Brot úr framtíð Þorgerður innan um gripi á sýningunni. „Fornminjar framtíðar eru ruslið okkar í gær.“
Brot úr framtíð Þorgerður innan um gripi á sýningunni. „Fornminjar framtíðar eru ruslið okkar í gær.“ — Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
„Þetta á upphaf sitt í því að sumarið 2014 bauð vinur minn mér að aðstoða við fornleifauppgröft í Mývatnssveit, en mitt hlutverk var að skrá jarðfundna gripi. Úr stórum haug af fornminjum birtist óvænt lítill rauður plastbútur sem fornleifafræðingarnir ákváðu að halda

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

„Þetta á upphaf sitt í því að sumarið 2014 bauð vinur minn mér að aðstoða við fornleifauppgröft í Mývatnssveit, en mitt hlutverk var að skrá jarðfundna gripi. Úr stórum haug af fornminjum birtist óvænt lítill rauður plastbútur sem fornleifafræðingarnir ákváðu að halda. Þarna áttaði ég mig á því að fornminjar framtíðar eru ruslið okkar í gær, bókstaflega,“ segir Þorgerður Ólafsdóttir myndlistarkona, en núminjar og myndlist mætast á sýningu hennar, Brot úr framtíð, sem var opnuð í Þjóðminjasafninu um liðna helgi í samstarfi við Listahátíð í Reykjavík. Sýningin tekur saman myndlistarverkefni og listrannsókn Þorgerðar þar sem hún veltir fyrir sér fyrirbærum tengdum mannöld og hugmyndum um menningar- og náttúruarf. Á sýningunni má sjá listaverk og ólíka fundna muni úr náttúrunni, stóra og smáa, sem eru samofnir sögu mannsins og áhrifa hans sem ná langt út fyrir himinhvolf jarðarinnar.

„Þessi fyrrnefndi rauði óræði plastbútur mun að endingu fara til varðveislu í safneign Þjóðminjasafnsins, en enginn veit hvað þetta er. Seinna fóru áhrifamiklar myndir að birtast okkur á netinu, til dæmis af dauðum fuglum með magann fullan af plasti og minnisstæð er mynd af sæhesti sem krækir halanum utan um eyrnapinna,“ segir Þorgerður en henni fannst áhugaverðasta spurningin í tengslum við plastbútinn vera: Hvað er þetta í dag?

Jarðfundnir plastgripir

„Ég fór að forvitnast um þetta hjá Þjóðminjasafninu, en mjög ströng minjalög eru á Íslandi sem kveða á um að forngripir séu ekki minjar nema þeir séu hundrað ára eða eldri. Ég komst að því að samt var byrjað að safna jarðfundnum plastgripum víðs vegar um landið, sem voru varla orðnir fimmtíu ára. Fyrsti gripurinn til að berast inn í þennan óræða anga fannst 1987, fyrir 37 árum. Fornleifafræðingar eru að svo miklu leyti framtíðarfræðingar og einhver framsýnn fornleifafræðingur ákvað að taka þennan grip með. Aðeins hafði verið lokið við skáningu tveggja gripa af þeim fjörutíu sem voru komnir inn á safnið, og fyrir vikið voru þeir ekki aðgengilegir inni á Sarpi. Ég bauðst til að ljósmyndaskrá þá alla, en í staðinn fékk ég að taka eigin ljósmyndir sem ég setti saman í innsetningu og sýndi í Harpinger-galleríi 2016. Mér fannst áhugavert að það var ekki til skilgreint heiti á þessa gripi, en innan okkar vísinda og fræða reynum við alltaf að setja stórar hugmyndir og erfið viðfangsefni inn í kerfi, til að skilja heiminn betur, með því að flokka allt og stilla upp í kerfi. Þannig náum við utan um veröldina.“

Rusl á ferð í geimnum

Þorgerður segist hafa farið að kalla þessa gripi núminjar, og að það hafi orðið einskonar regnhlífarhugtak yfir óræða gripi sem ögra hugmyndum okkar um samtímaminjar.

„Á sýningunni Brot úr framtíð eru líka plaststeinar sem hafa fengið heitið Plastiglomerate, en það eru steinar sem finnast í náttúrunni og verða til við samruna rusls og jarðefnis. Í þeim eru bergtegundir, skeljasandur og rusl. Þetta eru óstýrilátir munir sem snúa öllu á hvolf. Ég hef líka verið að skoða sjórekið plast, en mér finnst það vera annað og meira en rusl sem finnst á ströndum. Örfáir fornleifafræðingar eru að rannsaka slíkt efni, sem er í raun nútíma reki, ein þeirra er Þóra Pétursdóttir fornleifafræðingur sem er mikilvægur samstarfsaðili minn, en hún kallar þetta rekaefni. Þar vísar hún ekki aðeins í sjórekið rusl um alla jörðina, heldur líka það sem er á ferð í geimnum.“

Útprentaða teppið Babúla

Sumarið 2021 fékk Þorgerður rannsóknarleyfi til að dvelja í Surtsey í þrjá daga þar sem hún var að skoða ummerki mannsins í náttúru og umhverfi Surtseyjar.

„Ég safnaði allskonar plastdrasli og ég gekk á steingerðum fótsporaslóða í móberginu. Ég fjalla um þetta í bókinni minni Esseyju, sem kom út síðastliðið haust, en verkefnið með Þjóðminjasafninu hefur alltaf verið mér mjög hugleikið. Mér fannst vera aðkallandi fyrir safnið að ávarpa þennan anga, því í dag eru jarðfundnir plastgripir orðnir 170, þeir hafa meira en fjórfaldast frá 2016. Sýningin og verkin mín núna eru viðleitni til að nálgast þessa gripi á annan hátt en að horfa á þá í gegnum sýningargler. Sýningin í Bogasalnum er í raun eitt stórt verk, á gólfinu er teppi sem sýnir plastgripi í vörslu safnsins, teppi sem ég lét prenta út og eru ljósmyndaðir gripir í eigu safnsins. Sýningargestir ganga því á núminjum. Teppið sjálft var áður plast, það er úr endurbættu næloni. Nokkur verk eru á sýningunni en teppið, sem heitir Babúla, er viðamesta verkið á sýningunni. Ég lét líka prenta út þrjátíu fermetra smásjármynd af ískjarna í Grímsvötnum, sem sýnir ísalög frá 1950, en það tímatal kemur oft upp í tengslum við tímamörk mannaldar. Í gegnum þessar ljósmyndir sjást ummerki um míkróplast í jöklum. Sýningarborðin eru frá 1950, eins og Þjóðminjasafnið, byggingin sjálf eftir Guðjón Samúelsson, flestir af þessum gripum eru líka frá þessum tíma. Á sýningarborðum er stillt upp þessu framtíðarsafni sem eru þessi gripir, rekaefni, plaststeinar m.a. frá Íslandi og jarðfundið plast. Ég gerði líka hólagramvörpun af golfkúlu sem er jarðfundinn munur og varðveittur á Þjóðminjasafninu, en ég læt kúluna snúast eins og tunglið. Fyrir tveimur árum fékk ég sýningarboðið staðfest og ég hef verið að vinna að þessu allar götur síðan. Sýningarhönnunin var unnin í samtali og samstarfi við Garðar Eyjólfsson,“ segir Þorgerður sem tekur þátt í þverfaglegu rannsóknarverkefni sem heitir Relics of Nature, og er hýst við Háskólann í Osló.

„Sú sem leiðir það verkefni er fyrrnefnd Þóra Pétursdóttir fornleifafræðingur, en hún er með þessar risastóru byltingarkenndu hugmyndir sem kollvarpa öllu. Hún er að gera allt vitlaust í minjaheiminum.“