Flaska Haraldur Haukur Þorkelsson framkvæmdastjóri og einn eigenda með Flóka-viskí í hendi.
Flaska Haraldur Haukur Þorkelsson framkvæmdastjóri og einn eigenda með Flóka-viskí í hendi. — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eimverk í Garðabæ er eina brugghúsið á Íslandi í viskígerð og seldi það íslenskt viskí, undir vörumerkinu Flóki, fyrir 250 milljónir króna til 90 landa á síðasta ári. Haraldur Haukur Þorkelsson, framkvæmdastjóri og einn eigenda, segir í samtali við…

Arinbjörn Rögnvaldsson

arir@mbl.is

Eimverk í Garðabæ er eina brugghúsið á Íslandi í viskígerð og seldi það íslenskt viskí, undir vörumerkinu Flóki, fyrir 250 milljónir króna til 90 landa á síðasta ári. Haraldur Haukur Þorkelsson, framkvæmdastjóri og einn eigenda, segir í samtali við Morgunblaðið að viskíframleiðslan sé orðin að „bisness“ hjá fyrirtækinu.

„Við gerum viskí úr 100% íslensku byggi. Veðmálið okkar þegar við stofnuðum fyrirtækið árið 2009 var að á Íslandi væri tækifæri til að búa til heimsklassa viskí úr íslensku hráefni. Íslenskt vatn og bygg hentar einstaklega vel til viskígerðar,“ segir hann.

Sjálfvirk framleiðsla

Að búa til nýsköpunarfyrirtæki í viskíframleiðslu er langtímaverkefni og bendir Haraldur á að það taki tólf ár að framleiða tólf ára viskí, en það er geymslutími viskísins í viðartunnum til að hámarka gæðin.

Spurður nánar út í rekstrarsöguna segir hann að fyrstu þrjú árin hafi farið í vöruþróun, vinnu með íslenskt hráefni og að búa til uppskrift. Síðastliðin tíu ár hafi fyrirtækið þroskað vöruna og komið henni á markaði, aðallega erlendis.

Haraldur segir að sjálfvirkni framleiðslunnar sé mikil, enda rak fjölskylda hans tæknifyrirtækið Samey í 25 ár, þar til nýir eigendur tóku við fyrir þremur árum.

„Framleiðsla Eimverks hefur fjórðu kynslóðar sjálfvirkni. Til að hámarka framleiðsluna, nákvæmni og gæði erum við með snertiskjái á hverri einustu vél. Í lok hvers dags sér tölvukerfið um að færa allar upplýsingar sjálfvirkt í gagnagrunn, sem er mikilvægt fyrir gæðastjórnun og rekjanleika,“ útskýrir hann.

Haraldur segir að vískíið verði að geymast í viðartunnum að lágmarki í þrjú ár. Viskíið sem fyrirtækið er með til sölu núna er þriggja til sjö ára gamalt en aldurinn er alltaf að aukast að sögn Haraldar.

Tekur nokkur ár

„Þetta þýðir að öll aukningin í okkar framleiðslu tekur nokkur ár að komast í gegnum kerfið. Þrátt fyrir hátt vaxtastig og krefjandi efnahagshorfur víðs vegar í heiminum er staða Eimverks á erlendum mörkuðum mjög sterk. Við sjáum fram á enn meiri vöxt,“ segir hann.

Spurður nánar um eftirspurnina hjá erlendum dreifingaraðilum segir Haraldur að hún sé töluvert meiri en framboðið á þessu ári og næstu árin.

„Við erum núna í þeirri stöðu að við erum að framleiða 100 þúsund flöskur á ári. Þær eru allar uppseldar og eftirspurnin er töluvert umfram það,“ segir hann.

Eingöngu íslensk hráefni eru notuð í framleiðslunni og að sögn Haraldar ræktar fyrirtækið að stórum hluta sitt eigið bygg á jörð í eigu fjölskyldunnar í Bjálmholti á Suðurlandi.

„Við erum einnig að vinna með mörgum bændum í byggræktun þar sem við ætlum að auka framleiðslugetuna. Í dag þarf viskíframleiðslan 200 tonn af byggi. Þetta fer að reiknast í þúsundum tonna ef við ætlum að ná okkar markmiðum,“ segir hann.

Haraldur bætir við að íslenskar aðstæður fyrir viskíframleiðslu hafi mælst mjög vel fyrir á mörkuðum erlendis. Ísland hafi góð ræktunarlönd sem henti einkar vel til byggræktunar.

Veitir sérstöðu

Haraldur segir að það sem veiti Eimverk einnig sérstöðu, í samanburði við Skotland til dæmis, stærsta viskíframleiðanda í heimi, sé aðgangur að hreinu vatni. „Í Skotlandi er viskíframleiðslan þeirra sjávarútvegur. Staðan þar er hins vegar sú að það er búið að ráðstafa öllu því vatni sem nota má til slíkrar framleiðslu. Skoskir framleiðendur eiga því erfitt með að auka framleiðslugetuna ólíkt okkur á Íslandi,“ segir Haraldur að lokum.

Eimverk

Seldu íslenskt viskí fyrir 250 milljónir króna í fyrra undir vörumerkinu Flóki.

Notar eingöngu íslenskt hráefni.

Ræktar sitt eigið bygg.

Framleiða 100 þúsund flöskur á ári.

Stefna á að hundraðfalda framleiðsluna á næstu árum.