Og það sem meira var, þessar þjóðir virkuðu bara sprelllifandi.

Pistill

Orri Páll Ormarsson

orri@mbl.is

Þegar maður var að vaxa úr grasi áttaði maður sig snemma á því að áfengi mætti aðeins selja í þar til gerðum verslunum í eigu íslenska ríkisins og að þaðan mætti salan alls ekki sleppa út því þá myndi þessi þjóð fara sér að voða á nokkrum mánuðum, jafnvel vikum. Við erum að tala um létt og sterkt vín, bjór var auðvitað harðbannaður, eins og hjá öllum siðuðum þjóðum. Að manni skildist. Dulúð hvíldi yfir „ríkinu“, eins og verslanirnar voru kallaðar, þar sem alvörugefnir sloppklæddir karlar afgreiddu vöruna yfir borðið og horfðu rannsakandi og jafnvel ásakandi augum á viðskiptavininn þegar hann bað skömmustulega og í lágum hljóðum um bokkuna sína eða pelann. Allt ósköp eðlilegt við þetta.

Síðan fór maður að fara til útlanda og komst að því sér til mikillar undrunar að í sambærilegum ríkjum í þessari sömu álfu var ekki bara bjór og létt vín selt í kjörbúðum og jafnvel sjoppum, heldur sterkt vín líka. Allar hillur svignuðu undan þessari forboðnu vöru. Og það sem meira var, þessar þjóðir virkuðu bara sprelllifandi.

Þessu hlýtur að verða breytt fljótlega heima, hugsaði maður með sér. Síðan eru liðnir áratugir og enn er fyrirkomulagið það sama. Eini munurinn er sá að núna mega viðskiptavinirnir sækja sér sjálfir vöruna í hilluna og afgreiðslufólkið hefur sleppt sloppunum og er komið í voðalega fína einkennisbúninga.

Umræðan hefur þó reglulega farið fram og einn og einn bjarteygur maður í stuttbuxum tekið málið upp á hinu háa Alþingi. Alltaf með sömu afleiðingum; vísindamenn, læknar, stúkumenn, fyrrverandi drykkjumenn og aðrir sérfræðingar spretta upp eins og gorkúlur og þruma yfir þjóðinni: „Þið munuð öll, þið munuð öll, þið munuð öll – deyja. Þið munuð stikna, þið munuð brenna, þið munuð stikna, þið munuð …“ Nei, það var víst einhver annar sem sagði það – en boðskapurinn er sá sami.

Á sama tíma er hægt að fullyrða að flestir alþingismenn og ráðherrar í ríkisstjórn Íslands hafi einhvern tíma keypt sér einn eða tvo bjóra eða jafnvel rauðvínsflösku í sjoppu erlendis og ábyggilega ekki lesið aumingja afgreiðslumanninum pistilinn og kallað þjóð hans barbaríska; það er að segja allir nema þingmenn Viðreisnar, sem manni skilst, af fréttum vikunnar að dæma, að séu allir meira og minna góðtemplarar.

En nú hriktir allt í einu í stoðum þessa steinmeitlaða kerfis, eftir að einhverjir æringjar á netinu, þeirri helvítis bólu, fóru að selja bjór og vín og smeygðu sér, að því er virðist, framhjá löggjöfinni með því að koma sér upp varnarþingi erlendis. Já, nú reynir á löggjafann. Hvað mun hann gera?