Dans Rýnir segir dansverkið While in battle I’m free, never free to rest „fullt af kærleika, krafti og samkennd“.
Dans Rýnir segir dansverkið While in battle I’m free, never free to rest „fullt af kærleika, krafti og samkennd“. — Ljósmynd/Sunna Ben
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Borgarleikhúsið - Listahátíð í Reykjavík While in battle I’m free, never free to rest ★★★★· Danshöfundur og listrænn stjórnandi: Hooman Sharifi. Tónlist: Arash Moradi. Lýsing: Alex Leó Kristinsson/Hooman Sharifi. Hljóð: Þorbjörn Steingrímsson. Búningar: Júlíanna Lára Steingrímsdóttir/Hooman Sharifi. Listrænn ráðgjafi: Brynja Pétursdóttir. Íslenski dansflokkurinn og hópur götudansara. Frumsýnt á Nýja sviði Borgarleikhússins 7. júní 2024.

Dans

Sesselja G.

Magnúsdóttir

Dansverkið While in battle I’m free, never free to rest, sem frumsýnt var í Borgarleikhúsinu 7. júní, sýnir hvað gerist þegar tveir ólíkir heimar innan dansins, götudans og sviðsdans, taka þeirri áskorun að vinna saman. Hooman Sharifi, höfundur verksins, sem er með bakgrunn í götudansi en menntaður í samtímadansi, segir að hugmyndin á bak við sýninguna sé að kanna hvernig það sé að tilheyra hópi og lifa í sátt og samlyndi þrátt fyrir að vera ólík.

Í verkinu mæta dansarar Íslenska dansflokksins, allir með formlega menntun í klassískum ballett, nútíma- og samtímadansi, dönsurum úr götudanssenunni sem hafa lært og þjálfað sína dansstíla, t.d. hipphopp, locking og waaching, utan formlegs menntakerfis. Fyrir flest okkar hljómar þessi samvinna eðlileg og spennandi en ef bakgrunnur þessara stíla er skoðaður sést að það er ekki sjálfsagt að þetta sé hægt og við getum þakkað fyrir hvað átök á milli þessara heima eru okkur fjarri. Dansstílarnir sem dansarar Íslenska dansflokksins eru menntaðir í eiga rætur í menningu hvítrar milli- og hástéttar í Evrópu, en götudansinn verður til innan jaðarhópa í Bandaríkjunum, samfélagi hinsegin fólks og samfélögum blökkumanna. Hér á landi eru fyrrnefndu stílarnir viðurkenndir sem námsefni í formlegu dansnámi, bæði í grunn- og framhaldsskóla, samkvæmt aðalnámskrá en götudansinn hefur þar engan sess.

Í æfingaferlinu kynntust dansararnir hreyfistíl hver annars og var greinilegt að hóparnir höfðu mætt í það ferli með opinn huga. Niðurstaða ferlisins varð samt ekki sameiginlegt danstungumál heldur stigu þau á svið og sýndu hvert öðru og áhorfendum færni sína og sérstöðu innan ramma sem minnti bæði á óformlegan dansbardaga og fullunnið dansverk.

Umgjörð verksins gaf til kynna að hér væri um leikhúsupplifun að ræða, það gerðu t.d. áhorfendabekkirnir, stólarnir, leikhúsljósin og dansdúkurinn. Uppröðunin í salnum vísaði aftur í götudansinn. Líkt og í dansbardaga sátu áhorfendur hringinn í kringum sviðið með dansarana í innsta hring tilbúna til að taka þátt í bardaganum. Fjórði veggurinn var þannig fjarlægður og dansarar og áhorfendur deildu rými. Ólíkt því sem gerist í dansbardaga, þar sem áhorfendur eru þátttakendur í viðburðinum og sýna hver þeim þykir standa sig best með hvatningu og klappi, höfðu áhorfendur á sýningunni ekkert hlutverk annað en að horfa rétt eins og í hefðbundnu leikhúsi. Það er áhugavert að velta fyrir sér hvernig það væri ef áhorfendur hefðu tekið uppröðuninni sem merki um að þeir væru mættir á dansbardaga og hefðu hegðað sér samkvæmt því.

Ertu að dansa fyrir mig eða þig?

Uppbygging verksins var hæg en markviss. Í fyrri hluta þess fóru dansararnir út á gólfið einn og einn í einu og sýndu hæfni sína þar til einhver nýr tók yfir sviðið. Baráttan um athyglina var ekki harkaleg en það var greinilega regla að víkja ef annar kom út á gólfið. Samspil dansaranna minnti þannig á góðar kappræður þar sem einn hefur orðið þar til annar grípur fram í, svarar því sem sagt er, fer með málefnið lengra eða skiptir um umræðuefni sér í hag. Hver dansaði á sinn hátt en samt í samtali við hina. Stundum urðu til dúettar þar sem keppni virtist hverfa en samkennd koma í staðinn. Síðan voru kröftugri kaflar þar sem hópurinn var allur á sviðinu í einu og hver og einn dansaði á sinn hátt en líka í nánu samspili við hina.

Þegar dansarar fara á svið gera þeir það til að dansa fyrir áhorfendur, það er þó misjafnt hversu sterk tengslin við þá eru. Í While in battle I’m free, never free to rest gáfu dansararnir áhorfendum lítinn gaum en fylgdust grannt hver með öðrum. Ekki ólíkt því sem gerist í félagslegum dönsum virtust dansararnir samankomnir í rýminu til að njóta þess að dansa í góðum hópi. Þetta endurspeglaðist ekki síst í undurfallegu augnabliki í lok verksins þar sem hópurinn mættist í stórum hring með bakið í áhorfendur. Þar héldust þau í hendur og horfðu hvert á annað eitt augnablik áður en þau sneru sér í átt að áhorfendum og hneigðu sig. Áhorfendur urðu vitni að því sem fram fór en voru annars frekar afskiptir.

Hljóðmynd dansverksins var lifandi tónlistarflutningur íransk-kúrdíska tónlistarmannsins Arash Moradis. Hann sat rétt við sviðið og spilaði á íranska hljóðfærið tanbur, sem á rætur að rekja þúsundir ára aftur í tímann. Tanbur er strengjahljóðfæri, svolítið eins og banjó, og gefur frá sér hráan og fornan tón. Tónlistin sem Moradis samdi sérstaklega fyrir verkið var lágstemmd og oft og tíðum eintóna en gat líka verið kröftug og undirstrikað þannig þá kafla í verkinu þar sem mikið var um að vera hjá dönsurunum á sviðinu. Að sögn Sharifi valdi hann að nota þetta hljóðfæri og þessa gerð tónlistar í verkinu þar sem þau sköpuðu hljóðheim sem var óþekktur og framandi báðum hópum og myndaði þannig hlutlaus rými. Þögn var líka notuð á áhrifamikinn hátt á nokkrum stöðum og má þar nefna að dansverkið byrjaði með því að Moradis spilaði þó nokkra stund án þess að eitthvað gerðist á sviðinu en dró sig svo í hlé þegar fyrsti dansarinn byrjaði að tjá sig í hreyfingu. Dansararnir tengdu greinilega vel við tónlistina og kölluðust tónlistin og dansinn vel á.

Mörg okkar hafa, á rölti um torg og göngugötur erlendra borga, stoppað til að horfa á götudansara sýna listir sínar. Kröftug og grípandi tónlist vekur forvitni sem og þyrping fólks sem stendur í hring eða hálfhring og klappar fyrir listamönnunum þar sem þeir leika listir sínar. Maður tekur sér stöðu í hópnum og horfir andaktugur þar til atriðið klárast og heldur svo sína leið. Stoppið tekur kannski fimm, tíu eða fimmtán mínútur en sjaldnast meira og ekki einn og hálfan tíma eins og sýningin tók. Þessi mynd kom upp í hugann þegar ég hóf þessi skrif því að það var ljóst að verkið var ekki aðgengilegt öllum. Áhorfendur áttu margir hverjir erfitt með að halda athygli þegar líða tók á verkið og gæti það skýrst af því að verkið var annað en vænst var, eintóna hljóðheimurinn, lengd sýningarinnar, afskiptaleysi dansaranna sem og lýsingin sem var meira rökkur en ljós tók á.

Aftur á móti fyrir þá sem njóta þess að lesa góðar bækur og horfa á bíómyndir þar sem ekkert gerist en hvert augnablik er fegurð og nutu þess að horfa á dansverkið Moltu í Gerðarsafni, sem tók fjóra tíma í flutningi, þá er dansverkið While in battle I’m free, never free to rest fallegt og fullt af kærleika, krafti og samkennd.