Í Manitoba Ainsley Hebert með bókina sem afi hennar fékk á Mýrum 1912.
Í Manitoba Ainsley Hebert með bókina sem afi hennar fékk á Mýrum 1912.
Vestur-Íslendingurinn Ainsley Hebert kemur til Íslands í næstu viku og ætlar að færa Álftaneskirkju á Mýrum eintak af Nýja testamenti Biblíunnar, sem Einar Þorvaldsson (1885-1975), föðurafi hennar frá Þverholtum á Mýrum, fékk að gjöf þegar hann flutti vestur um haf 1912

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Vestur-Íslendingurinn Ainsley Hebert kemur til Íslands í næstu viku og ætlar að færa Álftaneskirkju á Mýrum eintak af Nýja testamenti Biblíunnar, sem Einar Þorvaldsson (1885-1975), föðurafi hennar frá Þverholtum á Mýrum, fékk að gjöf þegar hann flutti vestur um haf 1912. „Mamma fékk bókina þegar afi dó, og síðan ég við andlát hennar en ég á engin börn og vil því skila henni á upprunalegan stað,“ segir hún.

Einar fæddist í Þverholtum, var eldri sonur hjónanna Þorvaldar Einarssonar (1855-1888) og Þorbjargar Runólfsdóttur (1859-1954), en Jóhann var þremur árum yngri. Eftir að faðir hans andaðist fór hann í fóstur til Jóns Hallssonar og Ólafar Pétursdóttur á Smiðjuhóli. Þórður Pétursson og Guðrún Hallsdóttir tóku við Jóhanni og flutti fjölskyldan síðar til Vesturheims. Þorbjörg átti Láru Jakobínu með Árna Árnasyni á Litluþúfu og fluttu þær vestur 1902. Einar fór á eftir þeim 1912 og þá gaf Ólöf Jónsdóttir, dóttir Jóns og Ólafar, honum bókina. Á saurblaði stendur eftirfarandi með fallegri skrift: „Til Einars Þorvaldssonar með hjartkærri ósk um hamingjusama framtíð, og þökk fyrir liðna tímann, frá þinni frænku Ólöfu Jónsdóttur Smiðjuhóli. 23. febrúar 1912.“

Sigurður Hafliðason, seinna skráður Sigurdson, og Sigríður Jónsdóttir frá Suðurríki í Mýrasýslu fluttu vestur með börn sín Guðrúnu (f. 1883) og Magnús á árunum 1886-1888. Guðrún og Einar giftust 1920 og bjuggu í Árborg, Manitoba, þar til þau færðu sig um set suður til Selkirk. Dætur þeirra voru Violet, Sigrún, Solla og Irene.

Þýðingin breytti öllu

Ainsley er dóttir Sollu og Rolands Hebert. Hún fæddist í Selkirk og hefur búið í The Pas, um 625 km norðvestur af Winnipeg í Manitoba, í tæplega 40 ár. Hún þekkir ekkert skyldfólk á Íslandi og íslenska er henni framandi. Lorna Sanderson, vinkona hennar og nágranni, kynntist Fríðu Björnsdóttur, fyrrverandi blaðamanni og framkvæmdastjóra Blaðamannafélags Íslands, þegar Fríða var ritstjóri Lögbergs-Heimskringlu í Winnipeg veturinn 1976-1977. Hún fékk dóttur Fríðu, Völu Ósk Bergsveinsdóttur, til að þýða fyrrnefndan texta fyrir Ainsley. „Þegar ég fékk ensku þýðinguna vissi ég fyrst um hvað málið snerist og vildi koma bókinni aftur í heimahagana á Íslandi,“ segir Ainsley. „En fyrst varð ég að komast að því hver frænkan var og hvaðan afi var.“

Álftaneskirkja var byggð 1904 og verður 120 ára afmælisins minnst í árlegri sumarmessu klukkan 14.00 sunnudaginn 23. júní. Vinkonurnar koma til landsins frá Kanada 19. júní, mæta í messuna og við það tækifæri ætlar Ainsley að gefa kirkjunni bókina.

Violet, móðursystir Ainsley, kom til Íslands fyrir margt löngu og kynntist skyldfólki, en sambandið rofnaði. „Ég hef reynt að leita uppi skyldfólk en án árangurs,“ segir Ainsley, spennt fyrir fyrstu Íslandsferðinni. „Það væri bónus að ná einhverri tengingu, en aðalatriðið er að koma bókinni til þeirra sem vilja varðveita hana ásamt sögunni sem henni fylgir.“