-1975 og lauk B.S.-prófi í eðlisfræði frá Háskóla Íslands 1978. Árni lauk M.Sc.-prófi í byggingarverkfræði frá University of Illinois Urbana-Campaign með vatnaverkfræði sem sérgrein 1980 og öðlaðist Ph.D.-gráðu í sömu grein við sama skóla 1983.

Árni var aðstoðarmaður við rannsóknir hjá Raunvísindastofnun Háskólans og Vatnamælingum Orkustofnunar sumurin 1976-1978 og aðstoðarmaður við rannsóknir og kennslu við University of Illinois og Illinois State Water Survey með námi 1978-1982. Hann var sérfræðingur á Vatnamælingum 1983-1987 og síðan forstöðumaður þeirra frá 1987 til júlíloka 2008. „Ég var gagntekinn af starfinu og naut þess í ystu æsar að byggja upp og breyta til þess að mæta sívaxandi þörfum samfélagsins fyrir vatnafræðilegar upplýsingar. Til þess að draga úr vanrækslu við fjölskylduna tókum við upp þann sið að fara í langt frí um jólin í sumarbústað og hélst sá siður í nærri 30 ár. Ég tók líka upp á því að fara með börnin og frændur og frænkur í hjólaferðir um Ísland og svo einnig um Evrópu sem var mikið ævintýri. Ég hafði byrjað að hjóla í vinnuna upp úr 1994 og hélt því áfram allt að covid. Samhliða því ferðuðumst við víða á hjólum og stóð þá tveggja mánaða ferð okkar systur minnar og mágs með Jóhönnu sem trússara yfir þver Bandaríkin frá San Diego í Kaliforníu til Yorktown í Virginíu upp úr öllum þeim ferðum.“

Árni var gestafræðimaður við vatnafræði- og vatnsauðlindadeild við University of Arizona 1993-1994, University of New Hamphshire 2006 og University of California 2015-2016. Árni var skipaður forstjóri nýrrar Veðurstofu Íslands frá 1. ágúst 2008, en nýja stofnunin sem varð til við sameiningu Veðurstofunnar og Vatnamælinga tók síðan til starfa 1. janúar 2009. Hann gegndi forstjórastöðunni til marsloka 2024. „Það var mikið ævintýri að taka þátt í sameiningu Vatnamælinga og Veðurstofunnar í lok ársins 2008. Í kjölfarið komu áskoranir eins og gosið í Eyjafjallajökli, sem styrkti þann gjörning og Veðurstofuna til framtíðar.“

Árni hefur gegnt fjölda félags- og trúnaðarstarfa. Hann var landstengiliður Íslands fyrir Alþjóðaveðurfræðistofnunina WMO og í stjórn þar um tíma. Fulltrúi Íslands í UNESCO Intergovernmental Hydrological Programme og formaður UNESCO Íslensku vatnafræðinefndarinnar um árabil og fulltrúi Íslands í Alþjóðavatnafræðifélaginu (IAHS). Hann á sæti í landsnefnd Alþjóðajarðeðlisfræðifélagsins (IUGG) og hefur verið formaður hennar allt til þessa dags.

„Ég hef auðvitað sem forstöðumaður haft ábyrgð á margþættum alþjóðasamskiptum. Umfram það leiddi ég norræn og baltnesk verkefni sem sneru að rannsóknum á afleiðingum loftslagsbreytinga á endurnýjanlegar orkuauðlindir. Þessi verkefni stóðu yfir í meira en áratug og lögðu grunninn að skilningi okkar og aðlögunaraðgerðum til þess að bregðast við breyttri framtíð. Eins féll það í minn hlut að leiða verkefni Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar, WMO, um hnattræna skipulagningu á athugunum á freðhvolfinu, í öllum formum þess. Þetta verkefni hófst árið 2012 og fékk nafnið Global Cryosphere Watch og er nú samþætt inn í lykilstarfsemi WMO. Þetta var mjög gefandi starf og fórum við víða um heim til þess að byggja upp netverk til hnattrænnar vöktunar á freðhvolfinu.“

Árni hefur verið afkastamikill á sviði fræðimennsku og ritað fjölda greina í vísinda- og ráðstefnurit. Hann hefur hlotið ýmsar viðurkenningar um ævina, s.s. Thor Thors-styrk 1978 og ýmsa námsstyrki. Doktorsritgerð hans, Analysis of Multivariate Stochastic Hydrological Systems using Transfer Function-Noise Models, var tilnefnd til tvennra virtra verðlauna. Árni hefur verið félagi í Vísindafélagi Íslendinga frá 2004.

„Ég hef auðvitað eins og aðrir sinnt mínum áhugamálum í gegnum tíðina en vil vitna í kollega minn frá Kýpur þegar hann var spurður að því hvað hann ætlaði að taka sér fyrir hendur þegar hann léti af störfum: Gera það sem ég hef ekki getað gert í 40 ár! En ég mun halda áfram ferðalögum, líkamsrækt, hjólreiðum, lestri og hlustun bóka, áhorfi á íþróttir, kvikmyndir og sjónvarpsþætti en mun leggja höfuðáherslu á golfið og fer þess vegna til vetrardvalar á Algarve strax þegar hallar sumri.“

Fjölskylda

Eiginkona Árna er Jóhanna Bogadóttir, f. 2.11. 1954, BA og MA í málvísindum frá University of Illinois. Þau eru búsett í Reykjavík í Seláshverfi. Foreldrar Jóhönnu voru hjónin Bogi Þórðarson, f. 31.8. 1917, d. 10.9. 2001, kaupfélagsstjóri og framkvæmdastjóri Hraðfrystihúss Patreksfjarðar, og Jóhanna Katrín Kristjana Eggertsdóttir, f. 27.9. 1924, d. 13.3. 1970, húsmæðrakennari á Varmalandi og húsmóðir. Börn Árna og Jóhönnu eru 1) Snorri, f. 15.2. 1979, framkvæmdastjóri EveOnline hjá CCP, Stokkhólmi. Maki: Stefanía Guðrún Halldórsdóttir, f. 24.7. 1973, forstjóri Avalance Studios Group. Börn: Halldór Þór, f. 2.4. 2000, Árni, f. 9.10. 2005 og Katrín Aagot, f. 12.4. 2015; 2) Bogi Brimir, f. 6.3. 1983, heilbrigðisverkfræðingur á Landspítalanum, búsettur í Kópavogi. Maki: Anna Guðbjörg Cowden, framkvæmdastjóri hjá CCP. Börn: Ýmir Bragi, f. 9.8. 2016, og Jóhanna María, f. 6.12. 2018; 3) Hrólfur, f. 10.5. 1987, birgðasérfræðingur hjá Krónunni, Reykjavík. Maki: Guðný Indíana Guðmundsdóttir, f. 26.10. 1987, vörumerkjastjóri hjá Termu. Börn: Embla Sól, f. 11.7. 2015, Aþena Nótt, f. 27.3. 2019, og Salka Máney, f. 3.6. 2021; 4) Eggert Ólafur, f. 27.1. 1993, læknir á Landspítala, Reykjavík. Maki: Guðrún Margrét Viðarsdóttir, f. 6.12. 1993, læknir á Landspítala. Börn: Hugrún Eva, f. 10.6. 2019, og Íshildur María, f. 23.10. 2021.

Systkini Árna: Aagot, f. 4.11. 1947, bókari, Selfossi; Sigríður, f. 26.4. 1949, d. 30.12. 2022, flugfreyja og snyrtifræðingur, Reykjavík; Gunnar Snorri, f. 29.8. 1950, rafvirkjameistari, Reykjavík; Þorfinnur, f. 21.11. 1952, vélstjóri, Selfossi, og Anna María, f. 25.12. 1958, hjúkrunarfræðingur og fyrrverandi hjúkrunarforstjóri HSS, búsett í Reykjavík.

Foreldrar Árna voru hjónin Eva Þorfinnsdóttir, f. 12.5. 1922, d. 26.1. 1999, kennari, og Snorri Árnason, f. 10.7. 1921, d. 21.12. 1972, lögfræðingur og fulltrúi sýslumannsins í Árnessýslu. Þau voru búsett á Selfossi.