Bill Hansson og Peter Mombaerts í Hörpu.
Bill Hansson og Peter Mombaerts í Hörpu. — Morgunblaðið/Eyþór Árnason
Þú getur ímyndað þér hversu víðtæk umræðuefnin eru, það nær til dæmis frá mér sem sérhæfi mig í lyktarskyni skordýra, að gerð ilmvatna og matar eða víns. Allt mögulegt sem varðar það að greina lykt.

Bill Hansson og Peter Mombaerts eru einir fremstu sérfræðingar heims í lyktarskyni. Þeir voru staddir á Íslandi vegna ráðstefnu sem þeir taka þátt í að skipuleggja, sem er sú stærsta í heiminum á sviði lyktar- og bragðskyns. Ráðstefnan verður haldin í Hörpu dagana 22. – 26. júní og um 750 manns munu mæta til þess að fræðast um mismunandi rannsóknir og efni tengt lyktarskyni.

Bill Hansson er sænskur taugasérfræðingur með doktorsgráðu í vistfræði. Hann hefur starfað sem prófessor við Háskólann í Lundi og sænska Landbúnaðarháskólann. Árið 2006 var hann ráðinn til Max Planck-stofnunarinnar, stærstu rannsóknarstofnunar Þýskalands. Max Planck er vel þekkt og virt stofnun sem hefur alið af sér ótal Nóbelsverðlaunahafa.

Peter Mombaerts er einnig meðlimur Max Plack-stofnunarinnar, en hann er sérfræðingur í lyktarskyni manna og músa. Hann er fæddur í Belgíu en hlaut doktorsgráðu í Massachusetts Institute of Technology, og Cambridge-háskóla, í líffræði og ónæmisfræði. Síðar hlaut hann doktorsgráðu í Columbia-háskóla.

Víðtæk umræðuefni

Blaðamaður náði tali af Bill Hansson og Peter Mombaerts er þeir voru á Íslandi að undirbúa ráðstefnuna og fékk að heyra um svið þeirra og störf, sem og efni ráðstefnunnar.

„Þetta er stærsta ráðstefna heims á sviði lyktar- og bragðskyns. Um það bil 750 manns munu mæta, sem allir vinna á þessu sviði eða hafa einfaldlega áhuga á efninu. Það verða ræðumenn frá 30 löndum. Þú getur ímyndað þér hversu víðtæk umræðuefnin eru, það nær til dæmis frá mér sem sérhæfi mig í lyktarskyni skordýra, að gerð ilmvatna og matar eða víns. Allt mögulegt sem varðar það að greina lykt,“ segir Bill Jansson þegar hann er spurður út í ráðstefnuna. Hún sameinar vísindamenn frá Evrópu, Bandaríkjunum og Japan og er vel þekktur viðburður á þeirra sviði.

„Fyrsti dagur ráðstefnunnar er eingöngu klínískur,“ heldur Bill áfram. „Hann mun snúast um það hvernig fólk missir lyktarskyn vegna covid-sjúkdómsins og hvernig sérfræðingar rannsaka og takast á við afleiðingarnar. Síðan munu þrír ræðumenn taka til máls, sá fyrsti er Kári Stefánsson.“ Kári er forstjóri íslenskrar erfðagreiningar, en hann var í fremstu víglínu baráttunnar við covid-faraldurinn hér á landi.

Sérstakur angi ráðstefnunnar mun snúast um þau áhrif sem covid-sjúkdómurinn hafði á lyktar- og bragðskyn fólks. Í sumum tilfellum fann fólk hvorki lykt né bragð í nokkurn tíma, en í öðrum tilfellum var ástandið varanlegt og enn í dag glímir fólk við einkenni sjúkdómsins.

„Þessi ráðstefna á sér aðeins stað á fjögurra ára fresti og við erum virkilega ánægðir með að hún sé nú haldin á Íslandi. Fólk er spennt að fá að koma hingað. Einnig er þetta góð auglýsing fyrir Ísland, og setur það á kortið fyrir sérfræðinga á þessu sviði.“

Þetta er þó einungis lítill hluti þess sem verður fjallað um á ráðstefnunni.

„Annar ræðumaður ráðstefnunnar er Leslie Vassholl, en hún er sérfræðingur í moskítóflugum og hvernig þær nota lykt til að finna okkur,“ segir Bill. Vassoll vann nýlega að rannsókn þar sem hún gaf út að moskítóflugur sæktu frekar í sumt fólk en annað – og ástæðan væri lyktin af húð þeirra.

Þriðji ræðumaður verður Stefan Hell Nóbelsverðlaunahafi. „Stefan er tæknimaðurinn. Hann umbylti viðmiðum um hversu smá fyrirbæri er hægt að sjá í smásjá og þróaði tækni sem gjörbreytti þessu sviði vísindanna því nú er unnt að sjá það sem áður var ósýnilegt berum augum.“

Stefan Hell er einnig forstjóri Max Planck-stofnunarinnar, þar sem Bill og Peter eru meðlimir.

Ísland góður staður

Bill og Peter tala vel um Ísland. „Ísland er fallegt og framandi land. Það er einnig góður staður til að sameina heimsálfur, það er tiltölulega auðvelt að ferðast hingað. Til dæmis fljúgum við hingað frá Evrópu og það er sama vegalengd fyrir okkur og fólk sem sækir ráðstefnuna frá Bandaríkjunum. Það er aðeins lengra fyrir fólk sem kemur alla leið frá Japan, en samt miðsvæðis.“ Þeir útskýra einnig að ráðstefnan er aðeins haldin á fjögurra ára fresti og skiptast þá Evrópa, Bandaríkin og Japan á að halda hana. Hún er í raun einungis haldin í Evrópu á 12 ára fresti og þeim fannst Ísland góður og spennandi áfangastaður. Í heimsókn sinni notuðu þeir tækifærið og flugu yfir eldgosið sem hófst 29. maí, og fannst það stórkostleg upplifun.

Þeir snúa aftur að covid og hvernig sjúkdómurinn hafði langvarandi áhrif á suma. „Í mars árið 2020 byrjaði ég að rannsaka lyktarskyn mannsins,“ segir Peter. „Ég og félagi minn unnum að stórri rannsókn á um 1.500 einstaklingum sem höfðu látist vegna covid, og reyndum að finna ástæður þess að sumt fólk með sjúkdóminn missti lyktar- og bragðskyn. Ástæðan er í raun enn óljós.“

Peter talar ennfremur um langvarandi áhrif sjúkdómsins.

„Það eru um 5-10% af þeim sem fundu fyrir skerðingu á lyktar- og bragðskyni sem hafa enn ekki jafnað sig. Því er fötlunin algengari en flestir gera sér grein fyrir, að sumu leyti vegna þess að fjölmiðlar fjalla ekki mikið um þessa staðreynd. Það er líklega vegna þess að almenningur gerir sér ekki grein fyrir því hversu mikill skortur á lífsgæðum þessi fötlun er.“

Peter minnist einnig á áhugaverða staðreynd: „Þegar horft er á fólk sem finnur enn fyrir skerðingu á lyktar- og bragðskyni vegna covid, eru það fleiri konur en karlar. Ástæðan fyrir þessu er þó einnig óljós.“

Skerðing á lífsgæðum

„Það sem er líka áhugavert er að þetta árið verðum við með hóp sjúklinga sem munu koma fram á ráðstefnunni, sem hafa sjálfir misst bragð- og lyktarskyn,“ segir Bill. „Þetta er í fyrsta sinn í sögu ráðstefnunnar sem þetta er gert, og er þetta fólk allt mismunandi. Stór hópur missti sitt lyktar- og bragðskyn vegna covid, en sumir vegna annarra orsaka, til dæmis slysa. Við fáum að heyra raunsögur frá þeim og þeirra lífi.“

Hvernig haldið þið að þetta hafi áhrif á líf fólks, að geta hvorki fundið lykt né bragð?

„Það hefur ótrúleg áhrif á líf fólks. Það sem er einkennandi við covid-sjúkdóminn er að hann þróar með sér parosmias – sem brenglar lyktarskyn. Það er vanalega kaffi, kjöt og laukur sem fólkið finnur virkilega vonda lykt af. Og þetta er eitthvað sem almenningur tekur ekki endilega mark á, en staðreyndin er sú að fólk sem hefur þróað með sér þetta einkenni getur ekki farið á kaffihús, veitingastaði, í matarboð og fleira.“ Peter segir að vond lykt sé í raun allt of væg lýsing fyrir þetta hugtak, en fullyrðir að það sé verulega hamlandi og hafi mikil áhrif á líf fólks.

Þeir segja að það hafi einnig áhrif á tengsl við fólk.

„Foreldrar eiga stundum erfitt með að mynda tengsl við nýfædd börn sín, vegna þess að þau finna ekki lyktina af þeim. Eða mynda tengsl við maka sinn. Við notum lyktarskyn okkar mikið meira en fólk áttar sig á,“ segir Bill.

Þeir halda áfram að tala um covid. „Fleiri aukaverkanir covid-sjúkdómsins eru svokölluð „heilaþoka“ (e. brain fog), þar sem fólk upplifir hugsanir sínar óskýrar og á erfitt með að einbeita sér.“ Það eru því fjölmargar aukaverkanir covid-sjúkdómsins sem fólk er að glíma við enn í dag.

Bill og Peter útskýra hvernig erfiðasti hluti einkenna getur oft verið sú staðreynd að gert er lítið úr þeim meðal sérfræðinga og almennings. Sjúklingar fá oft litla sem enga hjálp, þar sem það er í raun engin lækning við ástandinu. Þeim sé því oft vísað á bug af læknum, sem átta sig kannski ekki á alvarleika þess að lifa með aukaverkununum. „Ástandið leiðir oft til geðrænna vandamála, og það er ekkert vitað um mögulega meðhöndlun eða lækningu.“

Bill og Peter nefna þó hvernig taugafrumurnar endurnýist stanslaust. „Það er því verulega áhugavert að sjúkdómurinn hafi þessi áhrif,“ segir Peter. En það þýðir þó að þess vegna sé von fyrir það fólk sem glímir enn við afleiðingar covid-sjúkdómsins.

Báðir segjast þeir vongóðir um að það finnist lækning fyrir sjúklingana. Þeir nefna þá ráðstefnuna sem dæmi um aukinn skilning á sviði bragð- og lyktarskyns og þróun á rannsóknum. Einnig er mikilvægt að sýna skilning á þeim áhrifum sem þetta hefur á fólk og líf þess. Bill og Peter segja mikilvægt að fólk haldi í vonina og gefist ekki upp.