Jón Jónsson, þjóðfræðingur og ferðaþjónustubóndi á Kirkjubóli á Hólmavík, hyggst fara fram á íbúakosningu í sveitarfélaginu. Vill Jón að greidd verði atkvæði um kröfu hans til sveitarfélagsins um að gerð verði óháð rannsókn á þungum ásökunum starfsmanna Strandabyggðar í hans garð

Jón Jónsson, þjóðfræðingur og ferðaþjónustubóndi á Kirkjubóli á Hólmavík, hyggst fara fram á íbúakosningu í sveitarfélaginu.

Vill Jón að greidd verði atkvæði um kröfu hans til sveitarfélagsins um að gerð verði óháð rannsókn á þungum ásökunum starfsmanna Strandabyggðar í hans garð.

Hefur Jón meðal annars verið sakaður um sjálftöku á fjármunum úr sveitarsjóði í eigin þágu að upphæð 61.423.961 kr. þegar hann sat í hreppsnefnd á síðasta kjörtímabili sveitarfélagsins, að því er fram kemur í færslu sem hann birtir á Facebook. „Ég sætti mig ekki við þessa atlögu að mannorði mínu og tel að um hrein ósannindi og rógburð sé að ræða,“ segir í færslunni.

Segist Jón árangurslaust hafa kallað eftir rökstuðningi með ásökununum en engin svör eða sönnunargögn hafi verið lögð fram. Sveitarstjórn hafi þó ýjað að því að slík gögn væru fyrir hendi hjá sveitarfélaginu en þegar Jón hafi óskað skýringa á því orðalagi hafi hann engin svör fengið.