ÓL 2024 Hákon Þór Svavarsson keppir í leirdúfuskotfimi með haglabyssu á Ólympíuleikunum í París og verður þar einn af 28 keppendum.
ÓL 2024 Hákon Þór Svavarsson keppir í leirdúfuskotfimi með haglabyssu á Ólympíuleikunum í París og verður þar einn af 28 keppendum. — Ljósmynd/ÍSI
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Tilfinningin er mjög góð. Þetta er búin að vera mikil bið eftir því að sjá hvernig þetta fari,“ sagði skotíþróttamaðurinn Hákon Þór Svavarsson, 46 ára Selfyssingur sem er á leið á sína fyrstu Ólympíuleika í næsta mánuði, í samtali við Morgunblaðið

Ólympíuleikar

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

„Tilfinningin er mjög góð. Þetta er búin að vera mikil bið eftir því að sjá hvernig þetta fari,“ sagði skotíþróttamaðurinn Hákon Þór Svavarsson, 46 ára Selfyssingur sem er á leið á sína fyrstu Ólympíuleika í næsta mánuði, í samtali við Morgunblaðið.

Hákon Þór mun á leikunum í París keppa í leirdúfuskotfimi með haglabyssu, eða „skeet“ á ensku. Alls eru 28 keppendur í greininni. Hann hefur unnið hörðum höndum að því að komast á Ólympíuleikana undanfarin misseri og fékk formlegt boð um þátttöku í vikunni. Alþjóðaólympíunefndin staðfesti svo þátttöku Hákonar Þórs á fimmtudag.

„Maður getur unnið sér inn pláss með því að komast í úrslit á alþjóðlegum mótum í þessari íþrótt. Þá máttu eiginlega ekki klikka á einu skoti þegar þú ert að skjóta 125 skotum. Ég er nú ekki alveg kominn þangað en svo var þetta boðssæti í boði.

Til þess að koma til greina þarftu að vera búinn að gera eitthvað af viti. Þeir hjá Alþjóðaskotsambandinu mæltu með mér. Þannig varð þetta til,“ sagði Hákon Þór um aðdragandann að því að hann fékk boðssæti.

Allt þetta púður í vitleysu?

Hákon Þór fékk veður af því að mælt hefði verið með honum fyrir boðssætið í upphafi þessa árs og því hefur biðin verið löng og ströng.

„Það var nú svolítið flókið að bíða. Ég hitti forseta Alþjóðaskotsambandsins í Marokkó og þá stakk hann því að mér að þeir hefðu mælt með mér.

Ég er eiginlega búinn að bíða eftir þessu frá því í janúar eða febrúar held ég. Eftir að hann sagði mér þetta var ekkert annað í boði en að æfa vel og láta eins og maður væri að fara.

Svo fer maður líka að hugsa, þegar þetta er ekki alveg pottþétt, hvort maður sé að eyða öllu þessu púðri í vitleysu. Maður vissi ekki alveg hvort maður ætti að koma eða fara.

Það var mjög gott að fá þessar fréttir, þá var það bara frá og maður þurfti ekki að spá meira í það. Þá setti maður allt á fulla ferð,“ sagði Hákon Þór.

Verð eiginlega ekkert heima

Hann er um þessar mundir staddur í Lonato á Ítalíu og mun þar taka þátt á heimsbikarmóti í leirdúfuskotfimi með haglabyssu.

„Það var gott þegar ég fékk símtalið. Ég er á Ítalíu og við vorum að taka æfingu fyrir heimsbikarmótið sem byrjar á morgun [í dag]. Ég var að rölta út í hring fyrir æfinguna þegar hringt var í mig.“

Hákon Þór telur heimsbikarmótið kjörinn undirbúning fyrir Ólympíuleikana.

„Ég kem heim 20. júní og fer svo til Grikklands í æfingabúðir og verð þar í örugglega tvær vikur. Ég verð eiginlega ekkert heima,“ sagði hann og hló.

Heppinn með fjölskyldu

Hákon Þór keppir fyrir Skotíþróttafélag Suðurlands, starfar sem smiður og á eiginkonu og tvö börn.

Hvernig hefur gengið að samtvinna skotfimina vinnu og fjölskyldulífi?

„Það gengur fínt, ég er mjög heppinn með fjölskyldu. Svo er ég sjálfstæður í smíðunum og hef því náð að stýra því nokkuð vel.

Svo setur maður þetta þannig upp, eins og þegar maður tekur að sér verkefni, að maður lætur fólk vita af því hvað er fram undan, svo maður sé ekki að svíkja neinn,“ sagði hann.

Svoddan ólíkindasport

Spurður hvort hann væri með einhverjar ákveðnar vonir og væntingar fyrir Ólympíuleikana sagði Hákon Þór að lokum:

„Nei, það hefur nú aldrei borgað sig. Þetta er svoddan ólíkindasport. Það er yfirleitt þannig að þegar maður heldur að það sé allt að fara í vaskinn gerir maður eitthvað gott.

Ég er ekkert mikið fyrir það að vera að búa til einhverjar væntingar og pælingar. Maður er náttúrlega með það í hausnum að reyna að gera eitthvað af viti. En því minna sem maður hugsar því betra.“