Útlendingafrumvarpið margrædda varð að lögum á fundi Alþingis í gær. Atkvæði féllu þannig að 42 þingmenn greiddu frumvarpinu jákvæði sitt, 5 greiddu atkvæði gegn og 10 sátu hjá. Þeir sem samþykktu frumvarpið voru þingmenn stjórnarflokkanna, ásamt þingmönnum Flokks fólksins og Miðflokksins

Útlendingafrumvarpið margrædda varð að lögum á fundi Alþingis í gær.

Atkvæði féllu þannig að 42 þingmenn greiddu frumvarpinu jákvæði sitt, 5 greiddu atkvæði gegn og 10 sátu hjá.

Þeir sem samþykktu frumvarpið voru þingmenn stjórnarflokkanna, ásamt þingmönnum Flokks fólksins og Miðflokksins. Fimm þingmenn Pírata greiddu atkvæði gegn frumvarpinu, að frátöldum Gísla Rafni Ólafssyni sem var fjarverandi. Viðstaddir þingmenn Viðreisnar og Samfylkingar sátu hjá, en Þórunn Sveinbjarnardóttir, Samfylkingu, var fjarstödd.

Á vef dómsmálaráðuneytisins segir að með frumvarpinu sé brugðist við hraðri þróun í málaflokknum og fordæmalausri fjölgun umsókna um alþjóðlega vernd. Breytingarnar sem frumvarpið mæli fyrir um miði að því að samræma lög um útlendinga við löggjöf í öðrum Evrópuríkjum, þá einkum á Norðurlöndunum, að bæta úr annmörkum og afnema séríslenskar málsmeðferðarreglur.