Strákagöng Tíð skriðuföll eru í hlíðinni sem Siglufjarðarvegur liggur eftir, en þar eru Strákagöng.
Strákagöng Tíð skriðuföll eru í hlíðinni sem Siglufjarðarvegur liggur eftir, en þar eru Strákagöng. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Ólafur E. Jóhannsson oej@mbl.is

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Menn áttuðu sig á því að það var hreyfing á hlíðinni þegar vegurinn um Strákagöng var opnaður árið 1967,“ segir Gunnar Helgi Guðmundsson, svæðisstjóri Vegagerðarinnar á Norðursvæði, spurður um ástand vegarins um Strákagöng til Siglufjarðar.

Eins og sjá má á mynd á forsíðu Morgunblaðsins í dag er engu líkara en að fjallshlíðin sé að skríða í sjó fram.

„Það eru þrír sigdalir á 6 kílómetra kafla á þessu svæði og hlíðin er í raun á leið niður í sjó,“ segir hann.

Spurður um hvernig tekið sé á þessum málum, segir Gunnar Helgi að Vegagerðin sé með viðbragð á svæðinu. Settir hafi verið upp GPS-mælar sem vaktaðir eru í samstarfi við Háskólann og verði vart við verulegar færslur á hlíðinni og hætta talin vera á ferðum sé veginum lokað.

„Það er farið daglega í eftirlitsferðir, en svæðið er skilgreint þannig að það er alltaf á viðbúnaðarstigi. Ef mikið rignir er það ávísun á mikla hreyfingu á fjallshlíðinni,“ segir Gunnar Helgi.

„Það þýðir ekkert að færa veginn ofar í hlíðina, hún er öll á hreyfingu á þessum 6 kílómetra kafla,“ segir hann, spurður um hvað til bragðs megi taka.

„Þarna er engin önnur lausn í boði en jarðgöng sem eru reyndar í bígerð, þótt þau hafi ekki verið tímasett enn. Við erum að hanna nýjan Siglufjarðarveg sem liggja mun frá Stafá vestan við Fljótin að Lambanesi þar sem munni jarðganga mun væntanlega vera Fljótamegin. Jarðgöngin munu síðan liggja til Siglufjarðar. Undirbúningur hefur þegar farið fram, það eru til frumdrög að jarðgöngum þarna í gegn,“ segir Gunnar Helgi, en jarðgöngin sem hann vísar til yrðu tæplega 6 kílómetra löng.

En á meðan þau eru ókomin er svæðið vaktað reglulega, enda fjallshlíðin á stöðugri hreyfingu.

Í jarðgangaáætlun Vegagerðarinnar, sem gerð var á grunni samgönguáætlunar 2020 til 2034, er gerð tillaga að forgangsröðun jarðganga. Þar eru Siglufjarðarskarðsgöng í öðru sæti í röðinni, á eftir Fjarðarheiðargöngum.