Afli Byggðakvóta er ætlað að stuðla að jákvæðri byggðaþróun en ræður ekki úrslitum í mörgum tilvikum.
Afli Byggðakvóta er ætlað að stuðla að jákvæðri byggðaþróun en ræður ekki úrslitum í mörgum tilvikum. — Morgunblaðið/Eggert
Ómar Friðriksson omfr@mbl.is

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Gera þarf veigamiklar breytingar á úthlutunarkerfi almenns byggðakvóta eigi hann að vera starfræktur áfram. Fyrirkomulagið er úr sér gengið. Þetta er álit Ríkisendurskoðunar sem hefur lokið stjórnsýsluúttekt á ráðstöfun byggðakvóta, sem var kynnt stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis í gær.

„Útilokað hefur verið að meta árangur af ráðstöfun almenns byggðakvóta við núverandi fyrirkomulag og ekkert er hægt að segja til um hvort framkvæmdin samræmist þeim markmiðum sem stefnt var að í upphafi. Fyrir það fyrsta er um áratuga gamalt kerfi að ræða sem hefur ekki tekið mið af þeim samfélagsbreytingum sem orðið hafa, s.s. nýjum vaxtarbroddum í atvinnulífi,“ segir í niðurstöðum úttektar Ríkisendurskoðunar.

Bent er meðal annars á að úthlutunarreglur almenns byggðakvóta hafi tekið mjög litlum breytingum frá upphafi. Í þeim séu engir mælikvarðar á hagkvæmni, skilvirkni eða árangur.

„Um mikil verðmæti er að ræða með úthlutun almenns og sértæks byggðakvóta eða allt að nærri fimm [milljarðar króna] á ári hverju en á tímabilinu frá 2018-2023 var tæplega 50.000 þorskígildistonnum úthlutað eftir þessum leiðum. Byggðakvóta er ætlað að stuðla að jákvæðri byggðaþróun en ljóst er að í mörgum tilvikum ræður hann einn og sér ekki úrslitum í þeim efnum. Úthlutaður kvóti er í raun og veru hlutfallslega lítill fyrir flest byggðarlög. Það gildir sérstaklega um almenna byggðakvótann,“ segir í tilkynningu Ríkisendurskoðunar um niðurstöður stjórnsýsluúttektarinnar.

Bent er á að reglugerð um úthlutun til byggðarlaga hefur verið nær óbreytt í hartnær 20 ár „og matvælaráðherra hefur frá árinu 2016 ekki sinnt lagaskyldu um að leggja, eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti, fram tillögu til þingsályktunar um meðferð og ráðstöfun 5,3% aflamagns. Af hálfu starfsfólks ráðuneytisins hefur samt verið reynt að koma slíkum tillögum inn á þingmálaskrá. Ákvæði laganna um að gera skuli áætlun um nýtingu til sex ára fela í sér nauðsyn þess að leggja fram tiltekna stefnu, þ.m.t. um aukið gegnsæi og fyrirsjáanleika hvað varðar veiðar og vinnslu,“ segir í skýrslunni.

Skilyrðin flókin

Byggðakvóti skiptist í almennan byggðakvóta og svo sértækan byggðakvóta sem Byggðastofnun sér um að úthluta. Ríkisendurskoðun bendir m.a. á að þrátt fyrir að ákveðin stefna um almenna byggðakvótann komi fram í reglugerð skorti á atriði er varða bæði ráðstöfun í potta og úthlutun til byggðarlaga. Þá séu skilyrði um úthlutun um margt flókin. Á tímabilinu 2018/2019 til 2022/2023 var alls úthlutað tæpum 50 þúsund þorskígildistonnum og fékk 51 byggðarlag almennan byggðakvóta en sértæki byggðakvótinn rann til tólf byggðarlaga, sem einnig hafa fengið úthlutað úr almenna kerfinu. Byggðakvótinn hafi því reynst sumum byggðarlögum afar mikilvægur.

Hins vegar sé úthlutaður kvóti í raun og veru hlutfallslega lítill fyrir flest byggðarlög. T.d. hafi 13 byggðarlögum verið úthlutað hverju og einu innan við 100 þorskígildistonnum á fimm ára tímabili. „Getur nærri að slíkt ræður ekki úrslitum um uppbyggingu vinnslu og veiða í viðkomandi byggðarlögum. Á hinn bóginn fengu fjögur byggðarlög hvert og eitt úthlutað yfir 1.000 þorskígildistonnum í almennum byggðakvóta á sama tímabili, að viðbættum sértækum byggðakvóta. Í þeim tilvikum er kvótastærð orðin umtalsverð og farin að skipta verulegu máli.“

Þörf sé á að gaumgæfa þann mun sem hafi orðið á þróun almenna og sértæka kerfisins miðað við þann tilgang sem þeim er ætlaður í lögum „og þar hefur almenna kerfið raunar dagað uppi með nánast algerri stöðnun“, segir í skýrslunni.

„Ítarleg rök hníga að því að ástæða sé til að endurskoða samspil kerfanna, skera byggðakvótakerfið alveg upp og sameina almenna hlutann þeim sértæka. Jafnframt verði hlutverkaskipan um úthlutun endurskoðuð og dregið úr því að matvælaráðuneyti komi að starfrækslu úthlutunarkerfis og því þess í stað beint í auknum mæli að Byggðastofnun, og eftir atvikum Fiskistofu, með tæknilegri útfærslu,“ segir m.a. um breytingar sem þurfi að gera.

Beinir stofnuni því m.a. til matvælaráðuneytisins að það þurfi að sinna lagaskyldu sinni. Endurskoða þurfi úthlutunarkerfi almenns byggðakvóta frá grunni og kröfur og skilyrði úthlutunar. Þá er því beint til Byggðastofnunar og Fiskistofu að verklagsreglur þurfi að endurspegla framkvæmd úthlutunar og eftirlit með nánari hætti.