Ólafsvík Listaverk sett upp í tilefni af 30 ára afmæli Snæfellsbæjar.
Ólafsvík Listaverk sett upp í tilefni af 30 ára afmæli Snæfellsbæjar. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Útilistaverk með mynd eftir Erró verður á næstu vikum sett upp í Ólafsvík. Er það gert í tilefni 30 ára afmælis Snæfellsbæjar. Þar í bæ, á svonefndu Sái nærri hafnarsvæðinu, hefur verið settur upp forsteyptur veggur sem er alls 16 fermetrar og lætur nærri að verkið þeki allan þann flöt

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Útilistaverk með mynd eftir Erró verður á næstu vikum sett upp í Ólafsvík. Er það gert í tilefni 30 ára afmælis Snæfellsbæjar. Þar í bæ, á svonefndu Sái nærri hafnarsvæðinu, hefur verið settur upp forsteyptur veggur sem er alls 16 fermetrar og lætur nærri að verkið þeki allan þann flöt. Verkið er samsett úr flísum framleiddum í Portúgal, en þær mynda verk eftir Erró sem er væntanlega þekktasti myndlistarmaður Íslendinga fyrr og síðar.

„Við viljum halda því á lofti að hér fæddist Erró, þó vissulega hafi hann ekki verið hér nema allra fyrstu árin,“ segir Kristinn Jónason, bæjarstjóri í Snæfellsbæ, í samtali við Morgunblaðið. Þar vestra setti fólk sig í samband við Erró og lýsti áhuga sínum á að skerpa á tengslum hans við bæinn. Listamaðurinn brást vel við því og sendi Snæfellingum afrit af fimm myndum sínum sem til greina kæmu. Ein var valin úr og sú sett á flísar, eins og að framan greinir.

Áformað er að veggurinn góði og umhverfi hans verði tilbúið um næstu mánaðamót. Stefnt er svo á að afhjúpa listaverkið í júlímánuði.
Guðmundur Guðmundsson, Erró, er fæddur í Ólafsvík árið 1932. Með móður sinni fluttist hann svo barnungur austur á Kirkjubæjarklaustur og var þar fram á unglingsár. Var þá kominn á sporið í listinni og hélt ungur utan til náms. Hann hefur í áratugi búið í París, borg heimslistanna, en alltaf haldið góðum tengslum við Ísland.