[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Óskar Bergsson oskar@mbl.is

Fréttaskýring

Óskar Bergsson

oskar@mbl.is

Fyrir verkefnastjórn rammáætlunar liggja nú 30 umsóknir um vindorkugarða. Samanlagt myndu þeir hafa um 550 vindmyllur. Fyrirhuguð orkuvinnslugeta garðanna er um 3.300 MW. Búið er að samþykkja tvo á vegum Landsvirkjunar, við Búrfell og Blöndu, sem munu skila 220 MW.

Qair sækir 800 MW

Franska orkufyrirtækið Qair er eitt þeirra fyrirtækja sem þróa nú og undirbúa vindorkugarða víða um land. Lögð er áhersla á svæði sem eru örugg gagnvart eldsumbrotum en meira en helmingur orkubúskapar landsins er á Reykjaneshryggnum og Þjórsár- og Tungnaársvæðinu. Umsóknarferlið er seinlegt og fyrirtækið bíður nú afgreiðslu rammaáætlunar um að eitthvað af þeim svæðum sem félagið er með í þróun komist í nýtingarflokk.

Ásgeir Margeirsson, stjórnarformaður Qair Ísland ehf., segir fyrirhugaða raforkuframleiðslu miðast bæði við íslenskan markað og iðnaðarnot, til dæmis framleiðslu á rafeldsneyti. Fyrirtækið er með nokkra staði fyrir vindorkuver í þróun. Þeir eru í Borgarfirði, Dölum, Húnavatnssýslum, Tjörnesi og í Meðallandi.

„Þegar allt er talið eru þetta um 800 megavött en það er eftir að koma í ljós hvað mörg af þessum verkefnum teljast fýsileg. Það eru fjölmargir þættir sem hafa áhrif á það, eins og leyfisveitingar, umhverfismat, rammaáætlun og hagkvæmni sem miðast meðal annars við tengingu flutningskerfa og þörf fyrir orkuna,“ segir Ásgeir.

Skapar tekjur fyrir bændur

Hvernig er með eignarhald á landi sem þið hyggist nýta til framleiðslunnar?

„Í nánast öllum tilvikum er um að ræða lönd í eigu einkaaðila og mest eru það bændur. Við höfum enga þörf fyrir að eiga land, heldur viljum við leigja af bændum og skapa þeim þannig tekjulind. Fyrir landeigendur sem leggja til land undir vindorkugarð geta þetta verið umtalsverðar tekjur og þær eru hlutfall af tekjum framleiðslunnar. Leigutími á landi er í kringum 30 ár en gert er ráð fyrir því að myllur sem byggðar eru í dag séu í rekstri í 25 ár og þá er það metið hvort þær eru teknar niður eða endurnýjaðar. Algengt er að fjarlægð milli vindmylla sé ekki undir 500 metrum.“

Ásgeir segir leyfisveitingarnar flókið ferli og fyrsta skrefið sé að komast inn í nýtingarflokk rammaáætlunar. Það hafi hins vegar tekið mun lengri tíma en æskilegt geti talist.

„Pólitíkinni hefur ekki tekist að halda þessu hjóli nógu vel gangandi. Við bíðum eftir næstu umferð rammaáætlunar til að fá svör við því hvort eitthvað af þeim verkefnum sem við erum með í skoðun komist í nýtingarflokk. Rammaáætlun þarf að vera skilvirkari þannig að umsóknaraðilar leggi ekki í of mikinn kostnað áður en svar fæst við því hvort verkefnið fái brautargengi eða ekki. Í einhverjum tilvikum er farið í umhverfismat áður en verkið hefur verið samþykkt í nýtingarflokk, en það er dýrt ferli og því væri æskilegt að rammaáætlunin kæmi fyrst. Reynslan af vindmyllum hefur verið góð hér á landi. Víða erlendis má reikna með 20-30% nýtingu en á Íslandi er nýtingin um 45% að jafnaði yfir árið.“

Hann telur að til þess að ná orkuskiptamarkmiðum þjóðarinnar þurfi að auka hér orkuframleiðslu. Vindorkan sé hagkvæmasti kosturinn án þess að það leiði til hækkunar á orkuverði.

„Þjóðaröryggismál að heimila virkjanir utan áhættusvæða“

Ásgeir leggur áherslu á öryggi þeirra svæða þar sem raforkuframleiðsla fer fram og bendir á að frá Reykjanesi að Henglinum séu nú framleidd um 700 megavött, auk umfangsmikillar heitavatnsframleiðslu. Þar geisi nú jarðeldar um ófyrirsjáanlega framtíð. Á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu séu framleidd um 1.000 megavött, sem gæti verið í hættu ef gýs í vestanverðum Vatnajökli, og þetta sé rúmlega helmingur af heildarorkuvinnslu landsins í dag.

„Svo ég tali hreint út: Af hverju vill fólk friða vatnsföllin í Skagafirði þar sem ekki er eldvirkni? Af hverju nýtum við ekki orkukostina utan eldvirka beltisins? Við þekkjum virkjunarsögu Kröflu og eldsumbrotanna þar. Nú erum við stödd í stöðugum eldgosum á Reykjanesi. Við verðum að horfa til virkjunarkosta á öruggari landsvæðum og fljótlegasta leiðin er sú að hleypa vindorkunni að, ef við ætlum að ná markmiðum okkar. Það er þjóðaröryggismál að heimila virkjanir utan þeirra svæða sem við nú treystum á,“ segir Ásgeir.

Rammaáætlun

Tvö verkefni samþykkt

Jón Geir Pétursson, formaður verkefnisstjórnar rammaáætlunar, segir að umsókn um leyfi fyrir vindorkugarða hefjist með því að sótt er um til Orkustofnunar, sem skilgreinir umsóknina og setur fram gagnakröfur. Orkustofnun fari yfir umsókn og skilgreini virkjunarkostinn til verkefnisstjórnar rammaáætlunar.

Verkefnistjórnin vinnur síðan greiningu og metur hvort tillagan fer í nýtingarflokk eða ekki og skilar því til ráðherra. Ráðherra leggur síðan málið fyrir Alþingi til samþykktar. Á meðan umsóknirnar eru í þessu ferli er það mat umsækjanda hversu langt hann gengur í undirbúningi og kostnaði við hönnun, umhverfismat, skipulagsbreytingar og fleira.

Alþingi hefur samþykkt tvö vindorkuverkefni í nýtingarflokk að fenginni tillögu verkefnisstjórnar rammaáætlunar. Það eru verkefni á vegum Landsvirkjunar við Búrfellslund og Blöndulund, samtals í kringum 220 MW.

Verkefnisstjórnin metur nú 10 vindorkukosti og gerir ráð fyrir því að skila tillögu til ráðherra í ágúst eða september.

Áætluð orkuvinnsla af þeim virkjunum sem sótt hefur verið um er 3.300 MW eins og fram kemur í meðfylgjandi töflu. Miðað er við að hver vindmylla sé á bilinu 5-7 MW. Ef gert er ráð fyrir 6 MW á hverja vindmyllu má áætla að vindmyllurnar verði 550.