Jake Gyllenhaal hefur ekki í annan tíma reynt sig við burðarhlutverk í sjónvarpi.
Jake Gyllenhaal hefur ekki í annan tíma reynt sig við burðarhlutverk í sjónvarpi. — AFP/Dimitrios Kambouris
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Presumed Innocent er mjög áhorfsvænt efni og í raun einn besti lagatryllir sem boðið hefur verið upp á sjónvarpi um árabil.

Ég drap hana ekki! Ég drap hana ekki! Ég drap hana ekki!“

Fá dæmi eru um að sami maðurinn hafi látið téð orð falla jafn oft á jafn skömmum tíma og lögmaðurinn Rusty Sabich í stiklunni vegna flunkunýrra leikinna sjónvarpsþátta, Presumed Innocent, sem Apple TV+ hóf sýningar á í vikunni. En drap hann hana?

Það muna ugglaust einhverjir sem annað hvort hafa lesið skáldsögu Scotts Turows frá 1987 eða séð kvikmynd Alans J. Pakulas frá 1990, þar sem Harrison Ford fór með aðalhlutverkið. Nú er röðin komin að Jake Gyllenhaal en þetta er fyrsta stóra hlutverk þessa vinsæla leikara í sjónvarpi. Höfundur þáttanna er enginn annar en David E. Kelley, sem á að baki fjölda vinsælla þátta á umliðnum árum, svo sem Ally McBeal, Boston Legal og Big Little Lies.

Sabich er að njóta lífsins á frídegi með eiginkonu sinni og börnum heima í Chicago þegar honum berst símtal þess efnis að samstarfskona hans, Carolyn Polhemos, hafi verið myrt á hrottafenginn hátt. Honum bregður að vonum í brún enda var Polhemos þessi jafnframt ástkona hans – á laun.

Ríkissaksóknari fær Sabich upphaflega málið en þegar böndin fara að berast að honum sjálfum stígur hann að sjálfsögðu til hliðar. Inn kemur nýtt teymi, Nico Della Guardia og Tommy Molto, og tekur að þjarma að Sabich. Hann skynjar að járnin nálgast og áður en hann veit af er Sabich kominn fyrir dóm, ásakaður um morð.

Angist hans er dregin upp skýrum dráttum en einnig hans nánustu, að því er fram kemur í Variety, sem hrósar sjónvarpsgerðinni af Presumed Innocent fyrir að gera fjölskyldu hans einnig hátt undir höfði enda flæða tilfinningarnar víðar en hjá aðalsögupersónunni. „Á skjánum verða eiginkonur og börn oftar en ekki að undirmálsgreinum í lífi karlkyns aðalpersónunnar en hér er fjölskylda Rustys vandlega ofin inn í söguna enda hefur hroki hans og sjálfhverfa mest áhrif á þau,“ segir Variety.

Blaðið segir þættina raunar bjóða upp á annað sjónarhorn en kvikmyndin gerði á sínum tíma. Í grunninn sé sagan að sjálfsögðu sú sama en kynslagsíðan sem var að sliga myndin sé hér fyrir bí. „Þess í stað eru kvenpersónurnar, þeirra á meðal Carolyn, Barbara, eiginkona Rustys, og aðalrannsakandinn, Alana Rodriguez rannsóknarlögreglumaður, þrívíðar og hugsandi konur, sem allar líða fyrir órvæntingarfullar ákarðanir Rustys.“

Variety segir Gyllenhaal líka nálgast hlutverk Sabich á allt annan hátt en Ford gerði í myndinni. Sá síðarnefndi hafi verið stóískur í sinni krísu, eins og persónur Fords voru gjarnan á þeim árum, en í meðförum Gyllenhaals sé Sabich örvæntingin uppmáluð og eigi vont með að láta ömurlegar ákvarðanir sínar stemma við myndina sem hann hefur komið sér upp út á við. Þá eigi áhorfendur ábyggilega eftir að lenda í miklum vandræðum með að ákveða hvort þeir eigi að halda með honum eða hreinlega hata hann. Loks taki sagan oftar en ekki óvænta stefnu.

Fyrir vikið kemst Variety að eftirfarandi niðurstöðu: „Presumed Innocent er mjög áhorfsvænt efni og í raun einn besti lagatryllir sem boðið hefur verið upp á sjónvarpi um árabil.“

Takk fyrir, túkall!

Versta manneskja í heimi

Það eru Ruth Negga (Barbara Sabich), Renate Reinsve (Polhemus) og Nana Mensah (Rodriguez) sem spreyta sig á þessum bitastæðu kvenhlutverkum, sem þegar hafa verið nefnd, en þarna eru líka Elizabeth Marvel og Lily Rabe. Af öðrum l körlum sem koma við sögu má nefna Bill Camp, Peter Sarsgaard og O-T Fagbenle.

Við hljótum að staðnæmast sérstaklega við Reinsve enda er hún frænka okkar, frá Noregi. Hún var til þess að gera lítið þekkt utan heimahaganna þangað til hún sló rækilega í gegn í mynd Joachims Triers, Verdens verste menneske, árið 2021. Fyrir framgöngu sína þar var hún valin besta leikkonan á Cannes-hátíðinni og tilnefnd til BAFTA-verðlauna.

Allt er svo að gerast hjá Reinsve á þessu ári en fyrsta myndin sem hún leikur í á ensku, A Different Man eftir Aaaron Schimberg, sem ku vera svarthúmorskur sálfræðitryllir, kemur í öll betri kvikmyndahús í september. Svo er það auðvitað Presumed Innocent sem er það fyrsta sem Reinsve gerir í sjónvarpi utan Noregs.

Líklega nafn sem við ættum að leggja á minnið.

Ruth Negga er líka vaxandi stjarna í heimi kvikmynda og sjónvarps en hún er líklega þekktust fyrir túlkun sína á Mildred Loving sem bauð löggjöfinni um hjónabönd fólks af ólíkum kynþætti birginn seint á sjöunda áratugnum í myndinni Loving. Fyrir leik sinn þar var hún tilnefnd til Óskarsverðlauna.

Nú viljið áreiðanlega vita, nú eða eftir atvikum rifja upp, hvaða leikkonur fóru með þessi hlutverk í kvikmyndinni 1990. Sjálfsagt er að verða við því enda þið búin að gefa ykkur tíma til að lesa alla leið hingað. Greta Scacchi lék Polhemus og Bonnie Bedelia Barböru Sabich. Þá hét rannsóknalögreglumaðurinn ekki Alana Rodriguez heldur Dan Lipranzer og var karlkyns. John Spencer fór með hlutverk hans.

Höfundur bókarinnar, Scott Turow, er menntaður lögfræðingur og á að baki farsælan feril sem rithöfundur. Hann hefur skrifað 16 bækur, þar af 13 skáldsögur, sem selst hafa í meira en 30 milljónum eintaka og verið þýddar á meira en 40 tungumál. Þrjár aðrar bækur eftir hann hafa endað á hvíta tjaldinu, The Burden of Proof (1992), Reversible Errors (2004) og Innocent (2011), sem er einmitt framhald af Presumed Innocent. Þar er Rusty Sabich aftur dreginn fyrir dóm.