Flottar Roberta sem Bobbie Michelle, með Gógó Starr í rauðu dressi.
Flottar Roberta sem Bobbie Michelle, með Gógó Starr í rauðu dressi. — Ljosmynd/Laimonas Dom
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Börlesk-samfélagið okkar hér á Íslandi er mjög þétt og við erum mörg sem komum að þessum viðburði. Börlesk er gróskumikil jaðarsviðslistasena, þetta er fjölbreytt sviðslistaform þar sem húmor, kynþokki, satíra og glæsileiki eru við völd

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Börlesk-samfélagið okkar hér á Íslandi er mjög þétt og við erum mörg sem komum að þessum viðburði. Börlesk er gróskumikil jaðarsviðslistasena, þetta er fjölbreytt sviðslistaform þar sem húmor, kynþokki, satíra og glæsileiki eru við völd. Þetta er bræðingur af dansi, frásagnarlist og þokka,“ segir Roberta Michelle Hall, sem heldur utan um og tekur þátt í viðburði á Listahátíð í dag, laugardag, undir nafninu Yfirtaka: Burlesque.

„Viðburðurinn er hluti af Klúbbnum, sem er einn angi Listahátíðar og fer fram í Iðnó, en á vegum Klúbbsins eru jaðarlistaviðburðir mjög svo lifandi og skapandi kraftur. Börlesk tekur Iðnó yfir í tólf klukkutíma í dag, við verðum með sex vinnustofur og allt ókeypis. Öll fullorðin mega mæta, helst yfir tuttugu ára því heili fólks þarf að vera fullmótaður til að koma til okkar og hafa gaman. Við verðum með vinnustofur fyrir mismunandi anga börlesk og öll námskeiðin eru hugsuð fyrir þá sem þekkja lítt til börlesk en hafa áhuga á að kynnast þessu. Markmið okkar er að kynna sem flestum þetta sístækkandi listform hér á landi. Við vorum nýlega kölluð nýja rokksenan á Íslandi.“

Listform frá átjándu öld

„Við mælum með að áhugasamir mæti og upplifi, til að ákveða hver fyrir sig hvað þetta er, því þetta er svo margt. Börlesk er fyrst og fremst glens og grín til að fagna mannslíkamanum í öllum sínum fyndnu og fallegu formum. Oft þegar fólk talar um erótík og kynþokka þá er það svo alvarlegt, en að vera sexí getur verið mjög fyndið og asnalegt. Við í börlesk-senunni gerum grín að því, en leyfum okkur að vera kynþokkafull á sama tíma. Börlesk er gamalt listform, frá átjándu öld, en upphaflega var það hinsegin fólk sem byrjaði með börlesk og þróaði þetta listform. Fólk sem upplifði sig utan normsins fann í börleskinu leið til að gera grín að hlutverkum fólks og steríótýpum. Börlesk hefur náð miklum vinsældum en líka dottið niður, en undafarin tíu til fimmtán ár hefur verið mikil upprisa í börleski um allan heim. Margrét Erla Maack kom með börleskið til Íslands frá New York og senan hefur vaxið og dafnað hér. Margrét Erla verður einmitt með vinnustofu í dag þar sem hún fer yfir sögu börlesk, kennir grunnsporin og talar um sálina í börleskinu, sem er stærsti hlutinn af þessu öllu saman.“

Læra að búa til brjóstadúska

„Einnig verður vinnustofa í stríðnum stóladansi, sem Ava Gold sér um, en það er kabarett-stóladans með sexí-ívafi. Á annarri vinnustofu verður farið í búningagrunn börlesk, hvernig hægt er að búa til eitthvað úr næstum engu, því það getur verið erfitt að nálgast efni. Ava Gold sér líka um búningavinnustofuna, en þetta er hugsað fyrir fólk sem vill læra að redda sér og gera eitthvað flott fyrir lítinn pening. Við ætlum að kenna hvernig hægt er að búa til brjóstadúska, en ég tek fram að við erum ekki með neina kröfu um að fólk komi klætt með einhverjum hætti eða klæði sig úr. Ein vinnustofan snýst um leikmuni og propps, sem er mín sérgrein en ég er húlladansari. Í börlesk notum við líka mikið fjaðraskraut, eins og trefil um hálsinn. Stráklesk, eða það sem kallað er „boylesque“ á ensku, er einn skemmtilegur angi og ein vinnustofa verður í því formi. Þá nota strákar sinn kynþokka uppi á sviði, en við leikum okkur mikið með steríótýpur, fögnum þeim á sama tíma og við gerum grín að þeim. Stráklesk er ekki bara fyrir stráka, heldur fyrir fólk sem upplifir sig allskonar og vill fagna karlmannlegu hliðinni sem í því býr.“

Ósýnilegar á ákveðnum aldri

„Vinnustofan Útgeislun á öllum aldri verður í umsjón Silver Foxy, en hún er elsta börlesk-drottningin á Íslandi, rúmlega sextug. Konur upplifa sig oft ósýnilegar þegar þær eru komnar yfir ákveðinn aldur, þeim finnst þær ekki lengur flottar eða sexí. Mér finnst ótrúlega mikilvægt að fólk á öllum aldri leyfi sér að vera sýnilegt, taki pláss. Silver Foxy er oft sagt að hún sé hugrökk að koma fram á sviði í börlesk-sýningum, og við Margrét Erla fáum líka oft að heyra það, þó við séum yngri en hún, af því við erum feitar. Málið er að hugrekki er mörg lítil skref og Silver Foxy er góð fyrirmynd fyrir aðra. Hún hefur fundið mikið öryggi í sjálfri sér með því að leyfa sér að vera kynþokkafull, en þó ekki á alvarlegan hátt. Hún gerir það í gleði og gríni. Í lok dags verður svo hægt að fara á trúnó með kennurum dagsins, í listamanna-panel þar sem fólk getur spurt og forvitnast.

„Deginum ljúkum við með glænýrri börlesk-sýningu þar sem fremsta listafólk senunnar mun trylla áhorfendur. Við erum mjög spennt og okkur finnst rosalega gaman að dreifa börlesk-boðskapnum sem víðast. Fólk kemur til okkar eftir sýningar og hrósar okkur og margir segja að sýningarnar hafi verið öðruvísi en það bjóst við. Fólki finnst þetta upplyftandi og valdeflandi, en okkur finnst einmitt frábært að fólk taki með þeim hætti mikið með sér heim. Við njótum þess líka öll að koma fram og gleðja fólk,“ segir Roberta og tekur fram að börlesk-drottningin Ava Gold hafi verið hennar hægri hönd við undirbúning dagsins. Nánar um dagskrá og skráning á Facebook-viðburðasíðu: Yfirtaka-Burlesque.