Sókn Bæði ráðherra menntamála og forstjóri nýrrar Menntamálastofnunar segja nýja stofnun vera í sókn og nýjar áherslur séu á döfinni.
Sókn Bæði ráðherra menntamála og forstjóri nýrrar Menntamálastofnunar segja nýja stofnun vera í sókn og nýjar áherslur séu á döfinni. — Morgunblaðið/Hari
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég fagna alltaf umræðu um skólamál,“ segir Ásmundur Einar Daðason menntamála- og barnaráðherra þegar hann er spurður um harða gagnrýni Kristrúnar Lindar Birgisdóttur, framkvæmdastjóra skólaráðgjafarinnar Ásgarðs, í grein í Morgunblaðinu síðasta fimmtudag

Sviðsljós

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

Ég fagna alltaf umræðu um skólamál,“ segir Ásmundur Einar Daðason menntamála- og barnaráðherra þegar hann er spurður um harða gagnrýni Kristrúnar Lindar Birgisdóttur, framkvæmdastjóra skólaráðgjafarinnar Ásgarðs, í grein í Morgunblaðinu síðasta fimmtudag. Í viðtali við blaðamann Morgunblaðsins sagði Kristrún að ríkið stæði í vegi fyrir framþróun í skólakerfinu og hún ákvað að opna gagnagrunn Ásgarðs með efni fyrir kennara án endurgjalds til að leggja sitt á vogarskálarnar í erfiðri stöðu.

„Margt af því sem kemur fram í þessu viðtali við Kristrúnu rímar vel við það sem við erum að gera og ég tek undir með Kristrúnu um að það skorti meiri stoð fyrir skólakerfið og að kennararnir standi oft svolítið einir. Ég tek líka undir það sem lýtur að námsgögnunum og ekki síst fjármagnið og þess vegna erum við í þessum breytingum sem við erum að undirbúa.“

Ný menntamálastofnun í sókn

Ásmundur talar um að Miðstöð menntunar og skólaþjónustu hafi einmitt verið hugsuð til þess að taka á þessum málum og vera meiri stuðningur fyrir kennara. „Fyrstu verkefni hennar lúta m.a. að námsgagnaútgáfu og þjónustu við skólakerfið. Við vorum að undirrita samning um mikla innspýtingu inn í þjónustu við sveitarfélögin þegar kemur að því að samræma stuðning við börn af erlendum uppruna sem er hluti af heildarsýninni og einn angi af útlendingafrumvarpinu sem við vorum að samþykkja núna í þinginu.“ Hann segir að mikið undirbúningsstarf hafi átt sér stað og ný menntamálastofnun hafi aðeins starfað í tvo mánuði og margt sé í burðarliðnum.

Hann segir að námsgögn séu lykilatriði og endurskipuleggja þurfi námsútgáfuna. „Við erum með frumvarpsdrög sem verða líklega lögð fram í haust, en í þeim undirbúningi erum við búin að ná samstöðu með fjölda hagaðila um grundvallarbreytingar á námsgagnaútgáfu. Ég reikna með því að á hausti komanda í nýju fjárlagafrumvarpi munum við sjá gríðarlega aukningu til námsgagnagerðar.“

Ásmundur segir að að fenginni reynslu verði að fylgja málum fastar eftir en gert hefur verið til þessa og leggur mikla áherslu á að skólarnir geti fengið stuðning við innleiðingu. „Það hefur enginn haft það lagalega hlutverk að vera þjónustuaðili við menntakerfið heldur var gamla menntamálastofnunin fyrst og fremst stjórnsýslustofnun. En breytingar í stórum kerfum eins og skólakerfinu taka tíma og við þurfum að hafa alla aðila með okkur. Að þessari uppbyggingu standa bæði ríkið og sveitarfélögin, kennarasambandið, heimili og skóli og háskólarnir og fleiri aðilar og ég finn að það er mikill kraftur í þessu starfi og það er gróska fram undan.“

Fjárskortur í þrjá áratugi

Þórdís Jóna Sigurðardóttir, forstjóri Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu, tekur undir með Ásmundi að athugasemdir Kristrúnar eigi fullan rétt á sér. „Við þurfum meira námsefni sem er einstaklingsmiðaðra og höfðar til ólíkra hópa, drengja, stúlkna og barna frá öðrum menningarheimum,“ segir Þórdís en bætir við að miklu skipti að stofnunin fá fjármagn til að geta sinnt metnaðarfullu hlutverki sínu.

„Ef við skoðum undanfarna þrjá áratugi og kostnaðinn sem hefur farið í námsefni fyrir nemendur þá var það 6.500 krónur árið 1991, en árið 2019, tæplega 30 árum síðar, 7.000 krónur. Ef það hefði átt að halda í við verðlag ætti sú upphæð að vera langt yfir 20 þúsund. Það sýnir að námsgagnagerð hefur setið á hakanum mjög lengi.“

Gervigreind til stuðnings

Þórdís segir margt spennandi í farvatninu og til standi að nýta gervigreind betur sem hjálpartæki við námsgagnagerð. „Það eru margir möguleikar til að mæta fjölbreyttari nemendahópi með þessari tækni. Svo erum við að fara af stað með námsefni fyrir leikskólana í haust, því það er mikilvægt að huga strax að yngstu börnunum. Síðan förum við með lesskilningspróf í prufufasa eftir áramótin í völdum skólum og eftir að fara yfir reynslu ættum við að geta sett þau í alla skóla eftir ár,“ bætir hún við.

„Ef við hlúum ekki að íslenskunni, börnunum og námi þeirra þá mun það kosta okkur mikla fjármuni síðar meir. Þess vegna er svo mikilvægt að við setjum kraft í menntakerfið og framtíðarkynslóðir.“