Afreksstjóri Vésteinn Hafsteinsson
Afreksstjóri Vésteinn Hafsteinsson — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Hákon Þór er þriðji íslenski keppandinn sem staðfest er að taki þátt í Ólympíuleikunum í París. Sundmaðurinn Anton Sveinn McKee hafði áður tryggt sæti sitt með því að ná ólympíulágmarki auk þess sem Guðlaug Edda Hannesdóttir þáði boðssæti í þríþraut

Hákon Þór er þriðji íslenski keppandinn sem staðfest er að taki þátt í Ólympíuleikunum í París. Sundmaðurinn Anton Sveinn McKee hafði áður tryggt sæti sitt með því að ná ólympíulágmarki auk þess sem Guðlaug Edda Hannesdóttir þáði boðssæti í þríþraut. Enn mun bætast í hóp íslenskra þátttakenda.

„Eins og staðan er núna förum við aldrei með færri en fimm þátttakendur. Reglurnar í frjálsíþróttunum eru þannig að við fáum alltaf einn inn á kvóta hvað sem verður,“ sagði Vésteinn Hafsteinsson, afreksstjóri ÍSÍ, í samtali við Morgunblaðið.

„Snæfríður Sól Jórunnardóttir er mjög líklega að fara. Það er svona 99 prósent öruggt vegna þess að hún fer eiginlega á kvennakvóta.

Það þarf að taka bæði karl og konu inn í sundinu þannig að hún þarf ekki að ná lágmarki. En hún er það góð að hún er í topp 16 í heiminum,“ útskýrði Vésteinn.

Hann bindur hins vegar vonir við að íslenski hópurinn samanstandi af fleiri en fimm þátttakendum þegar upp er staðið og lítur þar sérstaklega til frjálsíþrótta.

Fjórir úr frjálsum íþróttum

„Ef ég fer yfir stöðuna hjá frjálsíþróttafólkinu taka leikarnir inn topp 32 í heiminum í tæknigreinum.

Hilmar Örn Jónsson er númer 32 í sleggjukasti og ég geri ráð fyrir því að hann fari. Erna Sóley Gunnarsdóttir er númer 34 í kúluvarpinu og ég geri líka ráð fyrir því að hún fari.

Síðan er það Guðni Valur Guðnason í kringlukastinu. Hann er meiddur og er númer 35 og ég tel að það sé svona 50 prósent möguleiki á að hann fari út af þessum meiðslum. Næsta nafnið á eftir Guðna er Elísabet Rut Rúnarsdóttir í sleggjukasti, hún er númer 38 og á möguleika.

Síðan er Daníel Ingi Egilsson í langstökkinu. Þó að hann sé númer 61 á þessum lista þarf hann aðeins tvö mót í viðbót á 7,90 metrum og þá er hann bara að banka á dyrnar, sem er mjög spennandi.

Svo er það Sindri Hrafn Guðmundsson í spjótkasti. Hann þarf eitt eða tvö mót í kringum 79-80 metra, þá er hann líka að nálgast.

Af þeim níu í frjálsíþróttum sem koma til greina býst ég við að við förum með fjóra. Þannig að það yrðu fjórir frjálsíþróttamenn, tveir sundmenn auk þríþrautar og skotfimi.

Þá er þetta orðinn átta manna hópur, sem er helmingi meira en síðast. Þetta er betra íþróttafólk en við fórum með síðast þannig að þetta lítur alveg sæmilega út,“ sagði Vésteinn.

Búin að fá tvö nei

Alls var sótt um sex boðssæti fyrir leikana. Beiðnir fyrir Hákon Þór og Guðlaugu Eddu hafa verið samþykktar, tveimur beiðnum hefur verið hafnað og beðið er eftir svari vegna tveggja umsókna til viðbótar.

„Við erum búin að fá tvö nei, hjá Valgarði Reinhardssyni í fimleikum og Ingibjörgu Erlu Grétarsdóttur í tækvondó. Við erum að bíða eftir tveimur svörum til viðbótar, fyrir Svönu Bjarnason í klifrinu og Eygló Fanndal Sturludóttur í kraftlyftingum. Við bíðum eftir þeim svörum og þau berast mjög fljótlega,“ sagði hann. gunnaregill@mbl.is