[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nuri Sahin var í gær ráðinn knattspyrnustjóri Borussia Dortmund í Þýskalandi, í stað Edins Terzic sem hætti störfum í fyrradag. Sahin hafði verið aðstoðarmaður hans síðan í desember

Nuri Sahin var í gær ráðinn knattspyrnustjóri Borussia Dortmund í Þýskalandi, í stað Edins Terzic sem hætti störfum í fyrradag. Sahin hafði verið aðstoðarmaður hans síðan í desember. Sahin er 35 ára Tyrki, fæddur í Þýskalandi og lék 52 landsleiki fyrir Tyrkland, en hann ólst upp hjá Dortmund og lék með aðalliði félagsins í samtals ellefu ár.

Fleira gerðist hjá Dortmund í gær því varnarmaðurinn reyndi Mats Hummels yfirgaf félagið eftir að hafa spilað með því í samtals þrettán ár. Hann er 35 ára gamall og óvíst hvað hann tekur sér fyrir hendur.

Ísland sigraði Síle, 32:20, í fyrsta leiknum á alþjóðlegu móti U20 ára landsliða kvenna í handknattleik sem hófst í Skopje í Norður-Makedóníu í dag. Íslenska liðið býr sig undir heimsmeistaramótið í þessum aldursflokki sem hefst í Skopje 19. júní en þar verður liðið í riðli með Angóla, Bandaríkjunum og Norður-Makedóníu. Sonja Lind Sigsteinsdóttir skoraði átta mörk fyrir Ísland en Elín Klara Þorkelsdóttir skoraði sex mörk. Þar á eftir kom Inga Dís Jóhannsdóttir með fimm.

Handknattleiksmaðurinn Sigurvin Jarl Ármannsson hefur samið við ÍR til tveggja ára en hann hefur leikið með HK undanfarin sex ár. Sigurvin er 27 ára gamall örvhentur hornamaður.

Atli Steinn Arnarson hefur samið við handknattleiksdeild Gróttu til tveggja ára. Hann er tvítug skytta sem kemur frá FH og var í láni hjá HK hluta síðasta tímabils en Atli er í U20 ára landsliði Íslands.

Átta Íslendingar keppa á Norðurlandamótinu í fjölþrautum á ÍR-vellinum í dag og á morgun. Birnir Vagn Finnsson og Ísak Óli Traustason keppa í tugþraut karla, Brynja Rós Brynjarsdóttir, Júlía Kristín Jóhannesdóttir og María Helga Högnadóttir í sjöþraut U20 stúlkna, Ísold Sævarsdóttir í sjöþraut U18 stúlkna og þeir Hjálmar Vilhelm Rúnarsson og Thomas Ari Arnarsson í tugþraut U18 drengja.

Séamus Coleman, fyrirliði enska úrvalsdeildarfélagsins Everton og írska landsliðsins í knattspyrnu, hefur framlengt samning sinn við Everton um eitt ár. Coleman hefur leikið með liðinu frá árinu 2009, þegar hann kom frá írska liðinu Sligo Rovers, og er á leið á sitt sextánda tímabil hjá félaginu en hann á að baki 422 mótsleiki fyrir Everton, þar af 364 leiki í úrvalsdeildinni.